Guðfríður Lilja segir Árna Pál njóta trausts ólíkra aðila

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. mbl.is/Kristinn

„Eins og við öll vit­um, þá er þetta mjög sér­stakt mál, með mikla og þunga sögu á bakvið sig og það er þannig að síðan að Árni Páll tók við mál­inu þá hef­ur hann áunnið sér traust ólíkra aðila sem jafn­vel í upp­hafi gerðu alls ekk­ert ráð fyr­ir því að hann væri trausts­ins verður í mál­inu, en hann hef­ur áunnið sér traust margra ólíka aðila með því hvernig hann hef­ur haldið á mál­inu og með þeim bar­áttu­vilja sem hann hef­ur sýnt síðan hann tók við því,“ seg­ir Guðfríður Lilja Grét­ars­dótt­ir, þingmaður Vinstri-grænna, aðspurð út í bók­un meiri­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar í gær­kvöldi þess efn­is að fyr­ir­svar í dóms­mál­um og öðru sem snúi að Ices­a­ve gagn­vart ESA og EFTA-dóm­stóln­um verði áfram í hönd­um Árna Páls Árna­son­ar, efna­hags- og viðskiptaráðherra.

Að sögn Guðfríði Lilju er mik­il­vægt að sú sátt sem ríkt hef­ur um málið að und­an­förnu haldi áfram og því sé eðli­legt að Árni Páll haldi áfram með málið. „Það eru mörg for­dæmi fyr­ir því að fagráðherra haldi á mál­um, þó svo að um sé að ræða milli­ríkja­mál. Það eru ýmis for­dæmi fyr­ir slíku,“ seg­ir Guðfríður Lilja og bæt­ir við „í nafni sam­stöðunn­ar og sam­heldn­inn­ar og þeirr­ar sátt­ar sem ríkt hef­ur um þetta mál núna að und­an­förnu þá tel ég að þetta verði mál­inu til góðs en auk þess tel ég ekki heppi­legt að ESB aðild­ar­viðræðuferlið og Ices­a­ve sé á einni á sömu hendi í ljósi for­sögu máls­ins.“

„Það að setja þetta mál upp sem ein­hvers kon­ar flokk­spóli­tískt mál eða sem mál stjórn­ar gegn stjórn­ar­and­stöðu, það er akkúrat nálg­un­in sem við eig­um að forðast í lengstu lög. Nú er þetta orðið mál allra okk­ar Íslend­inga, með tvær þjóðar­at­kvæðagreiðslur að baki og nú skipt­ir öllu máli að það sé haldið þannig á mál­um að við get­um öll verið sem sátt­ust og það er þannig að það hef­ur ríkt sátt um málsmeðferð Árna Páls hingað til og því er bara eðli­legt að hann haldi áfram,“ seg­ir Guðfríður Lilja aðspurð hvort hún hafi fundið fyr­ir stuðningi við þessa af­stöðu sína á meðal flokks­systkina sinna í Vinstri græn­um.

Guðfríður Lilja bæt­ir við að hún hafi tekið þessa af­stöðu sína á mál­efna­leg­um for­send­um og í henni fel­ist ekki van­trausts­yf­ir­lýs­ing á einn né neinn.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina