Kjartan Jónsson Kríuhólum 4 lést á líknardeild Landsspítalans á Landakoti þriðjudaginn 30. júní. Kjartan var fæddur á Ísafirði 12. júní 1928. Foreldrar hans voru Jón Ólafur Jónsson málarameistari f. 24. maí 1884, d.14. janúar 1945 og Arnfríður Ingvarsdóttir húsmóðir f.06. október 1885, d.18. janúar 1950. Kjartan var yngstur en systkini hans voru: Ingvar f. 14. september 1910, d. 3.júní 1974. Jón Hermann f. 13. ágúst 1913, d. 27. júní 1993. Sigríður Ragnhildur f. 21. október 1917, d. 3. júlí 2007. Sigurður f. 28. desember 1919. Herdís Elísabet f. 5. júní 1924. Kjartan kvæntist árið 1951 Hlíf Einarsdóttur frá Holtakotum Biskupstungum, f. 19. nóvember 1930. Börn þeirra eru: Einar jarðeðlisfræðingur f. 15. janúar 1952, kvæntur Marciu Maren Vilhjálmsdóttur, þau eiga 4 börn og eitt barnabarn. Árni vélfræðingur f. 13. júní 1953, sambýliskona hans er Margrét Örnólfsdóttir, þau eiga eina dóttur og Margrét átti 5 börn áður. Ólafur vélvirkjameistari f. 22. febrúar 1955, kvæntur Kristínu Dúadóttur, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. Elín handverksmaður f. 17. ágúst 1956, gift Agnari Kristjánssyni, hún á þrjá syni og þrjú barnabörn með Róbert Róbertssyni. Agnar á tvo syni. Arnfríður sálfræðingur f. 17. október 1960, hún á þrjú börn með Kim Kappel Christensen, þau skildu. Yngvi fjölmiðlafræðingur f. 7. apríl 1962, d. 2000, var kvæntur Bryndísi Arngrímsdóttur og þau eignuðust tvo syni. Bryndís á eina dóttur. Jóhann Ragnar stálskipasmiður f. 13. Apríl 1964, kvæntur Jónínu Guðjónsdóttur, þau eiga eina dóttur. Óttar orkuverkfræðingur f. 16. janúar 1973, kvæntur Hönnu Kristínu Sigurðardóttur. Þau eiga tvö börn og Hanna átti son áður. Kjartan og Hlíf skildu árið 1976. Kjartan ólst upp á Ísafirði þar til hann lauk gagnfræðaskóla en fluttist þá til Reykjavíkur og innritaðist í Verzlunarskóla Íslands og lauk verslunarprófi 1946. Eftir það starfaði hann hjá Landsbankanum í Austurstræti í 4 ár þangað til hann hóf nám við Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Hann útskrifaðist sem garðyrkjumaður þaðan 1952. Hann starfaði við ylrækt á nokkrum stöðum, síðast að Brúnalaug í Eyjafirði. Hann flutti þaðan til Akureyrar 1957, þar sem hann starfaði við skrifstofustörf, lengst hjá Kaupfélagi Eyfirðinga, Sýslumanninum á Akureyri og Verðlagseftirliti. Hann flutti til Ísafjarðar 1976, næsta áratug starfaði hann hjá Sýslumanninum á Ísafirði, Skattstofu á Akranesi og Sýslumanninum í Vík í Mýrdal. Síðan fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann var við skrifstofustörf í nokkur ár. Á Akureyrarárunum tók hann töluverðan þátt í starfi IOGT og einnig á Akranesi. Hann söng mikið og lék oft undir á gítar og í Vík hóf hann að syngja í kirkjukór og var eftir það virkur í kórstarfi til æfiloka. Útförin fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi miðvikudaginn 8. júlí klukkan 13.

Aðeins örfá orð til að tjá afa Kjartani þakklæti mitt. Hann var afar viljugur að aka mér á milli staða, enda ungur maður með bíladellu, eins og hann orðaði það. Áttum við því margar og minnisstæðar samræður, sem kenndu mér margt. Ég hef misst góðan og skemmtilegan afa og vin, sem ég sakna mjög. Ég er enn að reyna að átta mig á að hann sé farinn. Guð geymi hann.


Sigurður Ármann Árnason