Strokulaxinn er frá Arctic Sea Farm

Ellefu eldislaxar hafa verið háfaðir í laxastiganum í Blöndu í …
Ellefu eldislaxar hafa verið háfaðir í laxastiganum í Blöndu í vikunni. Þeir eru ekki inni í fyrstu niðurstöðum en slá má því föstu að þeir eru líka frá Arctic Sea Farm. Ljósmynd/Guðmundur Haukur

Upprunagreining á eldislöxum sem hafa verið að finnast í fjölmörgum laxveiðiám staðfestir að strokulaxarnir eru frá Arctic Sea Farm sem hefur alið laxa i sjókvíum í nágrenni Patreksfjarðar. Staðfest er að strokulaxar frá Arctic Sea Farm hafa veiðst á tólf stöðum. Þessir laxar eru enn að veiðast og veit enginn hversu margir þeir eru eða hvert þeir halda.

Strax komu upp grunsemdir um að fjöldi eldislaxa sem veiddust í hinum ýmsu laxveiðiám á Vestanverðu landinu væru „Patreksfirðingar.“ Það er nú staðfest af Hafrannsóknastofnun. Í fréttatilkynningu sem Matvælastofnun birti á heimasíðu sinni fyrr í dag segir;

„Matvælastofnun hafa borist upplýsingar um upprunagreiningu Hafrannsóknastofnunar á meintum eldislöxum sem veiðst hafa í Patreksfirði (6), Örlygshöfn (2), Sunndalsá (6), Mjólká (1), Laugardalsá (1), Ísafjarðará (1), Selá í Ísafjarðardjúpi (2), Miðfjarðará (1), Hópinu (1), Víðidalsá (1), Vatnsdalsá (3), Laxá í Dölum (1) og Staðarhólsá/Hvolsá (1).

Hrefna Rósa Sætran, Björn Árnason og Bertram Skuggi Björnsson Sætran …
Hrefna Rósa Sætran, Björn Árnason og Bertram Skuggi Björnsson Sætran með eldislaxinn sem þau veiddu á silungasvæði Víðidalsár. Nú er staðfest að þetta er "Patreksfirðingur." Ljósmynd/Eggert Skúlason

Alls voru 34 laxar sendir til greiningar og reyndust sjö þeirra sem veiddust í Mjólká vera villtir. Af hinum 27 var einn eldislax sem ekki var hægt að rekja en hinir 26 voru eldislaxar sem var hægt að rekja til sex hænga sem voru notaðir til framleiðslu á seiðum sem sett voru út á eldissvæði Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði haustið 2021. Tveir af þessum sex hængum voru einnig notaðir til framleiðslu á seiðum sem sett voru út á eldissvæði Arnarlax við Tjaldanes í Arnarfirði haustið 2021.

Arctic Sea Farm tilkynnti 20. ágúst sl. að tvö göt hefðu fundist á 2.5 metra dýpi í kví nr. 8 á eldissvæði fyrirtækisins við Kvígindisdal í Patreksfirði og óskaði Matvælastofnun eftir því að slátrun hæfist samstundis í kví nr. 8. Slátruninni lauk 29. ágúst sl. og er áætlað að slátrun á eldissvæðinu öllu verði lokið um miðjan september.“

Leitað hefur verið orsaka fyrir því hvernig götin komu á kvína og virðast komnar skýringar á því. Hins vegar hefur einnig verið leitt í ljós, samkvæmt því sem Matvælastofnun segir í frétt sinni að eftirlit hafi ekki verið með þeim hætti sem fiskeldisfyrirtækinu ber að stunda. Um þetta segir í tilkynningu MAST;

Fiskurinn sem Hrefna og fjölskylda veiddu á silungasvæði Víðidalsár kominn …
Fiskurinn sem Hrefna og fjölskylda veiddu á silungasvæði Víðidalsár kominn í hendur Hafró. Eins og fyrr segir er hann frá Arctic Sea Farm. Ljósmynd/Eggert Skúlason

„Að sögn forsvarsmanna Arctic Sea Farm er möguleg orsök gatanna sú að starfsmenn fyrirtækisins höfðu fært fóðurdreifara í kvínni að kvíarbrún og hafa tvö lóð sem héngu neðan á fóðurdreifaranum að öllum líkindum nuddast við nótina og myndað götin. Búnaðurinn var á þeirri hlið kvíarinnar þar sem götin mynduðust á tímabilinu 8. – 20. ágúst síðastliðinn, mögulegt er að götin hafi myndast á því tímabili.

Jafnframt kom í ljós við rannsókn málsins að neðansjávareftirlit fyrirtækisins við kví nr. 8 var ekki framkvæmt frá miðjum maí sl. og þar til götin uppgötvuðust 20. ágúst sl. Aðrir netapokar eldissvæðisins voru skoðaðir með reglubundnum hætti.

Til Hafrannsóknarstofnunar eru enn að berast laxar sem sendir verða til erfðagreiningar. Matvælastofnun veitir frekari upplýsingar þegar niðurstöður liggja fyrir varðandi erfðagreiningu laxa og uppruna þeirra.“

Blöndulaxarnir sem hafa verið háfaðir samtals 11 talsins eru ekki inni í þessum fyrstu niðurstöðum frá MAST. Síðasti eldislax sem Sporðaköst vita um veiddist í morgun í Miðfjarðará. Ekki er minnst á í frétt MAST hvort farið verður í einhverjar mótvægisaðgerðir við laxveiðiár eða hvernig ná á utan um þetta umhverfisslys sem nú er staðfest. Þá liggur ekki fyrir hvernig tekið verður á þeim þætti sem lítur að því að lögboðnu eftirliti var ekki sinnt af hálfu Arctic Sea Farm.

Dekksta sviðsmyndin sem samtök sem berjast gegn sjókvíaeldi hafa teiknað upp er nú að raungerast. Frjór norskur lax er mættur í nokkrar af helstu laxveiðiám Íslands og mun þar taka þátt í hrygningu með villtum íslenskum löxum á næstu vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert