Ekkert lát er á verðhækkunum á eldsneyti. Þannig hækkaði bensínlítrinn um 4 kr. hjá Shell, Olís og N1 í gær í 226,90 kr. Dísilolía hækkaði hins vegar um 5 kr. í 231,80 kr. hjá stóru olíufélögunum þremur.
Sé miðað við að fólksbíll eyði 10 lítrum af bensíni á hverja 100 ekna km og að eknir séu 15.000 km á ári, líkt og í viðmiðun Félags ísl. bifreiðaeigenda (FÍB), er eldsneytiskostnaður kominn í 340.350 kr. á ári.
Samkvæmt FÍB fara þar af 50,3% í skatta eða um 170.000 kr. á ári. Greiða hjón með tvo slíka bíla því nú ríflega 340.000 í bensínskatt á ári.
Bensínverðið veldur mikilli kjaraskerðingu hjá leigubílstjórum og segir einn þeirra í samtali við Morgunblaðið í dag að bensínskattar af einum leigubíl séu orðnir svipaðir og laun afleysingabílstjóra sem aki 120-130 tíma á mánuði.