Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segist vonast til þess að gengið verði frá Icesave-samkomulagi við Breta og Hollendinga sem fyrst en ekki hafi verið haft samband við SA frá því um miðjan nóvember þegar samningsdrögin voru kynnt líkt og fram kom á mbl.is og Morgunblaðinu á þeim tíma.
Hann segir að fram hafi komið í fjölmiðlum að undanförnu að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafi verið að reyna að fá þingmenn Sjálfstæðisflokksins til liðs við Icesave. „Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki hitt neinn einasta þingmann Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki til að það hafi verið gert," segir Vilmundur.
Vilmundur segir að SA leggi áherslu á að þetta mál verði klárað vegna áhrifa þess á lánveitingar til íslenskra aðila erlendis. Útlit sé fyrir að Evrópski fjárfestingarbankinn láni ekki Landsvirkjun á meðan ekki hefur náðst samkomulag um Icesave.
Einkafyrirtæki semji yfirleitt um lán hjá einkabönkum á meðan opinber fyrirtæki semji um lán hjá bönkum eins og NIB og Evrópska fjárfestingarbankann.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki svarað áminningarbréfi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) frá því í vor, þar sem ESA lýsti þeirri skoðun sinni að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn samningum um Evrópska efnahagssvæðið með því að greiða ekki lágmarksinnistæðutryggingu til þeirra sem áttu fé inni á Icesave-reikningum Landsbankans.
Fyrsti frestur til andsvara rann út hinn 1. ágúst í sumar en var framlengdur til 8. september.
Þá veitti ESA ótiltekinn frest, með óformlegum hætti. Loks veitti ESA íslenskum stjórnvöldum frest til 7. desember, það er á morgun.
Vilmundur segir að það valdi að sjálfsögðu áhyggjum ef til málaferla kemur og segir SA leggja áherslu á að málið verði klárað við samningsborðið og Íslendingar taki ábyrga afstöðu.
Í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér þann 16. nóvember kemur fram að ekki liggi fyrir samningsniðurstaða í Icesave-málinu en jákvæð samskipti hafi átt sér stað á undanförnum misserum milli samninganefnda þjóðanna þriggja um málið og ljóst er að árangur hefur náðst í viðræðum milli aðila.