Ægir Benediktsson fæddist í Reykjavík 14. febrúar 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 5. september síðastliðinn. Foreldar hans voru Benedikt Halldórsson, trésmíðameistari í Reykjavík og kona hans Sigríður Björnsdóttir. Systur Ægis: Ingibjörg og Árdís. Ægir kvæntist Ester Jónsdóttur árið 1975 en þau slitu samvistum 1992. Eftirlifandi sambýliskona Ægis er Sigríður H. Arndal. Ægir ólst upp í Reykjavík og ól þar allan sinn aldur. Hann stundaði nám við Skildinganesskóla og síðar við Melaskóla og lauk þaðan fullnaðarprófi. Hann stundaði síðar trésmíðanám við Iðnskólann í Reykjavík, þaðan sem hann lauk sveinsprófi í iðn sinni. Ægir var til marga ára til sjós á flutningskipum Eimskipa innanlands sem erlendis. Eftir að hann hætti til sjós hóf hann störf á trésmiðaverkstæði Reykjavíkurhafnar og lauk starfsferli sínum hjá Reykjavíkurhöfn eftir þrjá áratugi, síðast sem umsjónarmaður Hafnarhúsins við Tryggvagötu. Útförin hans fór fram í kyrrþey frá Laugarneskirkju þann 15. september síðastliðinn að ósk hins látna.

Við hjónin dvöldum erlendis með Siggu og Ægi fyrir rétt rúmu ári síðan. Þá lék allt í lyndi og við nutum þess að vera saman á sólarströnd.   Er leið á ferðina fór Ægir að finna fyrir slappleika og leið stundum ekkert vel en lét ekki á því bera. Eftir heimkomuna fór hann  í rannsókn rétt um síðustu áramót og var þá tilkynnt að hann væri kominn með lungnakrabbamein.  Við tók erfið lyfja-og geislameðferð. Þegar líða fór á sumarið var mjög dregið af þessum hrausta og sterka manni og ljóst að það var ekki allt með felldu með sjúkdómsferlið. Við nánari rannsókn kom í ljós að sjúkdómurinn hafði breiðst út og þeim hjónum tilkynnt um miðjan ágúst að ekkert væri hægt að gera fyrir Ægi. Þremur vikum seinna lést Ægir á líknardeild Landspítalans eftir  aðeins átta mánaða erfiða baráttu við sjúkdóm sem fáir fá umflúið sem á annað borð  greinast með hann.

Það var aðdáunarvert hvað Ægir tók sjúkdómnum af miklu æðruleysi og hugrekki. Hann hélt sínu striki ótrauður áfram svo lengi sem hann hafði kraft og kjark til að lifa lífinu eftir fremsta megni. Það var ávallt hægt að tala við hann um heima og geima þrátt fyrir veikindin allt fram á síðustu stundu.

Það er kannski táknrænt að með því síðasta sem Ægir gerði út á við var að fara á 60 ára afmælismót knattspyrnufélagsins Þróttar, þótt veikburða væri, til að gleðjast með félagsmönnum en Ægir var einn af ellefu stofnendum Þróttar í upphafi.

Sigga og Ægir hófu formlega sambúð fyrir tæpum áratug í Sóltúninu og byggðu sér þar heimili, sem ávallt var gaman heimsækja og  áttum við þar margar ánægjustundir með einkar samhentu pari sem elskuðu hvort annað af heilum hug.

Heimili þeirra var til fyrirmyndar og þar lét Ægir ekki sitt eftir liggja. Hann var snyrtimenni og vildi hafa reglu á hlutunum og ef eitthvað fór úrskeiðis fór hann tafarlaust í verkið og framkvæmdi hlutina  af nákvæmni og vandvirkni.

Það var yfirleitt ekki neitt hik á Ægi dags daglega, hann kom til dyranna eins og hann var klæddur og var óhræddur að segja sína meiningu og stóð fast á henni ef þess þurfti. Hann var góður sögumaður og það var gaman að heyra sögur af lífsferlinum sem var viðburðarríkur bæði til sjós og lands. Ægir var með húmorinn í lagi og oft komu hrein gullkorn frá honum við ýmis tækifæri.

Missir Siggu er mikill. Í annað sinn á ævinni er hún svipt maka sínum. Í fyrra skiptið var einnig um sama sjúkdóm að ræða og mikil raun fyrir hana að þurfa að ganga í gegnum sama ferlið á efri árum. En Sigga er sterk og yfirveguð kona og sýndi mikið hugrekki og æðruleysi við þessar erfiðu aðstæður og hjúkraði og hlúði að Ægi allt fram á síðustu stundu.

Megi góður guð styrkja og styðja Siggu í sorgarferlinu og hjálpa henni að lifa góðu lífi í framtíðinni.

Guðmundur Gunnarsson Guðrún H. Arndal.