Talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins staðfestir við Reuters fréttastofuna í dag að samkomulag sé í höfn í deilu Íslendinga, Hollendinga og Breta um Icesave-reikninga Landsbankans. Síðar í dag mun ráðuneytið senda út tilkynningu um hvað fellst í samkomulaginu.
Samninganefndir Íslands, Bretlands og Hollands funduðu um málefni Icesave í Lundúnum í gær, miðvikudag. Afrakstur viðræðnanna verður fyrst kynntur í dag formönnum stjórnmálaflokkanna sem tilnefndu fulltrúa í samninganefndina. Því næst fá utanríkis-og fjárlaganefnd, þingflokkar og aðilar vinnumarkaðarins kynningu. Samninganefndin heldur að því loknu blaðamannafund þar sem málið verður kynnt opinberlega klukkan átján í dag, samkvæmt tilkynningu frá íslenska fjármálaráðuneytinu.