ESA stefnir Íslandi

Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) hef­ur ákveðið að stefna ís­lensk­um stjórn­völd­um fyr­ir dóm vegna Ices­a­ve-deil­unn­ar.

Íslensk stjórn­völd svöruðu bréfi Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA (ESA) vegna Ices­a­ve-deil­unn­ar við Breta og Hol­lend­inga í lok sept­em­ber síðastliðins þar sem greint var frá vörn Íslands í mál­inu. Þá einkum að eng­in rík­is­ábyrgð hefði verið á Trygg­inga­sjóði inni­stæðueig­enda og fjár­festa og því hefði ís­lensk­um stjórn­völd­um ekki verið skylt að bæta inni­stæður sem sjóður­inn reynd­ist ekki geta greitt í kjöl­far banka­hruns­ins haustið 2008.

Á vef ESA kem­ur fram að stofn­un­in hafi ákveðið að fara með málið fyr­ir EFTA-dóm­stól­inn þar sem stofn­un­in tel­ur að Íslandi beri að tryggja að inni­stæðueig­end­ur fái greidd­ar að lág­marki 20.887 evr­ur í sam­ræmi við til­skip­un um inni­stæðutrygg­ing­ar.

Íslensk stjórn­völd höfðu svarað at­huga­semd­um ESA efn­islaga og hvatt til þess að beðið væri með að taka ákvörðun þar sem greiðslur úr þrota­bú­inu væru hafn­ar og lík­legt væri að eign­ir myndu duga fyr­ir kröf­um.

„ESA held­ur við fyrri af­stöðu sína. Ísland verður að upp­fylla þær skyld­ur sem það hef­ur und­ir­geng­ist með aðild að EES-samn­ingn­um. Því ber að tryggja greiðslur til allra inn­stæðueig­enda, án mis­mun­un­ar, sam­kvæmt þeim skil­yrðum sem mælt er fyr­ir um í til­skip­un­inni um inni­stæðutrygg­ing­ar,“ er haft eft­ir Oda Helen Slet­nes, for­seta Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA, í frétta­til­kynn­ingu.

Þrota­bú Lands­bank­ans er byrjað að greiða kröf­ur inni­stæðueig­anda. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá ís­lensk­um stjórn­völd­um verða um­rædd­ar kröf­ur ekki greidd­ar að fullu fyrr en í lok árs­ins 2013.

„Einn meg­in­til­gang­ur til­skip­un­ar­inn­ar er að forðast að inni­stæðueig­end­ur þurfi að sæta því að leita rétt­ar síns við þrota­bú­skipti. Rúm þrjú ár eru liðin frá því að inni­stæðueig­end­ur glötuðu aðgangi að reikn­ing­um sín­um og kröf­ur hafa ekki enn verið greidd­ar að fullu. Þetta und­ir­strik­ar mik­il­vægi þess að fara að ákvæðum til­skip­un­ar­inn­ar um inni­stæðutrygg­ing­ar,“ seg­ir for­seti Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA.

Með því að vísa mál­inu til EFTA-dóm­stóls­ins hef­ur ESA hafið meðferð dóms­máls þar sem Íslandi gefst tæki­færi á að færa rök fyr­ir máli sínu fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um. Málsaðilar munu skipt­ast á skrif­leg­um mál­flutn­ings­skjöl­um og færa rök fyr­ir máli sínu í munn­leg­um mál­flutn­ingi. Þegar meðferð dóms­máls­ins er lokið mun EFTA-dóm­stóll­inn kveða upp dóm um það.

Ef EFTA-dóm­stóll­inn kemst að þeirri niður­stöðu að Ísland hafi gerst brot­legt við EES-samn­ing­inn þarf Ísland að gera nauðsyn­leg­ar ráðstaf­an­ir til að fara að niður­stöðu dóms­ins eins fljótt og auðið er.

Sjá  nán­ar hér

mbl.is