Útilokar ekki bleika mottu

Elínborg Benediktsdóttir litar mottuna svarta.
Elínborg Benediktsdóttir litar mottuna svarta.

Þeir sem taka þátt í mottumars leggja ýmislegt á sig til að safna peningum til þessa góða málefnis. Einn þeirra er Jóhann Guðni Reynisson kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði en hann ákvað að prófa að koma hreyfingu á áheitin með því að lofa að lita mottuna svarta.

Mottumars er núna hálfnaður og á annað þúsund einstaklinga hafa skráð sig til keppni á mottumars.is. Keppnin er hörð á toppnum og ýmislegt sem menn leggja á sig til þess að ná sem bestum árangri. Eitt af því er að heita á vini og vandamenn að styðja keppendur með því að þeir leggi eitthvað á móti. Jóhann Guðni taldi nauðsynlegt að finna nýjar leiðir til að koma hreyfingu á áheitin með því að lofa að lita mottuna svarta ef og þá þegar 100 þúsund króna markinu væri náð.

Og það var ekki að sökum að spyrja. Á örfáum dögum söfnuðust yfir 60 þúsund krónur og því ekki um annað að velja fyrir Jóhann Guðna en að skunda á hársnyrtistofu eiginkonu sinnar, Elínborgar „Hár-Ellý“ Benediktsdóttur, sem var ekki lengi að snara mottunni yfir í svart.

„Ég læt öðrum eftir að dæma hvort fer mér betur en þetta var allavega þess virði fyrir góðan málstað og ég hvet alla sem sms-i, kreditkorti eða heimabanka geta valdið að styðja sína menn í keppninni á mottumars.is. Við stefnum ótrauðir á 35 milljónir,“ segir Jóhann Guðni og bætir við að nú þurfi hann ef til vill að setja sér nýtt markmið. „Já, það hafa ýmsar hugmyndir komið fram um það nú þegar, til dæmis 200 þúsund og bleik motta. En við sjáum hvað setur.“

Jóhann Guðni er myndarlegur með svörtu mottuna.
Jóhann Guðni er myndarlegur með svörtu mottuna.
mbl.is

Bloggað um fréttina