Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins staðfestir í samtali við Bloomberg fréttastofuna að drög að samkomulagi liggi fyrir varðandi Icesave. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í viðtali við Bloomberg að hann viti af því að drög að samkomulagi liggi fyrir.
Að sögn Vilhjálms eru drögin að samkomulaginu mun hagstæðari Íslendingum en Bretar og Hollendingar hafa hingað til viljað bjóða Íslendingum. Er þetta í samræmi við það sem fram kemur í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að Hreyfingin hafi ekki verið upplýst um drögin en Rósa Björk Brynjólfsdóttir, talsmaður fjármálaráðuneytisins, vildi ekki tjá sig um málið við Bloomberg fréttastofuna þegar eftir því var leitað.
Bjarni segir í samtali við Bloomberg að hann hafi fylgst með gangi viðræðnanna við Breta og Hollendinga í gegnum fulltrúa flokksins í viðræðunefndinni. Honum hafi verið tjáð að útlit sé fyrir að mun hagfelldara samkomulag sé í sjónmáli. „Á sama tíma er enginn samningur á borðinu. Enginn samningur hefur verið gerður, einungis viðræður þar sem atriði sem ósamkomulag hefur verið um hafa verið leyst hvert á fætur öðru. Án þess þó að þeim hafi öllum verið lokið," segir Bjarni í viðtali við Bloomberg.