Pétur H. Blöndal fæddist í Reykjavík 24. júní 1944. Hann lést á heimili sínu 26. júní 2015.
Foreldrar Péturs voru Haraldur H.J. Blöndal, sjómaður og verkamaður, fæddur 29. mars 1917, dáinn 22. júní 1964, og Sigríður G. Blöndal skrifstofumaður, fædd 5. september 1915, dáin 29. júní 2000. Systkini Péturs eru Svanfríður Blöndal, f. 24. júní 1944, Kristín Blöndal, f. 9. desember 1946, Hjörtur Blöndal, f. 22. júní 1950, og Lárus Blöndal, f. 22. júní 1950. Þau eru öll á lífi.
Pétur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Monika Blöndal, f. 31. janúar 1947, kennari. Þau skildu. Foreldrar Moniku voru Fritz Dworczak og Maria Dworczak. Börn og kjörbörn Péturs og Moniku eru 1) Davíð Blöndal, f. 23. ágúst 1972, maki Kristín Birna Óðinsdóttir, f. 19. júní 1974. Börn þeirra eru Kári, Klara og Knútur. 2) Dagný Blöndal, f. 13. september 1972, maki Halldór Nikulásson, f. 19. desember 1974. Börn þeirra eru Sandra Sif, Pétur Andri, Nikulás og Eva Björt 3) Stefán Blöndal, f. 28. júní 1976, maki Lára Guðmundsdóttir, f. 19. febrúar 1988. Börn þeirra eru Monika og Ólíver 4) Stella María Blöndal, f. 30. mars 1980, maki Gunnlaugur Þorgeirsson, f. 30. apríl 1978. Börn þeirra eru Arnar Már, Katrín og Elín.
Pétur átti einnig tvö börn með Guðrúnu Birnu Guðmundsdóttur, f. 2. maí 1966, tölvunarfræðingi. Foreldrar Birnu eru Guðmundur Unnar Agnarsson og Ingveldur Björnsdóttir. Börn þeirra eru 1) Baldur Blöndal, f. 29. september 1989, 2) Eydís Blöndal, f. 3. janúar 1994.
Seinni kona Péturs var Eyrún Rós Árnadóttir, f. 11. júní 1975, þroskaþjálfi, dóttir Árna Bergs Eiríkssonar, f. 26. janúar 1945, d. 5. nóvember 2007, og Sigríðar Eyglóar Antonsdóttur, f. 1. janúar 1945.
Pétur lauk stúdentsprófi frá MR árið 1965 og diplom-prófi í eðlisfræði, stærðfræði og tölvufræði við Kölnarháskóla 1968. Hann lauk svo diplom-prófi í hagnýtri stærðfræði, líkindafræði, tölfræði, tryggingastærðfræði og alþýðutryggingum við Kölnarháskóla 1971 og doktorsprófi í líkindafræði við sama háskóla 1973. Pétur starfaði sem sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands á árunum 1973-1975. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands 1973-1977 og forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna 1977-1984. Þá sinnti hann tryggingafræðilegri ráðgjöf og útreikningum fyrir lífeyrissjóði og einstaklinga árin 1977-1994. Pétur var framkvæmdastjóri Kaupþings hf. 1984-1991 og kennari við Verslunarskóla Íslands 1991-1994. Hann var starfandi stjórnarformaður Tölvusamskipta hf. 1994-1995. Frá 1995 til æviloka starfaði Pétur sem alþingismaður.
Pétur var jarðsunginn frá Kópavogskirkju 7. júlí 2015.

Að kveðja pabba sinn og einn af bestu vinum sínum er óendanlega sárt. Sársaukinn sem ég upplifi núna er hluti af hamingjunni sem ég upplifði þá.
Elsku pabbi, orðin eru fá þessa dagana en minningarnar eru margar.
Að vera ættleiddur er að fá annað tækifæri á lífinu, að mínu mati. Árið 1972 var lítið um ættleiðingar til Íslands og er ég fyrsta barnið sem kom frá Indónesíu og þannig opnaði pabbi leiðina fyrir aðra til að ættleiða frá Indónesíu. Hreint ótrúlegt hvernig örlögin færðu okkur pabba saman en hér kemur stutt saga frá þeirri ferð.
Þegar pabbi var í námi í Köln og mamma vann á skrifstofu hjá flugfélaginu Lufthansa, fengu þau ódýra miða og ferðuðust víða um heim og kynntust fólki meðal annars í Indónesíu.
Í landinu ríkti gríðarleg fátækt og helmingur af þjóðinni atvinnulaus og mörg börn á vergangi. Rétt eftir að Davíð bróðir minn fæddist ákváðu pabbi og mamma að ættleiða barn, helst stelpu.
Pabbi fór til Indónesíu og hafði ekkert í höndunum nema íslenska vegabréfið sitt. Hann fór fyrst til Jakarta þar sem hann hitti stóra fjölskyldu vinar síns, þar á meðal margir læknar og fólkið flest vel menntað og af hærri stigum en margir aðrir. Það var mikið rætt um ættleiðingar og það þótti nú ekki vandi að útvega eitt barn. Hann var spurður á hvaða aldri barnið ætti að vera og sagði hann að það ætti að vera í yngra lagi, helst nýfætt. Fólk horfði hvað á annað, alveg steini lostið við þessar upplýsingar og spurði hvað í ósköpunum hann ætlaði að gera við lítið barn, það væri svo langt þangað til það gæti farið að vinna. Hann útskýrði það nánar að hann ætlaði að fá barn til að annast og eiga, ekki vinnumann eða konu og þá breyttist viðhorfið. Það var nefnilega sjálfsagt að fá barn til vinnu, en ættleiða barn formlega, það var annar handleggur og þar með datt þetta upp fyrir í það skiptið.
Næst fór hann til Bali og þvældist í tvær vikur aftan á hjóli hjá vini sínum, þeim var vísað á fæðingarheimili nálægt Denpasar, höfuðborg Bali.
Á móti þeim tók kona sem sá um fæðingarheimilið og sagði að það hafi komið maður með nýfætt barn nokkrum dögum áður en hún gat ekki tekið við því þar sem hún var með 18 börn og vísaði honum frá.
Hann frétti af fjölskyldu með 13 börn og vildi móðirin endilega gefa nýjasta barnið því afkoman var svo slæm. En þá var það ekki hægt því trúin þeirra sagði ef barnið færi frá eyjunni myndu guðirnir reiðast. Það gæti orðið eldgos eða uppskerubrestur, jafnvel eitthvað þaðan af verra við slíkt guðlast.
Þetta endaði svo á því að vinur hans sagði að hann ætti bara að skella sér til Jövu, til fjarskylds frænda síns sem byggi í Súrabaya og það varð úr því.
Ferðalagið þangað tók 12 tíma með rútu sem var það gömul og lúin að víða sást í gegnum gólfið sem var úr fjölum. Fólkið sat ákaflega þétt og margir voru með kvikfénað með sér, mest hænur og svín.
Hann hitti frænda vinar síns sem fór með honum um alla borgina og einhvers staðar á leiðinni kom í ljós að í borginni var útlend skrýtin kerling sem rak barnaheimili og fékk hann heimilisfang hennar og fóru þeir þangað.
Þá kom í ljós að þetta var heimili frá finnska hjálpræðishernum fyrir móður og barn en það hét Mata Hari Terbit.
Finnska konan, sem rak heimilið, tók honum afskaplega vel og sagðist vera með 12 börn undir 6 mánaða aldri og 30 börn frá 6 mánaða til 3 ára. Það var farið uppá næstu hæð til að velja barn.
Pabbi segir að þetta hafi verið erfiðasta ákvörðun sem hann hefur staðið frammi fyrir á lífsleiðinni, þarna voru níu strákar og þrjár stelpur, en eins og kom fram hérna áður þá vildu þau ættleiða stelpu. Hann ákvað að auðvelda valið og velja stelpu sem væri fædd sem næst afmælisdegi bróður míns og ein var fædd deginum seinna en hann. Hann valdi hana en þá kom svipur á þá finnsku og hún sagði að hann gæti ekki fengið hana þar sem hún var lifrarveik og væri dauðvona.
Þegar þau komu aftur upp var verið að baða aðra stelpuna sem öskraði þessi lifandis býsn og ákvað pabbi að taka hana, þessa skapmiklu stelpu, mig. Með þessum hætti eignaðist hann dóttur, sólargeislinn sinn eins og hann segir í sögu sinni í bók sem heitir Ævintýri alþingismanna.
Þú varst einn af mínum bestu vinum og við áttum mjög sérstakt og náið samband, þú hvattir mig í öllu sem ég gerði og langaði til að gera. Þú varst kletturinn minn. Við töluðum saman nánast daglega og gátum talað út í eitt, þú gast alltaf ráðlagt mér eða bent mér á einhverjar lausnir ef ég þurfti á að halda.
Ég er svo þakklát núna fyrir að hafa fylgt þér í gegnum lyfjameðferðirnar síðustu árin upp á spítala og veit hvað þér þótti gott og vænt um að hafa mig og minn stuðning þar og það gaf mér líka mjög mikið.
Þær eru eftirminnilegar fjölskyldumatarveislurnar sem við héldum oft á föstudögum, við systkinin, makar og barnabörnin sem þér þótti svo vænt um.
Ég var alltaf til í hvaða ævintýri með þér og það var einnig gagnkvæmt, við Sigga Dögg fylgdum þér heilt maraþon á línuskautum, til að aðstoða þig. Við fórum saman í Hvalfjarðargangahlaupið, þú að hlaupa og ég á línuskautum en tókst samt fram úr mér í lokin því ég rann varla upp brattann. Tókst á móti mér brosandi og þegar bent var á rútuna sem átti að flytja okkur til baka sagðir þú maður eða mús? og þá var ekkert annað í stöðunni en að fara aftur til baka.
Ég kenndi þér síðan í kjölfarið á línuskauta sem áttu hug þinn allan ásamt hlaupunum. Við fórum óteljandi hringi og langar línuskautaferðir hingað og þangað á sumrin um Reykjavík og nágrenni en minnisstæðastar eru ferðirnar Úr sveit til sjávar þegar við fórum í góðum hópi frá húsi Halldórs Laxnes í Mosfellsdal vestur að Gróttu á Seltjarnarnesi.
Þér fannst svo gaman að dansa og saman, ásamt Hildi og Bergdísi, fórum við á salsanámskeið, sem byrjaði nánast uppá sviði í Borgarleikhúsinu í sýningu á vegum Kramhússins. Þar kynntumst við mörgu góðu fólki sem hélt hópinn og fórum við vikulega að dansa salsa á salsastað í bænum og hittumst einnig oft í matarveislum, sem enduðu yfirleitt með því að húsgögn voru færð til og dansað salsa.
Ég hef fylgt þér í öll Laugavegshlaup nema eitt og hlaupið með þér síðustu kílómetrana og eitt Jökulsárhlaup með Dóra og Kollu en þá varstu orðinn mjög veikur án þess að vita það.
Þú tókst skyndiákvörðun og komst með mér í fyrstu göngu mína á Hvannadalshnjúk og einnig í eina Jónsmessugöngu yfir Fimmvörðuháls, þar sem þú reyndar hljópst og varst kominn nokkrum klukkutímum fyrr inn í Þórsmörk og tjaldaðir fyrir okkur og Bergdísi og tókst brosandi á móti okkur.
Ég var svo ánægð að þú vildir hafa mig með í veislunum á Bessastöðum og fögnuðum hjá þingflokknum. Evrópureisan er ógleymanleg þegar við fórum tvö með fjögur börn, Söndru, Pétur, Baldur og Eydísi með ekkert plan nema það að fara til sem flestra landa. Öll ferðalög innanlands, þar sem þú gast sagt sögur af öllum stöðum og fólki, fjöllunum hvernig þau mynduðust og allt milli himins og jarðar um hvernig landið varð til.
Síðustu tveir mánuðir voru mjög erfiðir og það var mikið áfall um miðjan apríl þegar læknirinn þinn sagði að þú ættir bara 2-4 mánuði eftir ólifaða og ég hugsaði með mér að þú ættir örugglega meiri tíma en það með okkur - en svo urðu þetta bara tveir mánuðir.
Það var erfitt að sjá þér hraka svona hratt en þú óskaðir eftir því að vera heima og að við systkinin myndum annast þig þar ásamt starfsfólki líknardeildar og þarna fengum við góðar gæðastundir með þér.
Ég er svo ánægð að við vorum öll hjá þér, systkinin og Eyrún þegar þú fórst, svo fallegur og friðsæll.
Ég sakna þín nú þegar svo mikið og veit hreinlega ekki hvernig ég á að komast í gegnum lífið án þín þótt ég hafi fengið ágætis ráðleggingar hjá þér varðandi það sem ég mun reyna að nýta mér. Þú veist að Dóri passar upp á mig á þessum erfiðu tímum.
Ég vildi að ég gæti bara einu sinni aftur tekið utan um þig og sagt þér hvað ég elska þig mikið.
Minning um brosmildan, ljúfan og skemmtilegan pabba sem vildi öllum vel, lifir.
Ég mun alltaf geyma þig í hjartanu.

Þetta ljóð sem Anna Lóa sendi mér lýsir þér svo vel.

LÍFSÞOR
Árni Grétar Finnsson

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.

Það þarf viljastyrk til að lifa eigin ævi,
einurð til að forðast heimsins lævi,
vizku til að kunna að velja og hafna,
velvild, ef að andinn á að dafna.

Þörf er á varúð víðar en margur skeytir.
Víxlspor eitt oft öllu lífi breytir.
Þá áhættu samt allir verða að taka
og enginn tekur mistök sín til baka.

Því þarf magnað þor til að vera sannur maður,
meta sinn vilja fremur en fjöldans daður,
fylgja í verki sannfæringu sinni,
sigurviss, þó freistingarnar ginni.

Þín,

Dagný.