Þingmaður breska Íhaldsflokksins hefur farið fram á að hætt verði að veita Íslendingum fé úr sjóðum Evrópusambandsins þar sem Ísland hafi ekki enn greitt Bretum rúmlega tvo milljarða punda, 399 milljarða króna, vegna falls íslensku bankanna.
Á vef Daily Mail í dag er fjallað um málið en þar kemur fram að málið hafi verið rætt í breskri þingnefnd í gær. Þar kom fram að Ísland fái greitt úr rúmlega 800 milljóna punda, tæplega 160 milljarða króna, sjóði ESB í Brussel sem ætlað er til uppbyggingarverkefna í ríkjum sem hafa sótt um aðild að ESB. Bretar leggja árlega 125 milljónir punda, 25 milljarða króna, í sjóðinn.
Segir í frétt Daily Mail að Ísland fái greitt úr sjóðnum þrátt fyrir að hafa neitað að greiða 2,3 milljarða punda til Bretlands í tengslum við fall íslensku bankanna í efnahagshruninu. Hrunið á Íslandi hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda breskra sveitarfélaga, góðgerðarsamtaka og sparifjáreigenda.
Þingmaður Íhaldsflokksins, Philip Davies, krafðist þess í gærkvöldi að hætt yrði að greiða Íslendingum. Hann segir það algjörlega ólíðandi að ríki sem neitar að greiða til baka milljarða punda sem það skuldi skuli fá greitt úr sjóðum sem Bretar greiði í.
Hann segir að ríkisstjórn Bretlands eigi að tryggja að greiðslurnar verði frystar strax.
Auk Íslands fái meðal annars Króatía og Tyrkland greitt úr sjóðunum, Instrument for Pre-Accession, en hann var metinn á 800 milljónir punda á síðsta ári. Í frétt Daily Mail kemur fram að ekki liggi fyrir hvað Ísland fái háa fjárhæð úr sjóðnum en að um 80 milljónir punda af framlagi Breta renni til Tyrklands.