Settur hefur verið á laggirnar umhverfissjóðurinn The Icelandic Wildlife Fund (IWF). Megináhersla sjóðsins er náttúruvernd og umhverfismál, þar með talið að standa vörð um villta íslenska laxastofninn, sjóbleikju, sjóbirting og aðra ferskvatnsfiska í ám og vötnum Íslands.
Stofnendur IWF eru Ingólfur Ásgeirsson flugstjóri og Lilja R. Einarsdóttir framkvæmdastjóri, en þau leiða breiðan hóp fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem á það sameiginlegt að vilja slá skjaldborg um íslenska náttúru, að því er segir í fréttatilkynningu.
„Náttúra og umhverfisgæði Íslands standa frammi fyrir mikilli ógn af hálfu fyrirtækja sem hyggjast hefja stórfellt fiskeldi eða stórauka við núverandi sjókvíaeldi við strendur landsins. Þar á meðal eru norsk stórfyrirtæki sem hafa valdið miklum umhverfisspjöllum víða um heim. Þessi fyrirtæki eyða háum fjárhæðum í ágenga hagsmunagæslu og þrýsting á stjórnvöld í héraði og á landsvísu. Það verður að spyrna þar við fótum og halda uppi vörnum fyrir umhverfi og lífríki landsins.
IWF er grasrótarstofnun og er ekki rekin í ágóðaskyni (non-profit). Sjóðurinn stundar ekki atvinnurekstur og aflar sér fjármuna til verkefna með frjálsum framlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Hann er sjálfseignarstofnun og starfar samkvæmt lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
IWF mun verja fjármunum sínum í þau verkefni sem liggja fyrir hverju sinni og samræmast markmiðum sjóðsins. Í því sambandi má nefna gerð ýmiss konar kynningarefnis, fræðslu og upplýsingagjöf.
Stjórn sjóðsins hefur verið skipuð og starfar hún í tvö ár í senn. Í henni sitja: Freyr Frostason arkitekt, sem er formaður, Örn Valdimar Kjartansson framkvæmdastjóri, Ragna Sif Þórsdóttir hönnuður. Varamenn eru Arndís Kristjánsdóttir lögfræðingur og Vilhelm Anton Jónsson tónlistarmaður. Framkvæmdastjóri er Lilja R. Einarsdóttir og endurskoðandi er PwC,“ segir enn fremur í tilkynningu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |