Olav Davíð fæddist í Stavanger í Noregi 11. júní 1920. Hann andaðist á Ási í Hveragerði miðvikudaginn 1. júlí 2009. Foreldrar hans voru Betzy Marie Davíðson, f. í Noregi 8. mars 1895, d. 1989 og Skapti Davíðson, f. í Stöðlakoti í Reykjavík 15. janúar 1887, d. 1983. Systkini Olavs voru Gudrun Dagmar, f. 1922, d. 1997, Einar Dagfinn, f. 1926, d. 1989 og Þórdís, f. 1928, búsett í Reykjavík. Hinn 18. ágúst 1951 kvæntist Olav Sólveigu Ingibjörgu Kristjánsdóttur, f. 15. janúar 1928, d. 18. október 2008. Systkini hennar eru: Þórdís, f. 1936, búsett á Ísafirði, Áslaug, f. 1937, d. 1983, Anna, f. 1939, búsett í Reykjavík og Örnólfur Grétar, f. 1942, búsettur á Akranesi. Börn Olavs og Sólveigar eru: 1) Davíð, f. 1951, kvæntur Elínu Björgu Jónsdóttur, synir þeirra eru Einar Örn og Olav Veigar. 2) Ástrún Sólveig, f. 1954, gift Aðalsteini Guðmundssyni, börn þeirra eru Ellen Ýr og Aðalsteinn. 3) Betzy Marie, f. 1956, gift Baldri I. Sveinssyni, börn þeirra eru Davíð Ingi, Hrafnhildur og Sólrún María. 4) Olav Heimir, f. 1958, í sambúð með Guðlaugu Ingvarsdóttur, dætur þeirra eru Berglind Þöll, Dagmar Björk og Alla María. Fyrir átti Heimir dæturnar Drífu og Hrefnu Lind. 5) Ragnheiður Hulda, f. 1960, gift Þóri Þrastarsyni, börn þeirra eru Hulda Ösp og Þröstur. Barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin 10. Olav ólst upp í Noregi til 14 ára aldurs en flutti þá til Íslands ásamt foreldrum og systkinum. Hann bjó fyrstu árin að Leifsgötu 5 í Reykjavík. Framan af ævinni vann Olav við ýmis störf s.s. bifreiðarstjóri, á stórvirkum vinnuvélum og við uppsetningu síldarverksmiðju á Eyri við Ingólfsfjörð. Um 1950 hóf hann störf við virkjunarframkvæmdir við Írafoss sem voru á vegum Pihl & Sön. Olav vann á vegum þess fyrirtækis við margar stórframkvæmdir hér á landi svo sem við byggingu Mjólkárvirkjunar, Steingrímsstöðvar, hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn, Búrfellsvirkjun o.fl. Einnig vann hann við hafnarframkvæmdir á Bornholm í Danmörku. Fyrstu árin vann hann á ýmsum stórvirkum vinnuvélum, síðar verkstjóri, lagermaður og síðast lagerstjóri í höfuðstöðvum Ístaks að Smiðshöfða í Reykjavík unns hann lét af störfum sökum aldurs. Frá 1951 til 1965 bjuggu Olav og Sólveig upp við Sog, að undanskildu einu ári sem þau voru á Selfossi. Árið 1965 fluttu þau til Þorlákshafnar og bjuggu þar í 17 ár en þá fluttu þau til Reykjavíkur. Árið 2002 fluttu þau í þjónustuíbúð aldraðra í Hveragerði og síðan á hjúkrunarheimilið Ás. Útför Olavs verður gerð frá Hveragerðiskirkju í dag, 10. júlí og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku besti afi minn.

Þá er komið að kveðjustund. Það er gott að vita að þú og amma eruð saman aftur, þið voruð eitt, alltaf svo mikil hjón.  Ég á svo ótalmargar góðar minningar um þig elsku afi minn. Svo hjartahlýr, góður og nægjusamur, maður. Auðvitað eru sögurnar þínar sem þú sagðir okkur krökkunum, ofarlega í huga mér.  Alltaf varstu til í að segja mér  ,,Bjömm Pétur eða ,,Lælu sögu fyrir svefninn,  þó að klukkan væri oft orðin alltof margt.  Þú sagðir þær af svo mikilli tilfinningu og innlifun, ég varð alltaf jafn spennt, þó ég væri búin að heyra þær þúsund sinnum. Yndislegt.

Þú varst alltaf svo snyrtilegur og flottur.  Alltaf með svarta greiðu í brjóstvasanum, svo fengum við krakkarnir stundum að greiða þér, seinna fengum við líka að snyrta skeggið.  Ég var vön að biðja um Olav-afa greiðslu, þegar ég kom úr baði á mínum yngri árum.  Þá greiddi mamma mér eins og þú varst vanur að greiða þér.  Þegar við fjölskyldan komum í Hraunbæinn, var það oftar en ekki okkar fyrsta verk að sækja töfrarúmið inní geymslu, það fannst okkur nú alveg meiriháttar sniðug græja.  Þú áttir líka alltaf einhvern fjársjóð inní búri; ótal batterí, vasaljós, brjóstsykur og ýmislegt sniðugt.  Mér er alltaf svo minnisstæð ökuferðin sem við fórum í þegar ég kom með þér að sækja mömmu og pabba á gráa saabnum þínum. Öll umferðarljósin breyttust úr rauðu í grænt, þegar þú komst á blússandi ferð, að því er virtist.  Mér fannst þetta svo merkilegt.  Umferðarljósin breyttu sér bara af því afi minn var að koma!  Og þú söngst; allir frá, allir frá, Fúsa liggur á.Oh, hvað við hlógum mikið.  Svo fórum við auðvitað alltaf í hver sér kóka kóla merkið? á leiðinni heim, það var alveg ómissandi.

Það er ekki hægt að biðja um betri afa en þig, alltaf svo jákvæður og yndislegur og alltaf til í eitthvað sprell.  Þó að skrokkurinn hafi verið orðinn lúinn undir það síðasta, þá var samt allt dásamlegt hjá þér afi minn og alltaf stutt í brosið.

Svefninn laðar, líður hjá mér.
Lífið sem ég lifað hef.
Fólk og furðuverur
hugann baðar andann hvílir.
Lokbrám mínum læsi uns
vakna endurnærður

(Björn J. Friðbjörnsson, Daníel Á. Haraldsson.)

Ég kveð þig, elsku Olav afi minn, með söknuði og sorg í hjarta, en jafnframt með létti yfir því að nú líði þér betur.

Þín

Hulda Ösp.

Elsku afi minn. Fyrst og fremst vil ég þakka þér fyrir öll árin okkar saman, þau eru búin að vera yndisleg enda varstu sjálfur alltaf yndislegur, jákvæður og góður afi. Þú varst góður sögumaður og það vita allir. Öll börnin þín og barnabörn sem er nú ófá muna eftir Björn-Péturs sögunum þínum sem aðeins þú gast sagt og og gerðir svo ótrúlega spennandi og skemmtilegar með orðum hreyfingum og myndum sem enn eru í fallega bústaðnum ykkar ömmu. Alltaf var ég tilbúinn að fara með þér inn í söguherbergi og hlusta á sögurnar þínar.

Núna þegar þú ert farinn hugga ég mig við að nú ertu komin til ömmu. Mér líður vel vitandi af ykkur saman aftur, líklega í sumarbústaðnum ykkar í Útey því þar þótti ykkur alltaf svo gott að vera.

Ég kveð þig nú með margar góðar minningar um þig yndislegi afi minn.

Mér þykir vænt svo vænt um þig afi minn

Þín

Dagmar Björk.

Elsku afi minn.

Það er gott að þú sért komin upp til ömmu en þó sárt að missa þig á móti.

En ég vil samt þakka Guði að hafa leyft mér að kynnast þér og ömmu. Þið eruð í nánast öllum minningum mínum frá yngri árum. Þegar þið komuð í bústaðinn hlupum ég og Dagmar strax upp í koju til að geta heyrt Björn-Péturssögur og allskyns sögur frá því þú varst yngri í Noregi. Og eftir allar sögurnar fórum við útí garð að hjálpa til við kartöfubeðið, slá og hugsa um garðinn með þér. Svo fórum við inn og fengum að greiða á þér hárið í allar áttir sem var svaka sport fyrir okkur.
Þú varst bara svo ljúfur og góður við alla sem voru í kringum þig  og mér allavega leið alltaf mjög vel í kringum þig og ömmu og ég er alveg viss um að það séu margir sammála mér í því.

Þú varst alltaf svo ljúfur og góður við börn og öllum börnum líkaði jafn vel við þig. Þú passaðir líka alltaf vel uppá að vera fínn í fínum fötum.

En núna líður mér svo vel að vita að þér líður svo vel þarna uppi  og vera komin til ömmu og geta fylgst með okkur öllum hérna niðri.

Auðvitað er sárt að sakna þín, en ég svo góðar minningar frá þér og ömmu að það er ekkert hægt að biðja um einhvað meira en það. Ég hefði alls ekki vilja missa af ykkur. Þið tvö voruð fyrirmyndirnar mínar og eruð það ennþá. Ég veit að þið eruð hérna hjá mér. Og mér finnst skrítið að vera að skrifa þetta því þú ert ekki farinn. Þú ert hérna hjá mér.

Alla María Heimisdóttir

Það fyrsta sem kemur upp í  hugann þegar ég hugsa um Óla afa eru sögustundirnar. Þær fóru fram í sér herbergjum, litla herberginu í Hraunbænum og kojuherberginu í bústaðnum, enda varð að vera alveg friður og ró. Ég gleymi ekki hvað ég var alltaf spennt að hlusta á sögurnar sem langoftast fjölluðu um Björn-Pétur. Mér leið alltaf svo vel hjá ykkur ömmu og það var í algjöru uppáhaldi að koma í pössun og vera ein með ykkur, fyrir utan þann hálftíma á kvöldin þegar fréttirnar voru í sjónvarpinu, þessi hálftími fannst mér eins og hálfur dagur enda spurði ég mömmu einu sinni hvort þið mættuð nokkuð horfa á fréttatímann þegar þið voruð að passa mig. Þú varst alltaf svo duglegur að leyfa mér að hjálpa til við allt sem þurfti að gera, slá garðinn, mála og fleira það var aldrei neitt stress og þótt þú værir lengur með verkið með minni hjálp þá var það aldrei neitt vandamál.

Í mínum huga ertu einstakur ég hef aldrei kynnst neinum sem er jafn jákvæður, þolinmóður og ljúfur eins og þú elsku afi. Heimurinn væri betri ef það væru fleiri eins og þú.

Ég hugsa til þín og ömmu og hverjum degi  með miklum söknuði en það huggar mig að vita af ykkur saman á ný og ég veit þið fylgist vel með okkur hinum.

Takk fyrir allar góðu stundirnar, alla þolinmæðina og góðmennskuna í minn garð elsku afi minn. Þín er sárt saknað og þú munnt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu.

Þín afastelpa

Berglind Þöll.