Enn óvissa um vaxtakostnað vegna Icesave

Enn er mikil óvissa um vaxtakostnað ríkissjóðs í tengslum við Icesave-skuldbindingarnar, samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands. Líkt og fram kom í fréttum í gær á Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, von á því að samkomulag vegna Icesave liggi fyrir fyrir lok árs.

Lögum um ríkisábyrgð á samning þar sem kveðið var á um fasta 5,5% vexti var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári og nýr samningur liggur ekki fyrir.

Í spá Seðlabankans nú er gert ráð fyrir að niðurstaða nýrra samninga um Icesave-skuldbindinguna gæti í megindráttum orðið í samræmi við það sem til umræðu var áður en samningaviðræðum var slitið í febrúar sl.

„Á meðan ekki er samið um Icesave-skuldbindinguna verður áfram óvissa um skuldastöðuna. Áætlað er að skuldahlutfall hreinna skulda hins opinbera nái hámarki á þessu og næsta ári þegar það verður tæplega 60% af landsframleiðslu en taki að lækka frá og með árinu 2012 og verði orðið 49% árið 2013.

Við það mat á hreinum skuldum eru aðeins taldar til eigna handbærar peningalegar eignir hins opinbera í sjóðum. Hreinar skuldir þannig taldar eru ekki sambærilegar hreinum skuldum annarra landa þar sem hefðbundið er að telja einnig til eigna aðrar peningalegar eignir.

Ef hreinar skuldir hins opinbera væru þannig reiknaðar væru þær 40% af landsframleiðslu. Vergar skuldir ná hins vegar hámarki í ár þegar þær nema rúmlega 105% af landsframleiðslu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka