Við bjuggumst við því að þetta færi niður en ekki svona mikið,“ segir Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur á Veiðimálastofnun, um laxveiðina í sumar. Hann hefur verið að rýna í veiðitölurnar og þá miklu niðursveiflu sem veiðimenn upplifðu.
„Það gera sér ekki allir grein fyrir því að það var fjórðungs samdráttur í veiði á milli áranna 2010 og 2011, en samt var veiðin svo góð að menn sáu það ekki. Þegar síðan bætist við 39% niðursveifla til viðbótar milli ára eru menn komnir í sársaukamörkin,“ segir hann.
Miðað við þessa tölu, 39% niðursveiflu í sumar, er ljóst að niðursveiflan frá hinu firnagóða laxveiðisumri 2010 er yfir sextíu prósent. Guðni mun fjalla um veiðisumarið á málþingi sem Landssamband stangveiðifélaga stendur fyrir á Grand hóteli í Reykjavík í dag klukkan 16. Félagi hans á Veiðimálastofnun, Sigurður Már Einarsson, reynir að svara spurningunni hvort sjá mátti niðursveifluna fyrir, og einnig taka til máls Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, Þröstur Elliðason, forstjóri Strengja, og veiðimaðurinn Steinar J. Lúðvíksson.
„Ég kem til með að gera grein fyrir því hvernig þær bráðabirgðatölur yfir laxveiðina sem nú liggja fyrir líta út. Hvernig þetta sumar kemur út í samanburði við fyrri ár,“ segir Guðni. „Ég ætla líka að reyna að taka út hafbeitarlaxana og skoða hvernig tölurnar gætu hafa litið út ef menn hefðu ekki verið að veiða og sleppa.“
Guðni segir að í kjölfar þokkalegrar fiskgengdar á undanförnum árin hafi seiðavísitalan verið um og yfir meðaltali í ánum í fyrra. „Þess vegna kom það okkur á óvart hve mikil þessi niðursveifla var.
Við bjuggumst við því að þetta færi niður en ekki svona mikið.“
Hann segir að samanburður á talningartölum úr ánum og veiðitölum gefi raunsanna mynd af fiskgengdinni í árnar.
„Laxinn í sumar var líka smár; þegar þeir eru fáir eru þeir smáir. Þegar þeir hafa mikið að éta drepast færri og öfugt.“ Guðni segir að vísindamennirnir viti ekki alltaf svörin en þegar eitthvað breytist í umhverfinu þurfi fiskstofnarnir að bregðast við því. „Við erum alltaf að reyna að bregðast við breytingunum og skýra þær í sögulegu ljósi eftir á, en svo væri enn betra að geta sagt til um eitthvað af þessu fyrirfram. En vissulega er það þrautin þyngri.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |