Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fagnar því að Icesave-viðræður séu hafnar á ný en íslenska samninganefndin hefur setið á fundum með hollensku og bresku samninganefndinni undanfarna tvo daga. Steingrímur á ekki von á því að næstu fundir verði haldnir fyrr en í ágústlok. Skýrist það einkum af sumarleyfum í Bretlandi.
Steingrímur segir að ekki hafi verið langur aðdragandi að því að það tókst að koma fundunum á. „Undanfarnar vikur og mánuði hafi verið unnið að því að koma hreyfingu á málið og það er ánægjulegt að það tókst," segir Steingrímur í samtali við mbl.is.
Hann segir að á fundunum nú sé fyrst og fremst verið að fara yfir stöðu mála. „Auðvitað hefur verið unnin talsverð undirbúningsvinna sem menn eru að fara yfir og vonandi tekst að ákveða eitthvað um framhaldið í lok þessarar lotu," segir Steingrímur. Hann á þó ekki von á að það takist að hefja næstu lotu fyrr en undir lok sumars.
Aðspurður um hvernig hljóðið er í hollensku og bresku samninganefndunum segir Steingrímur að menn skynji að það sé jákvætt. Að minnsta kosti hafi menn verið tilbúnir í alvöru viðræður og til að hittast. „Það er áfangi," segir Steingrímur sem hitti fundinn undir kvöld í gær og þar hafi verið jákvætt hljóð í samninganefndunum.
Fjármálaráðherra á ekki von á að þrátt fyrir að ekki sé búið að mynda ríkisstjórn í Hollandi, en þar er starfandi starfsstjórn þar til stjórnarmyndunarviðræður skila árangri, þá hafi það ekki áhrif á að viðræður geti haldið áfram um Icesave-reikningana.