Katrín Vigfúsdóttir var fædd 31. desember 1928 að Sunnuhvoli í Vopnafirði. Hún lést 10. september síðastliðinn. Katrín eða Kaja eins og hún var alltaf kölluð var dóttir hjónanna Vigfúsar Sigurjónssonar verkamanns, fæddur 26. nóvember 1891 að Borgum í Þistilfirði, látinn 02. ágúst 1941 og Bjargar Davíðsdóttur húsfreyju, fædd 19. nóvember 1898 að Mælifelli í Vopnafirði, látin 25. maí 1959. Systkinin voru tólf og níu þeirra komust til fullorðinsára, það fyrsta fæddist 1918 og það yngsta 1939 og því 21. árs aldursmunur á því yngsta og því elsta. Í desember 1967 er Kaja ein sjö kvenna sem Hannes Hafstein fékk til liðs við sig að stofnun slysavarnardeildar á Vopnafirði og fékk félagið nafnið Sjöfn. Hún var í undirbúningsnefnd og endurskoðandi félagsins til margra ára og var heiðruð árið 2007 fyrir störf sín fyrir félagið. Hún var félagi í Ungmennafélaginu Einherji og ritari þess á árunum 1951-1955. Kaja söng í kirkjukór Vopnafjarðarkirkju til margra ára. Hún vann ýmis störf í gegn um tíðina var m.a. ráðskona í verbúð, vann í saltfiski, frystihúsi, við beitningu auk þess var hún ferskfiskmatsmaður. Systkinin voru þessi í aldursröð; Svavar, Herdís Jóhanna, Davíð Sigurjón, Katrín Stefanía, Þorsteinn Lárus, Þorsteinn Lárus yngri, þá Katrín (Kaja), Helga Fanney, Ásdís Erna, Marteinn, Ásdís Erna yngri, Haukur Vopni Eftirlifandi af þeim systkinum eru þau Herdís Jóhanna, Helga Fanney og Haukur Vopni. Jarðarför Katrínar fer fram frá Vopnafjarðarkirkju 19.september nk. kl.14.00

Elsku besta Kaja mín. Ég vona að þér líði vel á himnum ofan með systkinum þínum, mömmu og pabba. Ég man allar þær vísur er þú kenndir mér og allar þær stundir er við áttum hér, á jörðu niðri. Áður fyrr var ég litli engillinn þinn, en nú ert þú stóri engillinn minn. Og hver gerir nú við hann Tobba minn. Farðu vel með þig á himnum.

Þessa vísu lærði ég frá þér:

Kötturinn níu, tíkin tíu, tuttugu ærin,
fjörutíu konan, kýrin,
kapallinn dregur lengstan vírinn.
(Höf. ókunnur)

Stökkvið nú á fætur skjótt,
Því sólin skín í austurátt,
Og úti syngur lóan dátt.
Góðan daginn, góðan daginn, góðan daginn.
(Höf. ókunnur)

Ástarkveðjur,

Eyrún Ósk.