Suddi Þótt góð veðurskilyrði séu í Þakgili er ekki hægt að ganga að góða veðrinu vísu frekar en annars staðar. Helga gengur yfir brú frá nýju smáhýsunum.
Suddi Þótt góð veðurskilyrði séu í Þakgili er ekki hægt að ganga að góða veðrinu vísu frekar en annars staðar. Helga gengur yfir brú frá nýju smáhýsunum. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Mýrdalur Einstök veðursæld ríkir í Þakgili og þar er oft mun betra veður en við ströndina að sögn Helgu Ólafsdóttur staðarhaldara.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Heldur minni umferð hefur verið í Þakgil á Höfðabrekkuafrétti í sumar en undanfarin ár. Helga Ólafsdóttir sem rekur tjaldsvæði þar og gistingu í smáhýsum hefur þá skýringu að Evrópumeistarakeppnin í knattspyrnu og hátt bensínverð eigi einhvern þátt í því.

Helga og maður hennar, Bjarni Jón Finnsson, hafa verið að byggja upp ferðaþjónustu í Þakgili undanfarin ár. Nýjasta framkvæmdin er virkjun sem mun bæta mjög aðstöðuna.

„Við hjónin fórum mikið í tjaldútilegur og með tjaldvagn og heimsóttum þá allar helstu náttúruperlur landsins. Við vissum að við ættum þessa perlu hér í Þakgili og höfðum áhuga á að gera eitthvað við hana. Við ákváðum að prófa að koma hér upp tjaldsvæði og þetta hefur undið upp á sig,“ segir Helga sem ver stórum hluta sumarsins í Þakgili.

Hún talar því af reynslu þegar hún segir að einstök veðursæld sé í gilinu og segir verst að það viti ekki allir. „Fólk ferðast mest eftir veðurspánni, fer þangað sem sólin á að vera,“ segir hún. Jafnframt vekur hún athygli á því að Þakgil sem er þröngt gil undir Mýrdalsjökli, umgirt fjöllum, sé á mörkum spásvæða Suðurlands og Suðausturlands. Þar sé oft annað veður en við ströndina, í vestlægum áttum sé til dæmis oft sól í Þakgili þótt það rigni í Vík. „Mér finnst spáin oft verri en veðrið og vildi fá betri veðurspár fyrir þetta svæði,“ segir Helga.

Fáir voru í Þakgili á dögunum þegar blaðamenn voru á ferð enda rigningarsuddi. Helgina á undan hafði þó verið mikið að gera hjá Helgu enda var þá margt um manninn í góðu veðri. Hún segir að yfirleitt sé laust pláss í smáhýsunum í miðri viku og stundum um helgar og þótt stundum hafi verið margt um manninn hafi tjaldsvæðin aldrei fyllst alveg.

Helga býr í Vík en ver stórum hluta sumarsins í Þakgili. Fyrstu árin var hún þar í gömlu hjólhýsi en seinni árin í húsi sem þau byggðu. „Hér er gott að vera þegar mikið er að gera. Ég er því hérna allar helgar. En þegar straumurinn fer að minnka er ég meira heima,“ segir Helga.

Í hnotskurn
» Tjaldsvæði hefur verið rekið í Þakgili í sjö ár. Þar er hægt að taka við 600 manns.
» Fyrir fjórum árum var byggð brú á Afréttisána og er leiðin fær á öllum bílum.
» Níu smáhýsi voru tekin í notkun á síðasta ári. Þar geta 36 gist.
» Verið er að virkja Þakgilslækinn og hugmyndin er að leggja rafmagn á tjaldsvæðin og bæta hreinlætisaðstöðuna og koma upp heitum pottum.