Ekki er komin endanleg dagsetning á hvenær Icesave-viðræður íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda hefjast á ný, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Hann segir að það strandi helst á Bretum að ákveða nákvæma tímasetningu fundarins.
AFP fréttastofan hafði það eftir ónafngreindum heimildarmanni innan íslensku ríkisstjórnarinnar sl. föstudag að fulltrúar Íslendinga, Breta og Hollendinga muni eiga formlegan fund á næstu vikum til að ræða um nýtt samkomulag um Icesave-skuldbindingarnar.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ræddi ekki við fréttamenn að afloknum ríkisstjórnarfundi en aðspurður um hæfi nefndarmanna í orku- og auðlindanefnd segir Steingrímur að það eigi ekki að tefja störff nefndarinnar. Hún hafi þegar fengið lengri frest til starfans.
Verkefni nefndarinnar er þríþætt. Hún mun vinna sjálfstæða úttekt á kaupum Magma Energy á eignarhlutum HS Orku og á grundvelli hennar láta í ljós álit sitt á því hvort stjórnvöld skuli grípa inn í umrædd viðskipti en niðurstöðum þess þáttar átti að skila fyrir 15. ágúst. Sá frestur hefur verið lengdur.