Grunsemdir um eldislaxa í fleiri ám

Meintur eldisfiskur gengur inn í Langadalsá síðdegis á sunnudag. Sporður …
Meintur eldisfiskur gengur inn í Langadalsá síðdegis á sunnudag. Sporður og uggar eru illa farnir. Ljósmynd/Teljari

Langadalsá í Ísafjarðardjúpi hefur bæst í hóp þeirra laxveiðiáa þar sem grunur leikur á að eldislaxar hafi gengið í ána. Myndateljari í ánni sýnir að lax gekk í ána seinnipartinn á sunnudag og hefur hann hefðbundið útlit eldislax. Sporður er tættur og uggar rifnir og illa farnir.

Við birtum hér aðra mynd úr sama teljara þar sem sjá má villtan Atlantshafslax í sama teljara. Einkum er það munurinn á sporðinum sem er afgerandi.

Við greindum frá því fyrr í dag að eldislaxar hafa sést í fjölmörgum ám síðustu daga. Í dag veiddust slíkir laxar bæði í Miðfjarðará og Vatnsdalsá. Áður hafði slíkur fiskur veiðst í Hópinu sem Víðidalsá rennur í. Laugardalsá, Laxá í Dölum og Hvolsá og Staðarhólsá eru á þessum sama lista og nú bætist Langadalsá í hópinn.

Sama dag gekk þessi villti lax í Langadalsá. Sporður heill …
Sama dag gekk þessi villti lax í Langadalsá. Sporður heill og fiskurinn virkar hinn eðlilegasti. Ljósmynd/Teljari

Augu margra beinast að fyrirtækinu Arctic Fish en staðfest er að göt fundust á kví sem hafði að geyma um sjötíu þúsund laxa sem að meðaltali voru um sex kíló að þyngd. Enn liggur ekki fyrir hversu margir laxar struku í gegnum götin. Kvíin er staðsett í námunda Patreksfjarðar.

Sá fjöldi fiska sem nú hefur fundist í ám á Vesturlandi og í Húnavatnssýslum og Ísafjarðardjúpi er meiri en Sporðaköst hafa heyrt af áður. Fiskarnir sem veiðst hafa falla í þann stærðarflokk sem voru í kvínni. Nú hefur verið ákveðið að slátra upp úr kvínni og á þá að vera gerlegt að finna út hversu mikill fjöldi mögulega hefur strokið.

Margir laxveiðimenn eru uggandi yfir þessu máli og óttast að svartasta sviðsmyndin sem dregin hefur verið upp af erfðablöndun sé að verða að veruleika. Leigutakar Miðfjarðarár og Vatnsdalsár töluðu báðir um hryðjuverk gegn náttúru Íslands og sendu stjórnmálamönnum tóninn fyrir aðgerðaleysi.

Hafrannsóknastofnun hefur nú sýni undir höndum úr einhverjum af þessum fiskum og mun væntanlega innan nokkurra daga geta úrskurðað um hvort um „Patreksfirðinga“ er að ræða eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert