Jódís Stefánsdóttir fæddist á Norður-Reykjum í Hálsasveit í Borgarfirði 31. október 1927. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 27. september 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Þorvaldsson, bóndi á Norður-Reykjum, f. í Hægindi í Reykholtsdal 24. júní 1892, d. 28.október 1971 og Sigurborg Guðmundsdóttir, f. í Dyngju á Hellissandi 24. september 1899, d. 5. ágúst 1978. Jódís var elst 6 systkina. Systkini hennar eru: Guðríður, f. 8. desember 1930, búsett í Lindarbæ, Reykholti. Þorvaldur, f. 15. júlí 1932, búsettur í Reykjavík. Kona hans Sveinbjörg Jónsdóttir. Þau eiga 5 börn. Guðrún Sigríður, f. 30. mars 1935, búsett í Reykjavík. Maki Óskar Ósvaldsson. Snæbjörn, f. 14. ágúst 1936, d. 5. janúar 2006. Sambýliskona Kristrún Valdimarsdóttir. Snæbjörn átti 4 börn með fyrrverandi konu sinni Helgu Benediktsdóttur. Þórður, f. 15. október 1939, búsettur á Arnheiðarstöðum sem er nýbýli út frá Norður-Reykjum. Kona hans er Þórunn Reykdal og eiga þau 2 syni. Þórður á kjördóttur frá fyrra hjónabandi. Eiginmaður Jódísar var Hálfdán Daði Ólafsson, f. í Bolungarvík, 3. ágúst 1926, d. 26. september 1993. Börn þeirra eru: Margrét, f. 19. september 1953. Maki Benedikt Jónsson. Hún á 4 börn, Sigurð Hálfdán, Guðna Frey, Snædísi Perlu og Húna. Hlédís Sigurborg, f. 31. júlí 1956. Maki Gunnar Sigurðsson. Þau áttu 3 börn, Róbert Anna, Jódísi Tinnu sem lést á fyrsta ári og Sunnu Kamillu. Stefán Grímur, f. 24. júlí 1958. Maki Rigmor Rössling. Hann átti 1 son, Brynjar, sem lést árið 2000, 24 ára að aldri. Móðir hans er Bylgja Bragadóttir. Kristján Gunnar, f. 4. ágúst 1960. Maki Guðríður Magnúsdóttir. Dóttir þeirra er Elín Arna. Jóna Daðey, f. 11. september 1961. Maki Albert Kristjánsson. Þau eiga 3 börn, Kristján, Halldór og Daðeyju. Guðrún Sigríður, f. 29. október 1963. Maki Gunnlaugur Guðmundsson. Þau eiga 2 börn, Birki Snæ og Jódísi Erlu. Fyrir átti Guðrún Silju Dögg. Faðir hennar var Sigurður Sveinsson, d. 4. júlí 2004. Barnabörnin voru 15 (tvö eru látin eins og áður kom fram; Brynjar og Jódís Tinna). Barnabarnabörnin eru 11. Jódís ólst upp á Norður-Reykjum til fullorðinsára. Hún stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti í 2 ár eftir skyldunám. Um tvítugt fór hún að fara til starfa í Reykjavík að vetrinum en var heima að sumrinu. Hún stundaði ýmis störf fram að giftingu. Frá árinu 1965 vann hún hins vegar ávallt fullan vinnudag, fyrst í Hraðfrystistöðinni og síðan hjá Bæjarútgerðinni. Seinna á lífsleiðinni vann hún við framreiðslustörf, á Kránni og í Múlakaffi. Hún vann einnig hjá Hollustuvernd en síðustu starfsár sín vann hún hjá Síldarréttum í Kópavogi. Útför Jódísar fór fram 6. október.

Ég hitti Jódísi fyrst einhverntíman um miðjan áttunda áratug síðustu aldar þegar ég var að draga mig á eftir Hlédísi, næstelstu dóttur Jódísar. Það var á Brekkustígnum í Vesturbæ Reykjavíkur og þessi fyrstu kynni okkar eru mér eftirminnileg. Jódís var að hlusta á kallinn hann Frank Zappa sem var (og er enn) í miklum metum hjá mér og við lentum strax í hrókasamræðum um kallinn og aðra sem töldust til jaðarmússíkanta í þá tíð.

Þannig var það alltaf með hana Dísu, að maður kom aldrei að tómum kofanum hjá henni, hvort sem um var að ræða músík, bækur, pólitík eða annað. Sjálfur var ég miklu takmarkaðri en hún, t.d. gat ég aldrei rætt við hana um hesta af nokkru viti en hestamennska var mikið áhugamál Dísu um árabil.

Við Hlédís bjuggum um skeið í Vesturbænum steinsnar frá Brekkustígnum þar sem Jódís bjó ásamt tengdaföður mínum, Hálfdáni Daða Ólafssyni, og var oft gott að eiga öðlinginn hana Dísu að. Róbert sonur okkar var þá kornungur og við hjónakornin kunnum lítið til barnauppeldis en við gátum ávallt leitað góðra ráða og aðstoðar hjá Dísu þegar á bjátaði. Ekki var heldur ónýtt að eiga hana að hérna fyrir vestan þegar Sunna Kamilla dóttir okkar var nýfædd.

Jódís var fordómalausasta manneskja sem ég hef kynnst og með mikla réttlætiskennd og kunni litlar þakkir þeim mönnum sem henni fannst fara fram með hroka og yfirgangi, svo sem þeim sem gerðu íslensku þjóðina samseka í árásarstríði í útlöndum.

Ég á eftir að sakna tengdamömmu, ég veit að hennar líkar eru ekki á hverju strái.

Gunnar.

Elskuleg móðir mín, Jódís Stefánsdóttir, hefði orðið 82ja ára í dag, þann 31. október.

Hún lést þann 27. september síðastliðinn og fór jarðarförin fram í kyrrþey.

Hún átti orðið allstóran ættboga, sex börn, fimmtán barnabörn og ellefu langömmubörn þó við tvær elstu dætur hennar hefðum einar séð um að gera hana að langömmu.

Hún var fædd að Norður-Reykjum í Hálsasveit í Borgarfirð og ólst þar upp í sex systkina hópi, við gott atlæti.  Hún gekk í Héraðsskólann í Reykholti og ef það hefðu verið aðrir tímar hefði hún líklega farið í langskólanám.

Hún var mjög bókhneigð og með ólíkindum fróð og minnug.  Hún hafði áhuga á allskonar tónlist, Hörður Torfa, Megas, Bubbi, óperur og heimsklassíkin var allajafna í spilaranum hjá henni.

En lífið fer oft öðruvísi.  Hún eignaðist sex börn á tíu árum, við tvær elstu systurnar erum fæddar að Norður-Reykjum og fóru foreldrar okkar ekki að búa saman fyrr en ég var orðin nokkura mánaða gömul.  Á þessum tíma var erfitt að fá húsnæði í Reykjavík en þangað lá leið flestra þá eins og nú.  Þau byrjuðu sinn búskap í Kamp-Knox  en fluttu síðar á Brekkustíg og bjuggu þar til ársins 1978 er þau slitu samvistum.

Þá flutti mamma í Breiðholtið með þrjú yngstu börnin.  Síðustu tólf árin bjó hún hjá Margréti, elstu systur minni.

Hún var gift Hálfdáni Daða Ólafssyni (Bóbó) frá Bolungavík, sem lést 26. september 1993.  Og var sambúðin við karl föður minn ekki alltaf auðveld.

Hún vann alla tíð mikið utan heimilisins sem var ekki mjög algengt á þeim tíma og var  lífsbaráttan lengst af hörð.

Hún var yndisleg mamma og amma og var mikið með barnabörnin sín.  Hún lagði á sig ófáar ferðir hingað vestur til okkar og þá oftast siglandi, því hún var mjög flughrædd.

Sumarið 1983 eignaðist ég yngsta barnið mitt og kom hún þá vestur til mín.  Árið áður hafði ég misst dóttur (Jódísi Tinnu) og vissi mamma að ég þyrfti mikinn stuðning.

Svona var hún móðir mín, ávallt reiðubúin að veita okkur þann stuðning sem hún gæti.

Ég veit að við eigum eftir að sakna hennar mikið, en ég veit líka að það verður vel tekið á móti henni hinum megin.

Guð geymi þig elsku mamma, þín dóttir

Hlédís (Héla).

Elsku besta amma mín.

Minningarnar um þig eru óendanlegar þar sem að þinn partur í æsku okkar systkinanna er svakalega mikill. Ég mun fyrst og fremst ávalt muna eftir þér sem yndislegri og hlýrri ömmu. Rauða kápan, svarta leður taskan og svörtu kuldastígvélin munu alltaf sitja fast í minningunni um þig ásamt öllum sögunum sem þú sagðir.

Við systkinin vorum nú ekki alltaf auðveld við þig, ég veit að við gátum gert þig ansi gráhærða á tímum með rifrildunum okkar, en það var samt aldrei langt í hláturinn hjá þér. Þú áttir alltaf ansi erfitt með að skamma okkur án þess að fara að flissa þar sem að uppátæki okkar Halldórs voru nú oftast frekar skrautleg. En það var það sem var líka svo einkennandi við þig, hvað var stutt í húmorinn hjá þér.

Ég man hvað við gátum setið tímunum saman inni í stofu og rifjað upp gamlar sögur. Þú og Baddi voruð alveg eins, með límminni þegar kom að gömlum minningum og sögum og þótti mér alltaf ótrúlega gaman að hlusta og hlæja með ykkur.

Það sem mér þykir einkenna þig mest er hlýjan sem þú bjóst yfir. Hvað það var alltaf gott þegar þú komst í heimsókn og gafst mér knús, kallaðir mig alltaf litla angann þinn. Það sem situr hvað sterkast í mér er þegar ég var að fara að sofa þegar ég var lítil og þú taldir alltaf á mér tærnar svo að ég sofnaði, sú aðferð klikkaði aldrei.

Það er í minningunum sem þú munt alltaf lifa með mér. Ég veit að þú munt alltaf vaka yfir mér og passa að ég fari ekki út án þess að fara í yfirhöfn svo að kuldaboli bíti mig ekki. Ég vil nota þetta tækifæri til að kveðja þig amma mín, og leyfa þér að vita það að minningin um þig mun ávalt lifa í hjartanu mínu.

Þín ömmustelpa,

Daðey

Elsku amma mín.

Það er skrítið að hugsa um þig, þegar þú ert farin frá okkur. Það var svo skrítið að sjá þig svona kalda ofan í kistunni, mér fannst eins og ég þekki þig ekki svona kjurra. Yfirleitt varstu á þönum inn og út með þvottinn, komst svo inn og fékkst þér kaffisopa og tókst alltaf upp þennan klút með kaffiblettunum á.

Ég man alltaf þegar ég og Jódís komun til þín, þá kallaðir þú okkur alltaf ungana þína og baðst okkur um að setjast hjá þér. Þú sagðir okkur alltaf nýjar og nýjar sögur af páfagauknum.

Þegar ég frétti að þú værir farin frá okkur, þá fór margt í gegnum hugann minn. Fyrst var ég hissa en svo brást ég í grát. Ég grét mest á kvöldin því þá fór ég alltaf að hugsa um þig. Ég samdi Ömmuljóð handa þér svo þú munir alltaf eftir mér.

Sofðu elsku amma mín

svífðu upp til himna

Ég mun hugsa æ til þín

takk fyrir liðna tíma.

Þú varst mér alltaf svo góð

hugljúf og hlý

Svo falleg á hörund og rjóð

en nú fylgist þú með mér uppi á ský

Kveðja

Þín

Elín Arna.

Minning um móður.

Mamma var hlýja, mjúka konan sem ég skreið upp í rúmið til, kúrði mig hjá, strauk um andlitið og taldi hrukkurnar á enninu sem alltaf voru sex sama hvernig ég taldi, því börnin voru sex.

Mamma var konan sem varla sagði styggðarorð þrátt fyrir hin ýmsu uppátæki okkar krakkaormanna  og þau voru oft ansi skrautleg.

Mamma var konan sem gerði heimsins bestu pönnukökur, kjötsúpu og  plokkfisk og í dag þegar eru það bestu meðmælin ef eitthvað er  eins og mamma gerði það:

Mamma var konan sem ég gekk með kvölds og morgna í saltfiskverkunina þar sem við unnum saman. Mamma í bláköflóttu skyrtunni með nestispakkann og köflótta termos kaffibrúsann undir hendinni. Konan sem ég var stolt af. Dugleg, vandvirk, hlédræg og hæglát en lét kerlingarnar og karlana ekki eiga neitt inni hjá sér ef svo bar undir.

Mamma er konan sem elskaði að hengja út þvott. Og hvað það gat pirrað mig þegar hún tók  hann inn og dreifði út um alla stofu og á öll stólbök svo hann gæti tekið sig. Mamma er konan sem ég hugsa alltaf hlýtt til og brosi með sjálfri mér þegar ég dreifi þvottinum sjálf út um alla stofu svo hann gæti tekið sig. Nákvæmlega eins og mamma gerði.

Mamma var konan sem benti mér á þegar ég kvartaði yfir óþekktinni í börnunum mínum, að það skipti engu máli. Gunna mín, þakkaðu fyrir að börnin þín eru alltaf svo glöð. Það er það sem skiptir  máli.

Mamma vissi allt hún, var viskubrunnur sem hægt var að fletta upp í eins og orðabók. Las mikið, fygldist vel með og mundi síðan allt sama.

Mamma var kona sem skilur ekki eftir sig tómarúm í lífi mínu, heldur fullt hjarta af hlýjum tilfinningum og góðum minningum.

Með kveðju frá dóttur.

Guðrún S. Hálfdánardóttir.

Ástkær móðir mín er horfin til nýrra heimkynna eftir erfitt veikindastríð á 82. aldursári. Hún hefur ávallt verið órjúfanlegur hluti tilveru minnar en við höfum haldið heimili saman á annan áratug. Hversu gamall sem maður sjálfur verður þá er maður aldrei tilbúin þegar móðirin kveður. Ég sakna hennar óendanlega mikið en hugga mig við það að hún sé búin að hitta fólkið sitt hinu megin og að henni líði vel.

Hún var nýkomin til dvalar á Hjúkrunarheimilnu Eir og enginn bjóst við að andlát hennar bæri svo brátt að. En hún fór sínar eigin leiðir. Pabbi var fæddur árið 1926 og dó þ. 26. sept. 1993. Mamma var fædd 1927 og dó 27. sept. sl. eða degi á eftir pabba. Þar sem ég trúi ekki á tilviljanir þá verð ég að sætta mig við það að svona hefði þetta átt að fara.  Mamma var mjög greind kona, gegnheil með ríka réttlætiskennd. Áhugamál hennar voru margvísleg, hún var algjör alfræðiorðabók og viskubrunnur og höfðum við systkinin oft á orði að hún myndi vinna allar spurningakeppnir ef hún fengist til að taka þátt.  Það var fátt sem vakti ekki áhuga hennar og má þar fyrst nefna fagurbókmenntir  og tónlist sígilda jafnt sem dægurlagatónlist. Uppáhaldstónlistarmennirnir hennar voru Pavarotti, Jussi Björling, Hörður Torfason, Megas, Bubbi, Alfreð Clausen og Haukur Morthens.  Hún var alæta á bækur kunni mikið af ljóðum og las oft þungar bókmenntir s.s. Tolstjo, Dostovetsky, Kundura,  G.Garcia Marquez, en einnig voru í uppáhaldi hjá henni húmoristar, eins og Flosi Ólafs, Hákon Aðalsteins og Jón Múli og keypti hún allar bækur sem þeim tengdust.  Hún fylgdist einnig með formúlunni í mörg ár og gaf forföllnum bílaáhugamönnum ekkert eftir í þekkingu sinni á hver vann hvaða keppni.  Hún var á yngri árum mikil hannyrðakona, vandvirk og nákvæm.  Mamma var mikil hestakona á yngri árum og átti góða gæðinga.  Skuggi var uppáhalds hesturinn hennar, erfiður og hrekkjóttur, taminn af Höskuldi á Hofsstöðum. Ég efa að nokkur hafi þorað á bak honum eftir að mamma fór alfarið til Reykjavíkur, en hún og Skuggi voru eitt og hún kunni á honum tökin. Hún reið t.a.m. í Reykholt daginn áður en hún átti fyrsta barnið sitt og vakti mikla athygli sveitunga sinna sem höfðu ekki hugmynd um að hún væri komin að fæðingu. Hún fór svo ekki á hestbak í ein 30 ár, en um 60tugt fór hún aftur að fara á bak og stundaði útreiðar í nokkur ár á viljamiklum hesti sem Kristján bróðir gaf henni og hét Vinurinn. Eins lítillát og hún var þá þýddi ekkert að bjóða henni lélegan hest til reiðar og þrátt fyrir 30 ára fjarveru frá besta vini sínum þá var eins og hún hefði aldrei stigið úr hnakknum, svo góður reiðmaður var hún. Við riðum mikið út saman og besta minning sem ég á frá þessum tíma er þegar við riðum út tvær saman að kvöldi 17. júní, langt inn í nóttina í blankalogni og heiðríkju. Matseld og heimilisstörf voru ekki hennar uppáhaldsviðfangsefni þrátt fyrir að það yrði hennar starfsvettvangur stóran hluta lífsins. Hún var meira gefin fyrir listir, lestur góðra bóka og á sínum yngri árum útistörf.  Hún bakaði hins vegar bestu pönnukökur í heimi og hafði gaman af að hengja út og ganga frá þvotti. Þrátt fyrir að vilja varla fara út úr húsi síðustu árin þá komst hún iðulega út á snúru í hálku og niðamyrki til að bjarga inn þvotti, orðin fótaveik og mjög náttblind.  Mamma hélt heimili með börnum sínum þar til þau fóru að búa sjálf. Síðast bjó hún með Kristjáni syni sínum í Breiðholtinu en flutti til mín þegar Kristján fór í sambúð. Hún dvaldi einnig oft hjá dætrum sínum, Hlédísi á Bolungarvík, Guðrúnu sem býr á Söndum í Miðfirði og hjá Jónu sem býr í Árbænum. Hún ferðaðist talsvert um landið með börnum sínum og barnabörnum eftir að fór að hægjast um og fór tvisvar til að heimsækja Stefán son sinn sem býr í Svíþjóð.  Þrátt fyrir að mamma væri hlédræg og í raun ófélagslynd kona, þá gat hún verið hrókur alls fagnaðar í fárra vina hópi. Hún var í miklu uppáhaldi hjá tengdasonum sínum og vinum barna sinna sem margir urðu vinir hennar ævilangt. Hún hafði góða og í raun kolsvarta kímnigáfu og hennar vopn voru orðin. Þau gátu verið beitt ef hún þurfi að verja börnin sín eða annað sem henni hafði verið falið. Hún var yndisleg amma og passaði eldri barnabörnin sín mikið og ljómaði alltaf þegar hún leit hvítvoðunga augum.  Þegar horft er yfir lífshlaup mömmu, þá hefði hún eflaust blómstrað og lífsgæði hennar orðið önnur og meiri ef lífið hefði verið henni auðveldari. Hún og pabbi voru jafn ólík og dagur og nótt. Hún ofurviðkvæm, listakona af guðs náð og vandmeðfarin. Hann grófur, erfiður í sambúð, einnig með snilligáfu en á allt öðru sviði. Sambúðin með honum í meira en tvo áratugi og að ala upp börnin sex, oft í mikilli örbirgð, hefur án efa tekið sinn toll af líðan hennar og sálarástandi. Hún stóð sig eins og hetja við þessar aðstæður þar til síðasta ábyrgðin var tekin frá henni.  Þau hjónin bjuggu ekki saman frá árinu 1978. Hún gekk út með gamlan trékistil undir hendinni og byrjaði nýtt líf með 3 yngstu börnunum. Henni hætti hins vegar aldrei að þykja vænt um hann og þessi ákvörðun hennar hefur örugglega verið þyngri þraut heldur en við getum nokkurn tíma gert okkur í hugarlund. En þarna hefur hún verið að bjarga börnunum sínum og örugglega sálarlífi sjálfrar sín einnig. Þau skildu hins vegar aldrei og vildu vera á sama stað þegar yfir lyki. Mamma veiktist árið 2005 og náði sér nokkuð vel og átti a.m.k. 2 góð ár eftir það. Við Benni fórum með henni til að heimsækja Stefán bróðir í Svíþjóð árið 2007 og gekk það vonum framar. Vorið 2008 fékk hún hins vegar heilaáföll í 3 skipti ásamt öðrum áföllum í kjölfarið og var henni ekki hugað líf það sumar. Hún náði sér á fætur aftur og gat verið heimavið í vetur. Hún  veiktist síðan aftur í maí sl. og var nýkomin til dvalar á Hjúkrunarheimilu Eir þegar hún lést. Ég vil að lokum þakka starfsfólki á B-4 deild Borgarspítalans, Dagdeild Landakots og á Hjúkrunarheimilinu Eir fyrir frábæra umönnun Jódísar Stefánsdóttur í veikindum hennar síðasta árið.

Margrét Hálfdánardóttir.