Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Fjárhagsleg hagræðing sem hlýst af fyrirhugaðri sameiningu leikskóla í Reykjavík er áætluð 105 milljónir króna á ári, eða sem samsvarar 4% af heildarútgjöldum leikskólanna sem sameina á.

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Fjárhagsleg hagræðing sem hlýst af fyrirhugaðri sameiningu leikskóla í Reykjavík er áætluð 105 milljónir króna á ári, eða sem samsvarar 4% af heildarútgjöldum leikskólanna sem sameina á. Alls hefur sameining fjórtán leikskóla verið lögð til, í tveimur tilvikum sameining þriggja leikskóla. Hver sameining skilar samkvæmt þessu að meðaltali tæpum 7,5 milljónum í sparnað á ári.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari menntaráðs Reykjavíkur við fyrirspurn SAMFOK og Barnanna okkar, samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík. Hvað grunnskóla varðar eru þrjár sameiningar fyrirhugaðar. Í hverju tilviki næst fram sparnaður sem svarar til launakostnaðar stjórnenda, þó með þeim fyrirvara að viðkomandi geta átt rétt á biðlaunum í 6 til 12 mánuði.

Sparnaðarupphæð óljós

Af þessu má ráða að endanleg sparnaðartala verður ekki þekkt fyrr en fyrir liggur hverjir verða ráðnir og hversu margir fara á biðlaun. Gert er ráð fyrir fimm mánaða biðlaunakostnaði að meðaltali á þessu ári. Auk launakostnaðar stjórnenda er ráðgert að sameiningar leiði til þess að bekkjarstærðir verði hagkvæmari sem aftur leiðir til lækkaðrar „innri“ húsaleigu. Endurskipulagning í Hvassaleitisskóla gæti til að mynda sparað samtals 26 milljónir á þessu ári og því næsta.

Á frístundaheimilum borgarinnar er ráðgert að þrjár rekstrarstjórastöður verði lagðar niður, sem skilaði 17,5 milljónum króna í sparnaði á ári. Þá verður leitast við að leggja niður 16% stöðugildi aðstoðarverkefnisstjóra á 15 frístundaheimilum, sem áætlað er að skili 11 milljóna króna sparnaði. Þetta verður því aðeins framkvæmanlegt geti viðkomandi skóli fellt þau verkefni sem út af standa inn í starf sitt án þess að gjald komi fyrir.

Sameiningar
» Verði af áformum Reykjavíkurborgar um sameiningu leikskóla verða þrjátíu leikskólar sameinaðir í fjórtán einingar.
» Hagræðing hvers og eins, sem hlutfall af útgjöldum, er áætluð á bilinu 2,3 til 6,4%.
» Gert er ráð fyrir að tilfærsla bekkjardeilda milli skóla leiði til tæplega 30 milljóna króna sparnaðar á ári.