Niðurstaða Icesave vonandi í vikunni

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að hún vonist til að dragi til tíðinda í Icesave-málinu í vikunni. Tvö til þrjú atriði standi hins vegar enn út af borðinu. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma við upphaf þingfundar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ósáttur með að niðurstaðan sé kynnt „úti í bæ“ en ekki í þinginu.

Bjarni spurði ráðherra hvað það eigi að þýða að bjóða Alþingi upp á að fá kynningu á nýjum Icesave-samningi „bráðum“ á meðan hún er kynnt annars staðar. 

Jóhanna svaraði því til að eflaust vissu þingmenn hvað í drögunum felst. Hins vegar verði samningarnir ekki kláraðir fyrr en þeir eru endanlega í höfn. Fyrr verður ekki skýrt frá innihaldi þeirra opinberlega. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, kom einnig upp í ræðustól og spurði hvort það væri tilfellið að drög að nýjum Icesave-samningni liggi fyrir. Ef svo væru það nýjar fréttir fyrir honum.

Jóhanna svaraði því þá til að Sigmundur Davíð viti nákvæmlega hvar Icesave-samningarnir standa.

mbl.is