Samninganefnd íslenskra stjórnvalda hefur í gær og í dag fundað með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda í Reykjavík um lyktir Icesave málsins.
Fundirnir eru fyrst og fremst til að skiptast á upplýsingum og undirbúa frekari viðræður síðar á þessu ári. Er þetta fyrsti fundur sem hefur átt sér stað eftir að ákveðið var að gera hlé á viðræðum þann 5. mars síðastliðinn.
Fyrir samninganefndinni fer bandaríski lögfræðingurinn Lee Buchheit. Auk hans skipa nefndina Guðmundur Árnason og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, ásamt Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni og Lárusi Blöndal lögmanni, sem tilnefndur er af stjórnarandstöðuflokkunum sameiginlega. Þeim til ráðgjafar eru sérfræðingar ráðgjafarfyrirtækisins Hawkpoint og lögfræðistofunnar Ashurst, samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.