Spenna Verkið er eftir Jacob van Ruisdael: Útsýni yfir Haarlem (um 1670-75), olía á striga, 62 x 55 cm, Ruzicka-Stiftung, Kunsthaus, Zürich. Ruiedael málaði röð mynda af heimaborg sinni, Haarlem, eftir að hann fluttist til Amsterdam 1656. Haarlem-búar fluttu inn lín frá Englandi og Skotlandi, bleiktu það á landfyllingum við rætur sandaldanna (sem sjást í forgrunni og gæða myndina aukinni dýpt) – og fluttu úr landi undir vörumerkinu Toiles de Hollande. Listamaðurinn skapar spennu í myndbyggingu með andstæðum: mýkt skýjaforma andspænis geómetrískum þáttum í sjónbaugi, ökrum og líni, og formum dómkirkju sem ber við himin.
Spenna Verkið er eftir Jacob van Ruisdael: Útsýni yfir Haarlem (um 1670-75), olía á striga, 62 x 55 cm, Ruzicka-Stiftung, Kunsthaus, Zürich. Ruiedael málaði röð mynda af heimaborg sinni, Haarlem, eftir að hann fluttist til Amsterdam 1656. Haarlem-búar fluttu inn lín frá Englandi og Skotlandi, bleiktu það á landfyllingum við rætur sandaldanna (sem sjást í forgrunni og gæða myndina aukinni dýpt) – og fluttu úr landi undir vörumerkinu Toiles de Hollande. Listamaðurinn skapar spennu í myndbyggingu með andstæðum: mýkt skýjaforma andspænis geómetrískum þáttum í sjónbaugi, ökrum og líni, og formum dómkirkju sem ber við himin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Túlipanar og vindmyllur koma gjarnan upp í hugann þegar hið flatlenda Holland ber á góma.

Túlipanar og vindmyllur koma gjarnan upp í hugann þegar hið flatlenda Holland ber á góma. Hitt vita ef til vill færri að Hollendingar voru brautryðjendur í landslagsmálun – þó að landið sé ekki þekkt fyrir stórbrotið landslag eða óvenjulega náttúrufegurð. Á 17. öld þróaðist landslagsmálverkið þar sem sérstök grein, eða genre, innan málaralistarinnar. Það var raunar afar vinsælt meðal almennings. Um þriðjungur hollenskra 17. aldar málverka munu hafa verið landslagsmyndir og héngu þær því víða á veggjum borgaralegra heimila. Þessi gullöld landslagsmálunar, kennd við hollenska skólann, er raunar áhrifamikil tjáning á þjóðfélagslegum og landfræðilegum aðstæðum sem urðu til þar í landi samfara þróun í átt til nútímans.

Eftir Eftir Önnu Jóa

annajoa@simnet.is

Listsögulega eru hollensku landslagsverkin mikils metin vegna fagurfræðilegs gildis og nýbreytni í stíl. Hollenski skólinn er kenndur við natúralíska sýn og nákvæmar, jafnvel staðfræðilegar lýsingar á umhverfinu. Helstu stíleinkennin eru lágstemmd litanotkun í myndum af víðáttumiklu landslagi þar sem mannvirki, t.d. vindmylla eða kirkjuturn, eða þyrping trjáa sést við sjónbauginn sem er neðan við miðju myndflatarins. Ábúðarmikill himinninn þekur því stærstan hluta myndarinnar. Áherslan er á „andrúmsloft“ heildarmyndarinnar. Stílnum hefur verið lýst sem „myndrænum“ ( picturesque ) og vissulega áformuðu listamennirnir að sýna tiltekið, þekkjanlegt landslag á myndrænan hátt. En fleira býr að baki sem jafnframt varpar ljósi á landslagsáhuga Hollendinga á 17. öld.

Stórveldið Holland

Landslagsverk 17. aldar urðu til í alveg sérstöku þjóðfélagsrými – líkt og önnur málverk á þessu gullaldarskeiði hollenskrar myndlistar, og er nærtækt að nefna verk Rembrandts van Rijn (1606–1669) en eftir hann liggja einnig frábær landslagsverk. Þessi listsköpun tengist aðdraganda nútímavæðingar nánum böndum, svo sem þróun heimsmarkaðar, myndun þjóðríkja og borgarvæðingu, og þykir endurspegla einstakt og jafnvel „innilegt“ samband Hollendinga við landið sitt. Landið var mikilvægur staður í mótun nýrrar sjálfsmyndar og áherslan á staðfræðilega lýsingu á landinu, ekki síst í landslagsverkunum, er veigamikil í því samhengi. Hollensk landslagsmálun 17. aldar er nátengd nýjum áhuga Evrópumanna á kortlagningu umheimsins.

Ég fjallaði í annarri grein (í Lesbók 31. maí) um verk ítalskra endurreisnarmálara í Feneyjum þar sem bar á auknu vægi landslags samfara húmanisma og vaxandi áhuga á umhverfinu. Nils Büttner, höfundur viðamikils rits um sögu landslagsmálverksins, bendir á að landslagsmálun hafi sem sjálfstæð grein þurft hugmyndafræðilega réttlætingu og að hana hafi verið að finna í skrifum fornaldarheimspekinga sem mæltu með upphöfnum sveitasælumyndum sem veggskreytingu í híbýlum manna, þeim til yndisauka og hugarhægðar. Í umfjöllun um þróun landslagslistar á 16. öld segir Büttner að ekki hafi verið litið á landslagsmyndir einvörðungu sem skraut heldur tilefni til trúarlegrar eða húmanískrar íhugunar og ennfremur sem tjáningu nýrrar heimssýnar. Á þessum tíma hafi kviknað áhugi á að kortleggja og lýsa heiminum og þetta endurspeglist í listinni. Þannig hafi landslagsmálverkið þróast (á 16. öld) samfara rannsóknum á fornaldarlist og fyrir tilstuðlan víxlverkunar listar og nýrrar landafræði – og landslag öðlaðist loks viðurkenningu sem verðugt viðfangsefni. 1

Lýðveldið Holland var stofnað á síðari hluta 16. aldar þegar norðurhéruð Niðurlanda sameinuðust í uppreisn gegn Spánarkonungi. Þau áttu í átökum og samningarviðræðum við Spánverja þar til þau hlutu formlegt sjálfstæði um miðja 17. öld. 2 Þar ríkti trúfrelsi en flestir íbúanna voru mótmælendur eða Kalvínistar. Staða Hollands styrktist og það varð verslunar- og sjóveldi samfara tækniframförum í skipasmíði og siglingum. Leiðin að hafinu var greið og hollenski herflotinn öflugur. Holland varð nýlenduveldi og verslunarskipin sigldu á markaði um allan heim og áttu þar viðskipti. Hagsældin jókst gríðarlega, borgir stækkuðu ört (íbúafjöldi í Amsterdam fór t.d. úr 31 þúsundi í um 200 þúsund á árabilinu 1578–1662) og þar blómstraði ýmiss konar iðnframleiðsla. 1609 varð Amsterdam miðstöð bankaviðskipta í Evrópu og á tímabili höfðu íbúar Amsterdam hæstu meðaltekjur á mann í heiminum.

Markaðsvæðing, siðferði og trú

Siðbótin og borgarvæðing samfara uppgangi borgarastéttarinnar höfðu mikil áhrif á hollenska myndlist og myndlistarmarkað. Listamenn höfðu um aldir starfað í þjónustu kirkjunnar, konungs– eða keisarahirðar eða aðalsstéttar sem pantaði af þeim verk. Í hinu nýja Hollandi var sterku miðstjórnarvaldi ekki til að dreifa og borgarastéttin varð aðalviðskiptavinur listamanna en hún hafði mikinn áhuga á að prýða heimkynni sín með myndum sem tengdust borgaralegri tilveru á einn eða annan hátt. Kalvínisminn áleit trúarlegar myndir jaðra við skurðgoðadýrkun og hvatti til veraldlegrar myndgerðar og þá sérstaklega landslagsmyndagerðar þar sem listamenn skyldu leitast við að sýna kraftbirtingu guðs í náttúrunni og margbreytileika sköpunarverksins. Myndverk voru seld á opnum markaði sem listamenn þurftu að laga sig að með aukinni sérhæfingu sem leiddi til þess að hið svonefnda genre -málverk blómstraði, þ.e. tegundarmálverkið. Fólk safnaði myndum sem tengdust daglegum veruleika, svo sem blómamyndum, kyrralífsmyndum eða landslagsmyndum og voru þær síðastnefndu vinsælastar. Landslagsmálarar sérhæfðu sig í gerð sveitalandslags, borgarlandslags, sjávar– eða skipamynda, skógarmynda, fjallalandslags eða jafnvel „norrænna landslagsmynda“, svo áberandi dæmi séu nefnd.

Nils Büttner bendir á að ætlast hafi verið til þess af landslagsmálurum að þeir máluðu myndir með siðferðilegum eða trúarlegum boðskap: efnivið fyrir menntaða áhorfendur til túlkunar og íhugunar. Læsi mun hafa verið með því besta sem gerðist í Evrópu og almenn þekking á Biblíunni góð. Áhersluna á himininn í myndum eftir Jacob van Ruisdael (1628/9–82)) sem hann gerði á 8. áratugnum af nágrenni Haarlem, þar sem borgin sést í fjarska undir geysistórum himni, telur Büttner því trúarlegs eðlis. Ruisdael hafi verið kaþólskur (líkt og allt að 40% íbúanna) og himinninn tákni nærveru guðs. Í forgrunni sést hvar verið er að bleikja lín á stórum ökrum, en það var helsta iðngreinin í Haarlem. Í grein um hollenska landslagslist lítur Ann Jensen Adams svo á að hér sé ekki einungis vísað til hollenskrar hagsældar í tengslum við iðnað, heldur einnig til hugmynda um siðferðilegan hreinleika sem tengist langri hefð línbleikingar.

Táknmyndir þjóðernis

Landslagsmyndir Hollendinganna hafa löngum þótt endurspegla þjóðerniskennd hins nýstofnaða lýðveldis og ræðir Büttner í því samhengi um sjávarmyndir þar sem skip sjást leggja af stað í siglingu; áhersla sé lögð á víðáttumikinn himin og geislar sólarinnar látnir lýsa upp sjóndeildarhringinn á „bjartsýnislegan“ hátt. Á öðrum myndum sjáist fley í ólgusjó. Slíkar myndir lýsi hættum hafsins á tímum þegar verslun við fjarlægar þjóðir blómstrar og hollenski herflotinn er sigursæll. Sjávarmyndamálarar hafi einnig sérhæft sig í sérstökum veðuraðstæðum á sjó eða við strendur landsins í tengslum við þá miklu flóðahættu sem ákveðnum landsvæðum, neðan sjávarmáls, var búin. Aðrir málarar, svo sem Jan van Goyen (1596–1656) og Salomon van Ruysdael (um 1600/03–1670), hafi fengist við að lýsa landskilyrðum á slíkum flóðasvæðum. Í myndum þeirra standa vindmyllur á sandöldum sem voru varnargarðar gegn ágangi sjávar, og ber myllurnar við ábúðarmikinn himininn. Vindmyllurnar dældu sjó upp úr framræsluskurðum sem grafnir höfðu verið innan varnargarðanna en Büttner bendir á að það hafi verið eitt merkasta verkfræðiafrek 17. aldar: stór hluti landsins hafi verið þurrkaður upp og ræktarland búið til. Vindmyllu- og sandöldumyndir voru afar vinsælar í Hollandi. Vindmyllurnar urðu tákn fyrir sigur mannlegs hugvits yfir náttúrunni og jafnframt þjóðartákn Hollands: lands sem fólk hafði sjálft skapað og var stolt af.

Vísindaáhugi og raunhyggja

Af þessu má sjá að landslagshefðin tengist útþenslustefnu og framförum í tækni og vísindum. Büttner ræðir hvernig hinn fyrirferðarmikli himinn (raunveruleg „festing“!) í hollenskum landslagsverkum endurspegli slíka þróun svo sem í áherslu Ruisdaels á himininn í áðurnefndum verkum af nágrenni Haarlem, þar sem sjá megi vísbendingar um vísindalega sýn á náttúruna og veðurfræðilegan áhuga; gerðar séu athuganir á veðurmynstrum og skýjamyndunum þeim samfara en loftvogin var fundin upp um þetta leyti. Slík vísindaleg sýn geti farið saman við trúarlega nálgun: Haarlem-myndir Ruisdaels sýni Bloemendael, vinsælan orlofsstað rétt utan við borgina, þangað sem efnaðir athafnamenn hurfu úr annríki og þrengslum borgarinnar á vit sveitasælunnar. Í skrifum rithöfundarins Jacobs Cats (1577–1660) birtist ákveðin hugmyndafræði þar sem sé mælt með sveitadvöl þar sem sitja megi við lestur eða iðka göngutúra, vinna með höndunum úti undir berum himni, helga sig listum og vísindum og „sjá Guð í öllu saman,“ líkt og Büttner orðar það.

Á 17. öld hafi átt sér stað mikil sjónræn útvíkkun í tengslum við tækninýjungar (t.d. smásjána, sjónaukann og camera obscura , sérstaka nákvæmnismyndavél) og þetta endurspeglist í raunsæislegri umhverfislýsingu hollensku landslagsverkanna. Raunsæið tengist einnig Kalvínismanum sem hvatti til þess að málarar, ekki síst landslagsmálarar, lýstu einungis því „sem augu okkar geta séð“, því að í sköpunarverkinu birtist hið guðdómlega sem er annars hulið sjónum okkar og með því að mála myndir af sköpunarverkinu sé verið að vegsama guð . 3

Þessi þróun hafi getið af sér nýja tegund af innileika í skoðun á umhverfinu sem m.a. einkennist af miklum áhuga á birtumeðferð. Á 4. áratugnum hafi hollensku málararnir látið klassísku hefðina fyrir róða (þ.e. þrískiptingu myndar í forgrunn, miðhluta og bakgrunn til að skapa dýpt ásamt skálínum og notkun þriggja lita skala: brúnt–grænt–blátt). Í viðleitni til að túlka umhverfi sitt og samtíma (andstætt tímaleysi klassísku hefðarinnar) hafi þeir gjörbreytt byggingu verkanna og skapað sinn eigin stíl þar sem áherslan sé á heildarandrúm landslagsins fremur en á smáatriði, jafnvel í verkum af ákveðnum stöðum. Þetta bendir til togstreitu milli staðfræðilegrar úrvinnslu og ákveðinnar hugmyndafræði í uppbyggingu verkanna. Ann Jensen Adams lýsir í grein sinni samspili fagurfræði og hagsmuna í hollenskum landslagsverkum.

Landið sem staður minninga

Ann Jensen Adams bendir semsagt á að nokkuð skorti á staðfræðilega nákvæmni í mörgum hollenskum landslagsverkum. Málararnir hafi sýnt ákveðin mannvirki og landform á raunsæjan hátt en blandað þeim saman með óraunsæjum hætti. Slík ýking á þekkjanlegum stöðum og landslagi feli í sér meðvitaða „natúralíseringu“, þ.e. hugmyndalega „hagræðingu“ landslagsins er birtist sem eðlilegt svipmót landsins, en það má skýra í ljósi átaka í tengslum við stjórnarfars-, efnahags- og trúarlegar breytingar í 17. aldar Hollandi. Hún leggur í því sambandi áherslu á einstakt samband Hollendinga við landið sem þeir höfðu búið til með landfyllingunni og bendir á að þar hafi orðið til verðmætt jarðnæði (landið stækkaði um þriðjung frá 1612 til 1635, á 23 árum) sem þeir áttu sjálfir (lénsveldi var þar ekki við lýði) og þurftu að verja gegn sjó og hernaði. Landinu sjálfu var einnig beitt sem vopni (þannig hrundu t.d. efnahagslegir yfirburðir Antwerpen, höfuðborgar suðurhéraða Habsborgaraveldisins, þegar norðurhéruðin lokuðu fyrir ármynni Scheldt–árinnar og einangruðu hana frá hafinu og verslunarleiðum). Norðurhéruðin sjö stjórnuðu landinu í sameiningu. Valdið líkamnaðist ekki í einum þjóðarleiðtoga en þetta telur Adams að hafi skapað ákveðinn vanda í þróun sameiginlegrar sjálfmyndar í sundurleitu og samsettu þjóðfélagi (innflytjendur streymdu til landsins, einkum úr hinum kaþólsku suðurhéruðum). Því hafi Hollendingar snúið sér að landinu sjálfu í mótun nýrrar þjóðarvitundar og að þróun landslagsmálverksins endurspegli þátt þess í sköpun samfélagslegra sjálfsmynda.

Adams fer ofan í saumana á því hvernig ákveðin málefni, sem tengjast efnahagslegum, pólitískum og trúarlegum sviðum, séu „skrifuð“ inn í algeng viðfangsefni hollenska landslagsmálverksins. Sem dæmi má nefna að hinar vinsælu sandöldumyndir, sem farið var að framleiða í nágrenni Haarlem á 3. áratugnum, og myndir af ferjubátum á siglingu sem tóku við sandöldunum í vinsældum á 4. áratugnum, „natúralíseri“ nýja efnahagslega þróun og að myndir af mannvirkjum, sem oft séu færð til á myndunum og þeim jafnvel umbreytt, natúralíseri umdeild pólitísk og trúarleg málefni.

Hún fjallar um dæmigerð sandölduverk þar sem litið er framhjá umsvifum samtímans og fremur leitast við að ljá landinu sögulegan blæ á ýktan hátt. Einkaaðilar í Amsterdam og Haarlem fjárfestu í gríðarlegum landfyllingarfyrirtækjum og höfðu framkvæmdirnar í för með sér miklar breytingar á ásýnd héraðsins með umfangsmiklu kerfi framræsingarskurða (þar sem fyrir voru varnargarðar eða sandöldur) og 42 vindmyllum í marflötu sælandi. Málverkin af sandöldum sýni hins vegar engin ummerki breytinganna en lýsi þess í stað ákveðnu andrúmslofti í lágstemmdri litameðferð, lágum sjónarhóli í hæðóttu landslagi þar sem sjást runnar og tré og vegur liggur í sveig upp að gömlum sveitabæ sem virðist hafa staðið þar lengi. Látið er líta út fyrir að sagan sé skrifuð inn í landslagið. Landið verður þannig staður sameiginlegra „minninga“ (sem sumar eru semsagt býsna nýlegar).

Annað dæmi er hvernig ferjubátamyndir sniðganga aðra stórframkvæmd og afrek 17. aldar, þ.e. skipulagningu hins víðfeðma kerfis innanlandsflutninga eftir vatnaleiðum 1632–1655. Hér hafi einnig verið um feikimikið fjárfestingarfyrirtæki að ræða sem var sameiginlegt verkefni héraðanna og borganna. Myndir frá tímabilinu sýni ferjubáta með fólk og búfénað liðast eftir lygnri á þar sem stór tré slúta yfir bakkana (oft sjáist kirkjuturn eða bóndabæir í bakgrunni) í stað þess að sýna hina nýju, hestdregnu dráttarbáta á beinum, manngerðum skurðum hollenskra sveita.

Að hennar mati fela slíkar myndir í sér viðleitni til að höfða til breiðs hóps borgarbúa sem þannig „eignast“ sveitina sjónrænt, samtímis því að líta framhjá þeim hagrænu umbreytingum sem hópur auðugra einstaklinga hafði valdið á henni (í eiginhagsmunaskyni) og orsakað gætu félagslegt rof. Sandöldu- og ferjubátamyndir hafi verið fjöldaframleiddar og ódýrar. Sandöldulandslag hafi stuðlað að því meðal áhorfenda að skapa tilfinningu fyrir öryggi í sameiginlegri, staðbundinni sögu. Ferjumyndirnar sýndu tengsl sveitar við borg og borga í milli. Hollenskt þjóðfélag hafi verið sundurleitt: einstaklingar tilheyrðu ýmsum félagslegum einingum í efnahagslegu, pólitísku eða trúarlegu samhengi, hópum sem voru jafnvel í andstöðu hver við annan. Skoðun landslagsverka og tilvísanir sem þau fela í sér hafi hins vegar stuðlað að mótun samkenndar og sjálfsmyndar einstaklinga í tengslum við sjálfsmynd samfélagsins í stærra samhengi.

Kortafræði og sveitasæla

Í grein um staðfræði og upphafna landslagsfegurð ræðir Malcolm Andrews tengsl hollenskrar landslagslistar og kortagerðar á 17. öld, tengsl sem varpa ljósi á áherslu málaranna á staðfræðilega nákvæmni og jafnframt á ákveðna víxlverkun slíkrar nákvæmni og hugmynda um ídyllískt sveitalíf (sem eru eitt helsta einkenni ítölsku landslagshefðarinnar). Þetta hafi lyft landslagsmálverkunum upp fyrir hagnýtisgildi landakortsins og á stall „listarinnar“. Á tímum útþenslu, vísindaframfara, stríðsátaka og myndunar þjóðríkja hafi áhugi á að skilgreina umhverfið fjær og nær kallað á gerð nákvæmra landakorta. Slík kort gátu nýst í hernaðarlegum eða pólitískum tilgangi í skráningu landamæra þjóða (sem styrki einnig þjóðarsjálfsmyndina) og landsvæða – sem fyrir Hollendinga skipti einnig máli í tengslum við landfyllingu og vatnsstjórnun. „Þekking er vald“ segi gamalt orðtæki. Kort veiti upplýsingar og yfirsýn og þeim fylgi tilfinning fyrir yfirráðum og valdi. Andrews bendir á að landslagsverk geti einnig haft slíka virkni og að listamenn hollenska skólans á fyrri hluta 17. aldar hefðu eflaust glaðir viðurkennt tengsl sín við kortagerð. Andrews greinir frá „symbíósu“ eða samlífi staðfræðilegra grafíkverka og landakorta (af eigin landi og öðrum) á heimilum hollenska stórveldisins og á grafíkverkstæðum sem sáu jöfnum höndum um frágang landslagsmynda og korta fyrir almennan markað.

Andrews fjallar í greininni um ákveðna myndræna samstillingu sveitar og borgar í hollenskum landslagsverkum sem sprottin sé af nándinni við staðfræðilega skráningu og kortagerð. Grafískar myndir af Indælum stöðum frá nágrenni Haarlem (gefnar út 1608) hafi verið vinsælar meðal listelskandi íbúa í yfirfullum borgum sem ekki höfðu tíma til langra ferðalaga út í sveit og slíkar myndir á veggjum heimilisins voru kærkomin áminning um að hin hugljúfa sveit væri skammt undan. Andrews ræðir áróðurskennt yfirbragð ímynda á borð við Indæla staði sem minni á fasteignaauglýsingar (þar sem auðugir borgarar séu hvattir til að festa kaup á sveitasetri). Myndirnar í safni Indælla staða séu ýktar en samt staðfræðilega sannfærandi og leiki á mörkum kortastíls og landslagsmynda.

Andrews lýsir því hvernig hollensku landslagsmálarnir hafi meðvitað farið út fyrir kortagerð en samt haldið staðfræðilegri skráningarvirkni; hún sé raunar gerð „hetjuleg“ (einmitt vegna staðfræðilegra og samtímalegra skírskotana) í vegsömun á heimalandinu og þjóðernislegum táknum. Sé t.d. litið til áðurnefndrar málverkaseríu Jacobs van Ruisdaels af Haarlem-borg og umhverfi hennar og hún borin saman við undirbúningsteikningar sem hann gerði af landsvæðinu megi sjá augljósan mun: teikningarnar feli í sér kortlagningu á víðáttumiklu landslaginu (og eru skyldar kortagerðarhefð) og er sjónbaugur fyrir miðri mynd. Í málverkunum hafi sjónbaugur verið færður niður fyrir miðju og himinninn fái aukið vægi. Birtan sé látin falla á dramatískan hátt (í anda chiaroscuro ) og lýsa upp mannlega athafnasemi í línökrunum og undirstrika jafnframt iðnaðinn sem hagsæld Haarlem og alþjóðleg frægð byggði á. Myndin búi yfir áróðurskenndum blæ staðbundinnar upplýsingarmiðlunar af því tagi sem gjarnan sést í ferðahandbókum eða svæðiskortum fyrir ferðalanginn.

Hollendingarnir máluðu upphafnar sveitasælumyndir eins og heimspekingarnir mæltu með sem híbýlaskreytingu þegar í fornöld. Þessi sveitasæla hollensku landslagsmálaranna er ekki andstæð borgarmenningunni, heldur er hún mikilvægur hluti af borgaralegri tilveru og sjálfsmynd. Haarlem-mynd Ruisdaels endurspeglar viðhorf framsækinnar og borgarvæddrar verslunarmenningar til landsins og sveitarinnar þar sem borg og sveit eru ofnar saman (af kortafræðilegri nákvæmni) og sýndar sem háðar hvor annarri. Sveitin er nátengd efnahagslegum og stjórnarfarslegum umsvifum borganna. Sveitin var því í senn svið vellíðunar (raunverulegrar og/eða ímyndaðrar) og hagsældar (sem þó var einnig sótt á haf út). Í því felst megininntak hollenskrar landslagsmálunar á 17. öld.

Tilvísanir og helstu heimildir:

1 Það var ekki síst fyrir tilstuðlan frásagnarlegra málverka, sviðsettra í tilkomumiklu og víðfeðmu landslagi líkt og séðu úr lofti – og kallað hefur verið „heims–landslag“ ( world landscape ) – verka eftir flæmska listamenn á borð við Joachim Patinir (um 1475/80–1524) og síðar Pieter Breughel (um 1528–1569), sem farið var að líta á landslagsmyndir á Niðurlöndum sem sérstaka tegund málverka. Slíkar myndir voru rómaðar á meðal ítalskra safnara.

2 Suðurhéruð Niðurlanda voru áfram kaþólsk og undir Spánarkonungi. Þar er nú Belgía.

3 Hollenska landslagsmálverkið skilur sig þannig frá flæmskri hefð 15. og 16. aldar sem lagði áherslu á biblíulega/goðsögulega, táknlega frásögn þó að þar megi einnig sjá mikla nákvæmni og ákveðið raunsæi í útfærslu myndefna.

Ann Jensen Adams: „Competing Communities in the „Great Bog of Europe“. Identity and Seventeenth-Century Dutch Landscape Painting“, í Landscape and Power . Ritstj. W.J.T. Mitchell. 2. útg. Chicago og London: The University of Chicago Press 2002 (1. útg. 1994), s. 35–76.

Nils Büttner: Landscape Painting: A History . Þýð. Russell Stockman. New York og London: Abbeville Press Publishers 2006.

Malcolm Andrews: Landscape and Western Art. Oxford: Oxford University Press 1999, s. 77–105.

Denis Cosgrove: Social Formation and Symbolic Landscape . Madison: The University of Wisconsin Press 1998 (1. útg. 1984).

Höfundur er myndlistargagnrýnandi við Morgunblaðið.