Fjölmargir hnúðlaxar hafa veiðst upp á síðkastið. Þannig fréttu Sporðaköst af tveimur hollum, í Hrútafjarðará og Haukadalsá þar sem uppistaða veiðinnar var hnúðlax. Fyrra hollið var í Hrútafjarðará og bókuðu menn í fyrradag átta hnúðlaxa í neðstu hyljunum, Dumbafljóti, Maríubakka, Staðartunguhyl og Háeyrarhyl. Fiskarnir eru nákvæmlega skráðir í veiðibókina og eru þeir á bilinu 42 til 60 sentímetra. Flestir þeirra tóku Sunray shadow.
Í holli sem nú er að ljúka störfum í Haukadalsá höfðu veiðst fleiri hnúðlaxar en hefðbundnir laxar. Þannig var búið að landa sjö hnúðlöxum en fimm hefðbundnum.
Arnar Már Baldvinsson er einn af þeim sem er að veiða Haukadalsá. Hann sagði engu líkara en að hnúðlaxinn væri að ganga í ána núna.
Það er ljóst að í báðum þessum ám er töluvert magn gengið af hnúðlaxi. Hann heldur sig gjarnan í torfum og ljóst að veiðimenn veiða ekki nema brot af þeim fiski sem gengur, með hefðbundnum aðferðum.
Athyglisvert er að sjá að í Hrútafirði eru komnir á land 21 hnúðlax á móti 74 löxum. Er það með hærra hlutfalli sem sést hefur í laxveiðiá í sumar. Tuttugu hnúðlaxar hafa veiðst í Hofsá í sumar, samkvæmt veiðibók. 21 hefur veiðst í Miðfjarðará í Bakkafirði. Nánast allar ár á landinu hafa bókað hnúðlaxa og því ljóst að stefnir í hrygningu hjá þessum framandi gesti á landsvísu.
Rekstraraðilar í mörgum ám huga nú að aðgerðum til að sporna við hnúðlaxinum. Uppi eru hugmyndir um að nota dróna við finna torfur af hnúðlaxi og fara síðan með ádráttarnet og reyna að ná þessum fiskum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |