Jóhann Bogi Guðmundsson fæddist í Reykjavík 4. desember 1941. Hann lést 5. júlí á Landspítalanum við Hringbraut, Reykjavík.Foreldrar Jóhanns Boga voru hjónin Guðný Bjarnadóttir húsfreyja, fædd í Stapadal, Arnarfirði, Vestur-Ísafjarðarsýslu 18. desember 1917, lést 23. júlí 1996, og Guðmundur Jóhannsson byggingameistari, fæddur á Snæfoksstöðum í Grímsnesi í Árnessýslu 30. ágúst 1914, lést í Reykjavík 13. des. 2006. Systur Jóhanns Boga voru Margrét skrifstm., f. 1939, maki Friðrik Ágúst Helgason, skrifstm. Gerður, myndlistarm., f. 1945, fyrri maki Kristmann Þór Einarsson húsgagnasmiður, síðari maki Þór Whitehead prófessor. Dröfn myndlistarm., f. 1947, lést 13. júní 2013. Fyrri maki Karl Haraldsson læknir, síðari maki Sigurður Skúlason leikari.

Jóhann Bogi ólst upp í Miðstræti í Reykjavík, gekk í Miðbæjarskólann og stundaði ýmis sumarstörf þ.ám. siglingar á farskipinu Kötlu. Árið 1957 hélt hann með fjölskyldu sinni til dvalar í Geraldton, Ontario-fylki í Kanada, þar sem hann hélt áfram gagnfræðanámi. Fjölskyldan sneri heim til Reykjavíkur 1962, en þá hóf Jóhann sjómennsku og síðar nám í bifvélavirkjun og lauk meistaraprófi í þeirri grein 1985. Hann rak um skeið bifvélaverkstæði í Mosfellsbæ, en sneri sér síðan að fiskveiðum á eigin báti og reri m.a. frá Vestfjörðum og Grindavík. Þá hóf hann nám í húsasmíði og lauk meistaraprófi 2001. Hann rak í nokkur ár verkstæði í Kópavogi undir nafninu Hugmyndasmiðjan, starfaði síðan sem verktaki og stundaði jafnframt sjóinn á eigin báti.

Útför Jóhanns Boga verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 17. júlí, og hefst athöfnin kl. 15.

Eitt sitt sinn sat ég við vinnu og varð þess var að einhver kom inn í vinnustofuna. Veitti því enga sérstaka athygli i fyrstu, taldi það vera einhvern samstarfsmann. Þá heyrði ég karlmannsrödd svolítið sérstaka. Rödd sem ég kannaðist ekkert við: Heyrðu, geturðu teiknað fyrir mig torfhús?. Í andránni sem leið, þegar  ég leit við til þess að sjá hver mælti, flaug í gegnum hugann frásögn Antoins Saint Exuperait í bókinni um Litla prinsinn þegar flugmaðurinn er að reyna gera við vélina sína eftir nauðlendingu í eyðimörkinni. Hann heyrir rödd segja: Gerðu svo vel, að teikna fyrir mig kind. Hann leit við og sá lítinn ljóshærðan dreng klæddan eins og prins.
Ég leit við.  Ekki var það ljóshærður prins, heldur þrekinn maður, dökkhærður  með tagl, sterkir andlitsdrættir, svartar miklar augabrýr, hrammar með bjúgstóra fingur. Svipur mannsins og fas var í senn mikilúðugt og vinsamlegt. Við tókum tal saman.

Hugmynd mannsins var að forsmíða og fjöldaframleiða torfhús. Hann kvaðst vera smiður og eiga létt með að smíða húsin og klæða þau með torfi. Hann sagði verkstæði sitt heita HUGMUNDASMIÐJAN. Þetta leist mér vel á. Þarna var maður sem hugsaði út fyrir kassann!  En svo fór hann allt í einu án þess að kveðja. Nokkrum dögum síðar varð ég var við manninn fyrir utan glugga vinnustofunnar, þar sem hann var að skipta um glerið í  sprunginni rúðu. Þarna var Jóhann Bogi Guðmundsson smiður, bifvélavirki og sjómaður mættur.
Þannig hófst 40 ára vinskapur okkar, sem ég vildi svo gjarnan að hefði verið lengri í báða enda. Ég kallaði hann Boga. Aðrir kölluðu hann Jóa eða Jóhann Boga. Kannski fór það eftir starfsgreinum.
Hann var ekki allra. Hann stuðaði suma. Aðrir töldu hann rugludall.
En við sem vorum svo lánsöm að þekkja hann vel höfum aldrei kynnst öðrum eins lífskúnstner.
Eins og áður sagði var hann lærður bifvélavirki, húsasmiður og stýrimaður. Alvanur í öllum þessum greinum. Hinsvegar verður ekki sagt um Boga að hann hafi haft fjarmálavit,  og það kom fyrir að hann fór halloka í viðskiptum. Hann gerði samt gott úr öllu og gerði óspart grín að sjálfum sér, þegar illa fór.
Það kom þó fyrir að hann gerði góðan díl, eins og þegar hann keypti síðasta bílinn sinn á bílapartasölu fyrir 20.000 kall. Hann var nefnilega með ekta leðursætum. Svo var Bogi svo heppinn að lenda í árekstri og vera ekki í órétti. Tryggingafélagið greiddi honum 100.000 í bætur. Ég gerði bara við beygluna og penslaði svo allan bílinn hvítan. Búinn að græða 80.000 á nýja bílnum.
Bogi var stál heiðarlegur, og vildi ekki skulda neinum neitt, þótt hið opinbera hafi stundum þurft að sýna biðlund. Hann var óhræddur við að beita lögfræðingum í hinum ýmsu málum og stundum fengu lögfræðingarnir sjálfir að finna fyrir tevatninu þegar hann beitti sér gegn þeim í fjölmiðlum. Ekki hikaði Bogi við að hringja í stjórnmálamenn, þegar honum fannst eitthvað óréttlæti í gangi. Þær eru ófáar greinarnar sem hafa birst eftir hann í dagblöðunum . Hinsvegar hafði hann afar persónulegan ritstíl!
Bogi var mikill veiðimaður og frábær skytta. Ein kúla í höfuðið nægði yfirleitt. Hann var gjarnan með riffilinn sinn í bílnum og það verður að viðurkennast  að veiðistaðirnir voru ekki alltaf hefðbundnir. Eitt sinn komum við hjónin heim og sáum plastpoka hangandi á hurðarhúninum. Þegar betur var að gáð var þar gæs. Þóttumst við vita að Bogi hefði litið við. Við buðum honum í gæsaveislu nokkru síðar.  Þá kom í ljós að hún hafði veiðst á óhefðbundnum stað og að hann hefði vel getað veitt fleiri, en eins og hann sagði sjálfur: þá er ein gæs í hendi betri en tvær í lögfræðing!

Veiðimennsku og skilning á náttúrunni kvaðst hann hafa lært hjá indíánum í Kanada, þegar hann dvaldi þar sem unglingur í nokkur ár með fjölskyldu sinni. Þar lærði hann ensku og eitthvað í frönsku. Hann sagði margar sögur frá dvöl sinni þar, sem lýstu nánum skilningi hans á náttúrunni og umhverfi sínu.
Eitt sinn eignaðist Bogi smá fé og ákvað að fara til Mexíkó. Má vera að ég hafi haft einhver áhrif á þá hugmynd. Hann hóf ferðina í New York. Þar keypti hann sér notaðan bil, sem bilaði a leiðinni út úr bílastæðinu.  Bogi lét það ekki á sig fá og lét gera við hann. Þannig var bifvélavirkinn sjálfur, svolítið seinheppinn! Hann sendi okkur póstkort og lét vel af dvölinni, enda sagðist hann gista a Hótel Lincoln í New York. Seinna kom í ljós að hann hafði farið inn í Harlem hverfið, þar sem fáum hvítum er vært. Hann gaf sig a tal við einn þeldökkan íbúa og spjallað við hann um heima og geima, eins og Boga er tamt. Það endaði með því, að maðurinn bauð honum gistingu í gamalli Lincoln bifreið sem hann átti. Þannig varð Bogi sér úti um ókeypis gistingu í stórborginni! Þetta var reyndar í ágústmánuði, því hefur náttstaðurinn verið allheitur. Ævintýrin sem hann lenti í á leið sinni um Kanada, Kaliforníu og Mexíkó voru mörg og skondin. En heim kom hann með sneisafullan bíl af gallabuxum og loðkraga úlpum. Hecho en Mexico.
Ég held að salan á varningnum hafi ekki gengið vel, enda fengum við, vinir hans, úlpurnar gefins!
Maður sat ekki í umræðum við Boga um flokkapólitík, heimspeki eða trúmál, Litlir prinsar leggja ekkert upp úr því. Sanngirni er þeirra mál.
Í dag kveðjum við góðan vin, hugmyndasmið, sem lífgaði upp á tilveruna og kenndi okkur að njóta stundarinnar, hvað sem á gengur.
Við vinir hans og vandamenn skulum ekki syrgja Boga, heldur gleðjast yfir lífi hans og halda áfram að segja Bogasögur.

Vífill Magnússon.

Þar til ég var átta ára bjó ég í risi fjögurra kynslóða húsi við Miðstræti 8a, á neðstu hæðinni amma grýla sem fékk viðurnefnið frá börnunum í götunni vegna hnúðótts stafs sem hún notaði. Börnin voru ávallt velkomin í pönnukökur eða föndur og þannig breytti hún hugmyndum þeirra um hina ógnandi grýlu. Bogi frændi var móðurbróðir minn.

Bogi frændi gerði sjaldnast boð á undan sér og þegar hann kom átti hann erindi. Hann kom alltaf með látum líkt og hvirfilbylur, stormaði inn með gjöf til heimilisins.  Þegar amerískur kaggi með briljantin-greiddum bílstjóra ók inn Miðstrætið, mátti búast við uppákomu í eldhúsinu hjá ömmu sem var meira spennandi en leikurinn í götunni. Þegar ég sá að kagganum var lagt í götunni, laumaði ég mér bakdyramegin inn í eldhús og faldi mig undir borði til að fylgjast með. Erindi Boga var oftast að færa ömmu  björg í bú, ef hann kom af sjónum mætti hann með fisk frá Alla frænda sínum í Laugarbóli, fór vestfirski maturinn eftir árstíðum. Oft fylgdi með fatapoki sem þurfti að þvo og laga. Fyrst voru mestu lætin voru í ömmu, því magnið var svo mikið. Bogi flúði inn á bað að þvo sér á meðan amma tók til mat.

Þegar Bogi var sestur við eldhúsborðið fékk amma fréttir. Frásagnastíll Boga var einfaldur og um leið flókinn. Hann kom kjarnanum á framfæri málalengingalaust, en tvinnaði saman fjölda frásagna og andskotaðist um leið yfir mönnum og málefnum. Inni í þessum frásagnarhvirfli laumaði hann inn hugmyndinni að næsta verkefni með milljónagróða. Þegar amma var búin að hella uppá, færðist logn yfir eldhúsið, þá fyrst laumaði ég mér undan borðinu og fékk mjólk og meðí.

Bogi hætti í bílaviðgerðum, þótti það niðurdrepandi að vera að gera við bíla sem enduðu í brotajárni og varahlutum. Fylgdi í fótspor afa og gerðist húsasmíðameistari, seldi bifvélaverkstæðið og elti stelpu norður sem átti þar kærasta. Hann fann Iðnskólann á Akureyri, fór á sjóinn og lauk trésmíðanámi í leiðinni með hæstu einkunn áður en hann kom aftur suður.

Sumarið sem ég var sextán kom hann og sótti mig í vinnu til sín í Hugmyndasmiðjuna. Ég kynntist logninu í auga hvirfilbylsins, þar fæddust hugmyndirnar, mótuðust og urðu framkvæmanlegar. Stormurinn í nærveru hans var bókhald, opinber gjöld og dráttur á greiðslum fyrir unnin verk, sem voru krydduð með misheiðarlegum lögmönnum sem hann þurfti að eiga við. Á milli verkefna unnum við að draumum hans um milljónirnar. Fyrsta sumarið voru það áttstrend garðhýsi, annað sumarið voru það fulningahurðir og það þriðja sumarbústaður með torfþaki, en þá tímamældi hann alla vélavinnu og reiknaði út gróða af listum sem fengust með afsagi. Verkstæðið varð skipulagi Kópavogsbæjar að bráð og þá tók næsti draumur við, eikarbáturinn Eva.

Til þess að gera Evu sjófæra þurfti hann að græða milljónir, berjast við bókhaldara, opinber gjöld og stjórnsýslu, lögfræðinga og jeppa sem borguðu honum ekki. Þegar Eva var orðin nokkuð sjófær og hann búinn að eiga erindi við mig með þorsk og saltfisk, sigldi togari á hana í höfninni og hún sökk. Bogi barðist lengi og árangurslaust fyrir því að fá hana bætta.

Eftir að amma dó fjölguði erindunum sem hann átti við okkur. Hann birtist með fisk, afrakstur berjaferða, fatapoka eða kvenskó nr. 41. Hann mætti með verkfæri, þegar honum fannst viðhaldi hússins vera ábótavant. Börnin hændust að Boga, þau kölluðu hann tröllið sitt og fannst þau heppnustu börn í heimi. Vinir þeirra kynntust aðeins tröllum úr þjóðsögum. Börnin mín kynntust karakternum sem gat verið fyrirmynd af tröllalýsingu og þau vissu að tröll með sterkt hjarta breytist ekki í stein.

Bogi kom til okkar á aðfangadag eftir matarboð hjá Möggu systur sinni. Þegar nær dró jólum birtist hann með smákökuuppskriftir eða að ostagerð og svo mætti hann ítrekað til að reka á eftir mér í eldhúsinu. Í leiðinni spurði hann út í jólagjafir til fjölskyldumeðlima og var laginn við að fá mig til að kjafta af mér. Eftir mat biðum við eftir honum og honum tókst oftast að stela jólunum með því að segja hvað var pökkunum.

Bogi hafði sterkt hjarta, hann þurfti þess til að fá að vera hann sjálfur. Það þarf styrk til að gefast ekki upp þegar umhverfið dæmir eftir útliti og hlustar ekki. Boga var meinilla við spítala, þegar við ókum framhjá Landspítalanum benti hann og sagði: Þetta er hættulegur staður, hér deyja margir. Allt frá því um mitt síðasta sumar fór hann margar ferðir upp á bráðamóttöku og var sendur heim aftur og aftur. Það var ekki fyrr en eftir áramót, þegar pabbi fór að fylgja honum að það var brugðist við og æxli á stærð við fullburða barn var fjarlægt í bráðaaðgerð. Hann náði sér aldrei, en hann fékk tækifæri til að kveðja fjölskyldu og vini.

Hann tók fréttunum af æðruleysi, veraldlega vafstrið skipti ekki máli lengur eða milljarðarnir sem átti að græða, hvirfilvindurinn var horfinn og lognið tók við. Í stað bóka las hann hugsanir sínar, í einni heimsókn sagði hann að í huganum eigi hann skemmtilegt líf og að hann hafi alltaf gert það sem hann þurfti til að vera sáttur. Nú á Bogi frændi erindi hjá ömmu og mömmu, þannig er það bara.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir.