Birna Jónsdóttir Birna Jónsdóttir fæddist á Grófargili í Seyluhreppi 18. nóvember 1905. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 28. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurlaug Brynjólfsdóttir, f. á Ölduhrygg í Svartárdal 3. júlí 1869, d. 13. apríl 1966, og Jón Benediktsson, f. í Brekku í Seyluhreppi 3. júlí 1872, d. 17. maí 1924. Systur Birnu voru: Guðlaug Una, f. 1898, d.1996, Ingibjörg, f. 1900, d. á þriðja ári, Ingibjörg Efemía Jónsdóttir, f. 1904, d. 2000, Kristín f. 1913, d. 2006. Birna ólst upp á Grófargili með foreldrum sínum en föður sinn missti hún átján ára gömul. Fyrir utan stutt farskólanám var hún einn vetur í unglingaskóla á Sauðárkróki. Birna giftist 5. janúar 1928 Eiríki Sigmundssyni frá Gunnhildargerði í Hróarstungu, f. 10. júní 1897. Foreldrar hans voru Sigmundur Jónsson, f. 4. ágúst 1852 og Guðrún Ingibjörg Sigfúsdóttir f. 5. september 1862. Börn Eiríks og Birnu eru: A) Jón Sigurður á Fagranesi á Reykjaströnd, f. 8. janúar 1929, maki 1 Sigríður Viggósdóttir, f. 16. mars 1940. Börn þeirra: Eiríkur, f. 3. janúar 1958, Sigurjón, f. 2. desember 1958, Viggó, f. 13. október 1960, Sigmundur, f. 8. janúar 1962 og Alda, f. 26. október 1964. Jón og Sigríður slitu samvistir. Maki 2 Hólmfríður Heiðbjört Agnarsdóttir, f. 6. september 1944, d. 13. október 1997. Börn þeirra: Sigfús Agnar, f. 3. september 1966, Björn Sigurður, f. 15. febrúar 1969, Ásta Birna, f. 31. maí 1973, Brynjólfur Þór, f. 16. mars 1978 og Jón Kolbeinn, f. 20. maí 1986; B) Guðrún Ingibjörg í Hlíð í Hjaltadal f. 28. apríl 1930, maki 1 Björn Steinsson, f. 2. apríl 1921, d. 29. mars 1980. Börn þeirra: Kristján Eiríkur f. 20. september 1958, Brói (óskírður) f. 4. apríl 1958, d. 11. desember 1958. Guðrún og Björn slitu samvistir. Maki 2 Ingvar Kristinn Guðnason, f. 25. ágúst 1936. Barn þeirra: Sigrún, f. 8. september 1971; C) Sigurlaug Brynhildur í Hólakoti á Reykjaströnd, f. 11. desember 1931, maki Pétur Guðvarðarson, f. 3. maí 1931. Börn þeirra: Einar Björn f. 31. ágúst 1958, Steinar Guðvarður, f. 10. september 1960, Birna Kristín, f. 14. desember 1962, Kristján Eiríkur, f. 16. júní 1964, Gunnhildur Þórey, f. 14. október 1966 og Unnar Pétur Pétursson, f. 13. desember 1967; D) Sigmundur Vigfús, f. 15. febrúar 1933, d. 25. september 1977, síðast búsettur í Hveragerði, maki Kristín Þorsteinsdóttir, f. 13. apríl 1930. Börn þeirra: Björn Sigurþór, f. 28. október 1957, Stefán Hermann, f. 22. febrúar 1959, Eiríkur Hörður, f. 19. apríl 1968 og Huldís Ósk, f. 19. ágúst 1970, stjúpsonur Sigmundar og sonur Kristínar: Þorsteinn Högnason, f. 27. september 1947; E) Kristján Þórarinn, Drafnarstíg 2, Reykjavík, f. 19. nóvember 1945, maki Sigurborg Hilmarsdóttir, f. 10. júní 1946. Börn þeirra: Steinn, f. 5. nóvember 1974, Eiríkur, f. 27. desember 1976 og Sigrún, f. 1. júlí 1985. – Afkomendur Eiríks og Birnu eru nú orðnir 99. Eiríkur og Birna bjuggu á Grófargili frá 1928 til 1934 og þar fæddust fjögur elstu börn þeirra. Þá fluttu þau að Reykjum á Reykjaströnd og bjuggu þar frá 1934 til 1939 að þau fluttu að Hólakoti í sömu sveit og bjuggu þar í fjögur ár. Vorið 1943 fluttust þau að Fagranesi á Reykjaströnd og bjuggu þar í nærfellt tuttugu ár og þar fæddist Kristján, yngsta barn þeirra. Eftir lát Eiríks 1964 átti Birna lengst af heima í Kópavogi. Vann hún þá meðal annars í mötuneytum og stundaði prjónaskap. Vorið 1985 flutti Birna að Freyjugötu 13 á Sauðárkróki og hélt þar heimili uns hún fór á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Sauðárkróks haustið 2003.

Andinn er frjáls, sagði Inga Birna, vinkona mín og föðursystir, og við veltum fyrir okkur heimsósómanum og veraldarvandanum.

Og þótt himinn og haf skildi okkur að flaug kaffispjallið á milli Danmerkur og Íslands með netpósti. Þannig liðu langir vetur og gjarnan lauk þeim með ljúfum endurfundum að vori. Og þá kom orðsending yfir hafið; ,,Mín kæra, sólin er farin að skína á pönnukökuna. Komið nú í heimsókn í dúkkulandið.”

Nú hafa gluggar verið opnaðir og andinn flýgur frjáls. Ég heyri óminn af mildri og staðfastri rödd frænku minnar í bréfi frá því í sumar: ,, Mín kæra, já, nú fer ný tíð í hönd: sól og hlýja. Við erum skapaðar til að bera birtu inn í dimma veröld: - annars værum við moldvörpur. “

Hún vildi vera sólarmegin og Spánn var land draumanna. Fósturjörðin í klakabrynju og sveipuð skammdegisvoð heillaði lítt. „Æ, það er of kalt þarna uppi.“

Mannlíf á sjóræningjaeyju norðursins þótti frænku minni yfirgengilegt og forvitnilegt. Það var lærdómsríkt að sjá íslenska tilvist með augum hins brottflutta landa og oftar en ekki hjúpaði hún skoðanir sínar einstakri og beittri kímnigáfu.

Að loknum farsælum kennaraferli í Danmörku sneri hún sér að skriftum sem hún hafði sinnt í hjáverkum. Á heimasíðuna, ingabirna.com, safnaði hún efni sínu.

Um amstur dagsins orti hún í ljóðabók sinni, Villiblóm:

Allt þetta amstur

væri einskis virði,

ef enginn nennti

og enginn þyrði

að eiga sér draum um betri daga-

að láta hann rætast

er önnur saga.

Hún var heimskona, víðsýnn jafnréttissinni, orðafíkill og hugmyndasmiður, félagshyggjukona og nautnabelgur sem nærðist á orðinu kynngimagnaða og fallegum hugsjónum. Hún var byltingarsinni og hvatti fólkið sitt til að grípa daginn, rugga bátum og ganga fram af - en vera þó viss um að rata til baka.

Í húsi frænku minnar við Löngubrú í Kaupmannahöfn var skrafað um læknisfræði götunnar og lífsins hættur, vandræðast yfir hugmyndafræði vitleysinga og lofuð lífsspeki hófsemi og manngildis. Þar var rætt um átök góðs og ills, etinn saltfiskur og dreypt á góðum vínum. Þar voru haldin hattaboð á terrassi og þær mæðgur héldu opin hús á fimmtudagskvöldum fyrir ættingja og vini og vini vina vinanna. Þar var hraðbraut yfir kynslóðabilið.

Inga Birna lést á dánardægri föður síns, Jóns Bjarnasonar. Hann orti svo skömmu fyrir andlát sitt:

Æ Drottinn, veittu miskunn mér.
Mitt hjarta kvöl og ótti sker.
Mér gleymdist oft að þóknast þér
og þjóna rétt sem bæri.

Ég vona þó, að Jesús frið mér færi.

Það er míns hjarta heitust þrá,
að heilagan Guð ég fái að sjá,
við hinsta beð mér búi hjá
og blessun veiti sína.

Og yfir mér látnum ljós hans megi skína.

( J.B.)

Andinn er frjáls og nú er hann floginn með góðviðrisvindum suður um höfin.

Mínar hlýjustu kveðjur sendi ég Ólöfu, Jóni og Skorra, tengdabörnum og  barnabörnum.

Blessuð sé minning Ingu Birnu Jónsdóttur,

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Á sorgarstundu sem þeirri sem ég upplifi núna, að skrifa minningu um konu sem var mér svo kær en er nú fallin frá, ber ég blendnar
tilfinningar í brjósti, tilfinningar sem brjótast um í huga mér. Annars vegar tilfinning barnslegrar gleði yfir elskulegu viðmóti
fullorðna fólksins sem gefur sig að afskiptu barninu, viðmóti sem barnið átti ekki von á og umfaðmar í einlægni sinni og þakklæti og hins vegar djúpstæð sorg vegna ástvinamissis. Ástvinar sem tilheyrði hvorki tíma né rúmi heldur því óendanlega andlega algleymi sem aldrei tekur enda og er ein allsherjar fílósófía um lífið og tilveruna, gefandi fílósófía sem sest að í hjarta og heila mínum, áhrifavaldur lífs míns, ávalt til góðs.
Aðra stundina langar mig til að gráta, gráta yfir því að fá ekki fleiri stundir með þessari gefandi, æðrulausu, skilningsríku en samt
reiðu konu og hina stundina langar mig að hrópa til allra þeirra sem heyrt geta; ég er lánsöm og rík vegna þess að ég fékk að kynnast Ingu Birnu Jónsdóttur. Við vorum miklir vinir allt frá því ég var ellefu ára krakkaskítur sem fór með henni og Ólöfu dóttur hennar í stórri
flugvél áleiðis til Kaupmannahafnar. Hún var að fara í leit að gæfu sinni, gæfu sem hún vissi að hún átti skilið, til framandi lands, frá
fósturjörð sinni sem hafnaði hennar lífsgildum og  jafnréttishugsjónum, fósturjörð sem á sama tíma upphóf skrumskælda fósturjarðarást og trygglyndi við úrelt stjórnkerfi og drottnunaráráttu sem í dag mætti kalla vináttutengslakarlrembuþjóðfélag.

Þetta er ekki pólitískur pistill, þetta er minningargrein um baráttukonu sem hafði kjark til að brjóta sér leið út úr karlakúgun og
misrétti sem þessi sama þjóð hafði brotist frá á tímum kúgunar og ofríkis drottnunarstefnu nágrannaþjóðar sinnar.
Ferð hennar á vit ævintýra og réttlætis, hófst árið 1974, árið sem kvenpersónur landsins ákváðu að mótmæla því að sumir væru jafnari en aðrir. Uppfrá því hófst kvenréttindabarátta íslenskra kvenna, barátta sem hefur skilað mörgu góðu í þágu réttlætis og jafnréttis og við
njótum góðs af í dag. Aldrei er samt of mikið af því góða og enn er langt í land til að konur Íslands geti sagt; við stöndum jafnfætis
íslenskum karlmönnum á allan hátt. Inga Birna Jónsdóttir hafði ekki þolinmæði til að bíða eftir árinu 2007, góðærisárinu þar sem allir
voru sáttir við sitt hlutskipti og menn og konur voru „jafnfætis” á allan hátt. Hún fékk nóg af gamaldags og viðurkenndum gildum um
hlutverk kvenna hins vegar og hlutverk karla annars vegar, hlutverk sem voru alls ekki þau sömu og langt, mjög langt bil þar á milli, bil sem enn gætir og kynhlutverkin munu alltaf verða skilgreind á einn eða annan hátt, óháð því hversu mikið er hrópað, hversu margir rauðir sokkar verða saumaðir og konur klæðist. Bilið er óbrúanlegt svo lengi sem við líðum drottnun og ábyrgðarleysi karlkyns stjórnenda landsins, að vaða uppi með frekju og eigingirni, eins og þeir hafa hingað til gert.

Í dag erum við að gjalda þess að hafa lagt okkar traust í hendur fárra manna, í flestum tilfellum karlmanna, sem með drambi, ofmetnaði, hroka og græðgi, ekki bara græðgi í meiri auð og hærri þjóðfélagsstöðu heldur græðgi í völd og áhrif til sönnunar og staðfestingar eigin karlmennsku. Lítil þjóð í miðju Atlantshafi er sundruð, svekkt, arðrænd og vonlítil um betri framtíð afkomenda sinna og enn á ný hneppt í vistarbönd lénsherranna sem tókst að fangelsa þjóðina í skuldadýflissu án þess að spyrja kóng né prest en sem jafnframt tókst lymskulega að bjarga eigin skinni og sitja nú á sínu vel geymda peningafjalli eins og Jóakim frændi. Ef til er Guð, þá þakka ég honum fyrir að hlífa Ingu Birnu við því að horfa upp á þjóð sína, ættingja og vini sem enn búa á Ísalandinu góða, súpa seiðið af því sem hún sá fyrir á tímum kvenfrelsisbaráttu rauðsokka og réttsýnna manna, að myndi geta farið þannig sem nú er reyndin. Hún hafði kjark og vit til að hverfa frá vonlausri baráttu fyrir jafnrétti og réttsýni landa sinna sem þrátt fyrir að tæpum 40 árum síðar, voru ekki færir um að öðlast og eru enn langt því frá.

Ég kveð góðan vin með söknuði og eftirsjá en á sama tíma þakklæti fyrir að hafa gefið okkur öllum sem hana þekktu, þá heimspeki og réttsýna gagnrýni sem er öllum hollt að fá til að geta horft á lífið og tilveruna með aðeins opnari huga en ella. Glottandi og glettið augnaráð hennar hverfur mér aldrei úr minni, augnaráð sem sagði meira en þúsund orð en skilaði mikilli væntumþykju og húmor fyrir sjálfri sér og þeim sem henni þótti vænt um.

Megi andi hennar fylgja okkur um aldur og æfi og viska hennar verða okkur leiðarljós til betra lífs og réttlátari sýn á lífið og meðferðarfólk okkar á erfiðum tímum. Lóu, bræðrum hennar, ættingjum og vinum votta ég mína dýpstu samúð.

Jakobína Davíðsdóttir.