Samningaviðræðum íslenskra stjórnvalda við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi um lausn Icesave-deilunnar lýkur væntanlega fyrir lok árs, segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra í samtali við Reuters.
Spurður að því í viðtalinu við Reuters um hvort viðræðurnar myndu ná fram á næsta ár taldi Össur það ólíklegt.
„Mín reynsla af Icesave er sú að ekki er hægt að útloka neitt. En ég held í hreinskilni sagt að það sé ólíklegt," sagði Össur sem er staddur í Ósló.
Össur segir að hann telji að viðræðunum ljúki innan mánaðar. Hann er hins vegar ekki viss um að allir þeir sem koma að viðræðunum verði ánægðir með niðurstöðuna en væntanlega sáttir.
Hann sagði við blaðamann Reuters að hann hefði svarað fyrir mánuði síðan að hann teldi að viðræðunum myndi ljúka innan tveggja vikna. Nú telji hann líklegt að niðurstaðan liggi fyrir innan mánaðar, jafnvel fyrr. Segir Össur að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi nú.
Eins og áður hefur komið fram þá telur Össur engar líkur á að Icesave-viðræðurnar muni trufla aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Hann segir að treysta verði leiðtogum ESB þar að lútandi.
Össur sagði í viðtalinu við Reuters að sambandið milli Íslands og Kína hafi aukist í kjölfar efnahagshrunsins hér og Kínverjar hafi aðstoðað Íslendinga á meðan aðrar þjóðir, sem stæðu þeim nær, hafi ekki gert það. Meðal annars með gjaldeyrisskiptasamningum. Eins hafi Kínverjar sýnt áhuga á málmframleiðslu sem þurfi á mikilli raforku að halda. Sem og á samstarfi á Norðurslóðum.