Byrjað að greiða í haust

Ljósmynd/Björg í bú

Ísland mun greiða Bretum og Hollendingum fyrstu greiðsluna vegna Icesavae síðar á árinu. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra í dag. Segir Steingrímur væntanlega verði 30-40% höfuðstólsins greidd á næstu mánuðum. Lengra væri hins vegar í að lokið verði við að greiða Bretum og Hollendingum Icesave-skuldina.

Bresk og hollensk stjórnvöld vilja fá endurgreiddar rúmlega fimm milljónir Bandaríkjadala vegna þeirra innistæðueigenda sem töpuðu innistæðum sínum við fall Landsbankans.

Í viðtalinu segir Steingrímur að ekkert þrýsti á að ríkissjóður fari í frekara skuldabréfaútboð í erlendri mynt án þess að útiloka að boðað yrði til nýs útboðs.

Eftirlitsstofnun EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit um Icesave-málið í síðustu viku. Í því kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að Íslandi beri að tryggja að innstæðueigendur í Icesave í Hollandi og Bretlandi fái greiddar að lágmarki 20.887 evrur í samræmi við tilskipun um innstæðutryggingar.  Fellst stofnunin ekki á svör íslenskra stjórnvalda frá 2. maí sl.

„Með bréfi sendi ég fyrir hönd íslenskra stjórnvalda svar til stofnunarinnar vegna áminningarbréfs frá því í maí á síðasta ári. Í svarinu var því hafnað að Ísland hefði vanefnt skyldur sínar samkvæmt innstæðutryggingatilskipuninni og brotið gegn ákvæðum EES-samningsins.

Um er að ræða lagalegan ágreining í þessu máli, samkvæmt því sem fram kemur á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

„Afstaða Íslands er sú að ekki sé ríkisábyrgð á skuldbindingum vegna innstæðutrygginga og ekkert hefur komið fram í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunarinnar sem breytir þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti má efast um að ríkisábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingasjóða standist almenn sjónarmið Evrópuréttar og slík ríkisábyrgð gæti ógnað fjármálastöðugleika í ýmsum Evrópusambandsríkjum," segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka