Þrír norskir froskmenn eru komnir til Vestfjarða og hafa þegar hafið rekköfun í ám sem taldar eru geyma eldislaxa. Fyrsta verkefnið var Ísafjarðará og þar skutu þeir þremenningar tólf laxa með skutulbyssum sínum. Samtals eru þá átján eldislaxar komnir á land úr Ísafjarðará. Landeigandi er að byggja upp laxastofn í ánni og hafa veiðst þar sautján villtir laxar í sumar, eða einum færri en eldislaxarnir.
Í morgun var fyrirhugað að kafa í Langadalsá en miklar rigningar komu í veg fyrir það. Sigurður Marinó Þorvaldsson, sem hefur umsjón með ánni sagði í samtali við Sporðaköst að skyggni hefði verið afar lítið og innan við hálfanmeter þegar komið var ofan í ána. „Við erum búin að sjá tíu eldislaxa fara í gegnum teljarann. Ég lokaði honum svo og strax nokkrum klukkutímum seinna voru komnir þrír eða fjórir eldislaxar þar fyrir neðan. En þeir ætla að fresta þessu fram á fimmtudag eða föstudag ef veður og skyggni leyfir,“ upplýsti Siggi Marri eins og hann er jafnan kallaður.
Stefnt er að rekköfun í fjölmörgum ám þar sem norskir froskmenn, eða kafarar leita að norsk ættuðum eldislaxi frá Patreksfirði og skjóta með skutulbyssum. Nýr veruleiki við íslenskar laxveiðiár.
Ekkert lát virðist vera á göngu þessara fiska upp í árnar. Þannig veiddist í einn í Miðfjarðará í gær og annar í Víðidalsá. Seinnipartsvaktin í Laxá í Dölum í gær gaf tólf náttúrulega laxa og þrjá eldisfiska.
Síðasta heimsókn í laxastigann í Blöndu skilaði fimm eldislöxum og vitað er um einn til viðbótar sem ekki náðist. Eldislaxar sem náðst hafa til þessa eru frá Laxá í Dölum og austur að Fnjóská í Eyjafirði. Staðfestir eru eldislaxar á 32 vatnasvæðum.
Margir leigutakar og forsvarsmenn laxveiðiáa undrast að þrátt fyrir það neyðarástand sem þeir telja ríkja er erfitt að ná til Hafrannsóknastofnunar og ógerlegt um helgar. Þá spyrja menn sig hvort ekki væri rétt að stjórnvaldið í þessum málaflokki sækti þá fiska sem hrúgast nú víða upp, fremur en að menn keyri með fiskinn til Reykjavíkur og þurfi þar að vera á skrifstofutíma til að geta losað sig við þá.
Eins og einn leigutaki orðaði það í samtali við Sporðaköst. „Neyðarástandið virðist ekki ná til Reykjavíkur. Þar eru ríkisstarfsmenn bara á klukkunni og vinnutímastyttingu. Eldislaxinn er ekki að spyrja um stund eða stað.“
Eins og lesa má úr þessum orðum hér að ofan gætir nokkurs pirrings meðal þeirra sem telja sig standa frammi fyrir umhverfisslysi að málin séu ekki tekin fastari tökum hjá vísindamönnum og eftirlitsaðilum, hvað þá stjórnmálamönnum.
Að sama skapi gagnrýna menn hversu langan tíma tekur að fá niðurstöður varðandi uppruna fiska sem sendir hafa verið til rannsóknar.
Frekari köfunaraðgerðir eru fyrirhugaðar á morgun.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |