„Stórmenni að ná sér í jólamatinn“

Maður á rjúpuveiðum.
Maður á rjúpuveiðum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta eru greinilega miklar hetjur sem mæta upp á Holtavörðuheiði til að stela rjúpum og skemma eigur, fara svo stoltir heim til konunnar og segjast hafa veitt í jólamatinn,“ segir Einar Kristján Haraldsson sem, ásamt félaga sínum, varð fyrir barðinu á óprúttnum aðilum þegar hann var við veiðar um helgina.

Einar var í hópi þriggja manna sem lögðu jeppabifreið sinni við fjarskiptamastur uppi á háheiðinni. Áður höfðu þeir tekið fjórhjól af kerru og skilið eftir í Fornahvammi en þaðan fór einn þeirra um gamla slóð og yfir gil þaðan sem hann gekk upp á snjófjöllin sunnanmegin frá.

Þegar Einar kom aftur að jeppanum sá hann að búið var að fara inn í farangursrými hans og stela þaðan tveimur rjúpum. Ekkert annað virðist þó hafa verið tekið. „Þarna var greinilega á ferð eitthvert stórmenni að ná sér í jólamatinn. Það þýðir ekki að gráta það. Hins vegar tók verra við þegar við komum niður að kerru. Þá sjáum við að búið er að stinga göt á öll fjögur dekkin á kerrunni. Og það er ekki stórmennskubragur yfir slíkum skemmdarverkum.“

Sjö til átta jeppum var lagt á svæðinu og því nokkuð um mannaferðir. Ekkert er þó vitað um það hverjir voru að verki. „En maður fer óneitanlega að hafa áhyggjur af því að geta ekki lengur haft eigur sínar í friði á fjöllum þegar svona menn eru á ferðinni.“

Einar segir að lítið annað sé hægt að gera en að fjárfesta í nýjum dekkjum á kerruna og veiða tveimur rjúpum meira fyrir jólin. „En ég reikna með að þessar standi svolítið í rjúpuþjófinum þegar hann snæðir þær á aðfangadagskvöld. Það hlýtur að vera sérstök jólastemning að snæða stolin jólamat. Og svona hrein og klár eignaspjöll sem kosta tugi þúsunda, það er skítbuxnaháttur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert