Marta Kristín Ásgeirsdóttir fæddist á Akranesi 18. ágúst 1956. Hún lést á líknardeild Landsspítalans í Kópavogi 9. júlí 2015.Foreldrar hennar voru hjónin Ásgeir Kristinn Ásgeirsson, f. 6.5. 1931 í Reykjavík, d. 26.4. 2003, og Aðalbjörg Jóna Guðmundsdóttir, f. 4.5. 1933 á Akranesi. Systkini Mörtu Kristínar voru: Hafdís Fjóla, f. 30.7. 1957, Sólveig Jóna, f. 16.5. 1961, Ásgeir, f. 17.5. 1963, Guðmundur, f. 9.3. 1968 og Agnar, f.5.2. 1974.

Hinn 28. febrúar 1981 giftist Marta Kristín Gylfa Þórðarsyni, f. 5.12. 1944 á Akranesi, framkvæmdastjóra Sementsverksmiðju ríkisins. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Níels Egilsson, f. 14.9. 1916 á Snæfjallaströnd, d. 4.12. 1998, og Jóna Valdimarsdóttir, f. 21.4. 1919 á Akranesi, d. 20.12. 2009. Bróðir Gylfa er Guðni, f. 6.9. 1939.

Börn Mörtu Kristínar og Gylfa eru: 1) Ása Björg, f. 13.5. 1982, gift Garðari Axelssyni, f. 15.7. 1979. Synir þeirra eru Gylfi Kristinn, f. 9.8. 2005 og Arnar Már, f. 25.1. 2008. 2) Þórður Már, f. 7.9. 1985, sonur hans er Hjörtur Leó, f. 26.5. 2015. 3) Birkir Örn, f. 14.1. 1987, í sambúð með Margréti Magnúsdóttur, f. 12.7. 1989. Sonur þeirra er Bjarmi Rafn, f. 20.6. 2014. 4) Harpa Lind, f. 29.5. 1991, unnusti hennar er Jóhann Guðmundsson, f. 30.12. 1996.

Marta Kristín ólst upp Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Hún lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Akraness 1972 og var í Húsmæðraskólanum að Varmalandi 1972-1973. Hún var virkur þátttakandi í starfi KFUM&K; á Akranesi á unglingsárum og vann nokkur sumur í Ölveri, sumarbúðum fyrir börn. Marta vann nokkur ár í mötuneyti Sementsverksmiðjunnar og síðan 6 ár í bókaverslun Andrésar Níelssonar eða þar til hún fór af vinnumarkaði 1985. Árið 2000 hóf hún störf á Dvalarheimilinu Höfða og starfaði þar til æviloka. Marta lauk sjúkraliðanámi í maí 2015.

Marta var mjög virkur félagi í Lionsklúbbnum Eðnum um árabil. Þá var hún félagi í Oddfellowstúkunni Ásgerði síðustu árin. Frá því Marta Kristín greindist fyrst með krabbamein 2004 stundaði hún líkamsrækt af miklu kappi meðan heilsan leyfði, m.a. gekk hún reglulega á Akrafjall, jafnvel tvisvar á dag þegar svo bar við.

Útför Mörtu Kristínar fer fram frá Akraneskirkju í dag, föstudaginn 17. júlí 2015, kl. 14.

Það er erfitt að skilja að mamma er ekki lengur hér með okkur. Mér finnst ég ekki bara vera að missa elsku bestu mömmu mína heldur líka mína bestu vinkonu. Eftir langa og erfiða baráttu við krabbamein trúi ég því að hún sé á góðum stað núna. Hún sé laus við alla verki og líði vel. Hún sé umkringd fólkinu sem hún hefur elskað og misst og þar fremstur sé afi Ásgeir með útbreiddan faðminn. Við fjölskyldan eigum yndislegar minningar sem við geymum alla tíð í hjörtum okkar.

Mamma var einstök kona. Hún var bæði hlý og góð og hress og skemmtileg. Allir sem þekktu hana þekktu hláturinn hennar og það var gott að hlæja með henni. Hláturinn var einlægur, hávær og smitandi. En þú gast líka komið með öll þín vandamál til hennar og hún hlustaði.

Hún var einstaklega kraftmikil og drífandi. Hún hugsaði ekki lengi um hlutina heldur dreif í að framkvæma þá og var þá snögg að því. Hún var einnig mjög hjálpsöm og gerði oft hlutina án þess að fólk þyrfti að biðja um þá. Hún var mín stoð og stytta við að ala upp strákana okkar Garðars, þá Gylfa Kristinn sem er að verða tíu ára, og Arnar Már, sem er sjö ára. Hún og pabbi pössuðu mjög oft fyrir okkur og við vorum oft í mat hjá þeim. Mamma kunni vel við að hafa fjölskylduna hjá sér. Þó svo að við flyttum að heiman þá var maður alltaf heimkær í Jörundarholtinu og okkur leið aldrei eins og við værum í heimsókn hjá mömmu og pabba. Hún var einstaklega dugleg að hugsa um sína. Ekki bara um pabba, okkur systkinin og okkar fjölskyldur heldur hugsaði hún líka um mömmu sína, systkini sín og vini. Henni fannst gaman að bjóða stórfjölskyldunni og vinum heim. Hún hélt flottar veislur þar sem hún var hrókur alls fagnaðar. Ég leitaði alltaf til hennar þegar ég var að fara að halda veislu því mamma kunni þetta best.

Mamma var góður kokkur og flinkur bakari. Hún klippti út uppskriftir í blöðum og var dugleg að prófa eitthvað nýtt. Þegar við krakkarnir vorum yngri var hún dugleg að sauma og föndra. Ég furða mig oft á því hvað hún komst yfir margt þegar við vorum lítil. Við systkinin fjögur, oft var hún svo að passa fyrir systkinin sín og svo vorum við með vini heima að leika. Svo fékk hópurinn oft nýbakaða snúa í kaffinu. Alltaf var heimilið hreint þó það mætti sjá dót hér og þar. Hún var einstaklega góð húsmóðir. Mamma og pabbi gáfu okkur systkinum gott uppeldi og ég á ótal góðar minningar úr æsku.

Fjölskyldan okkar er mjög samrýnd og gerir margt saman og þannig vildi mamma hafa það. Það eru ófáar minningarnar úr ferðalögum bæði innanlands og utan. Minningar um líflegar umræður við matarborðið. Hún og Þórður Már sátu oftast hlið við hlið og svo var matseldin tekin út í hvert skipti. Það var gaman að fylgjast með þeim tala saman og njóta. Það eru ófáar mæðgnaferðirnar til Reykjavíkur þar sem við og amma og Harpa Lind og svo síðar Magga fórum í búðir, út að borða og í bíó og oft laumaði Birkir Örn sér með í restina á túrnum. Það mætti lengi telja um góðar minningar. Þegar maður er duglegur við að halda fjölskyldunni saman, eins og mamma var, þá skapast margar og góðar minningar. Það má með sanni segja að hún hafi lifað lífinu til fulls. Það eru þessar minningar sem sitja eftir.

Við mæðgur vorum mjög nánar, sáumst eða heyrðumst nánast daglega. Þau voru ófá skiptin sem ég hélt á símanum og var að fara að hringja þegar mamma hringdi í mig eða öfugt. Eftir að ég flutti að heiman og eignaðist svo eldri strákinn minn var ég mikið með hann á heimili mömmu og pabba. Hún var með okkar Garðari þegar strákarnir fæddust og hún grét af gleði þegar hún sá þá fyrst. Hún var góð amma og átti einstakt samband við strákana mína. Hún var dugleg að gera eitthvað skemmtilegt með þeim eins og að spila, fara í göngutúra og spjalla. Hún átti alltaf eitthvað gott fyrir þá og ef ekki þá skellti hún bara í pönnukökur eða Bettý súkkulaðiköku og sagði svo alltaf Bettý klikkar ekki. Mamma og pabbi voru dugleg að leyfa strákunum að gista hjá sér. Ekki bara þegar þeir voru í pössun heldur líka svona extra. Gylfi Kristinn kom oft með vaktavinnubókina hennar til hennar og spurði hvort hann mætti gista og þá var fundinn tími þar sem amma var ekki á kvöldvakt. Eða ef langt var síðan síðast þá kallaði mamma eftir því að fá þá yfir nótt. Þá var haft kósý og amma horfði með þeim á mynd og það var spilað. Á háttatíma skreið amma upp í til þeirra og las bók og sagði svo bænir og um nóttina skreið Arnar Már oft upp í ömmu rúm. Þetta þótti Gylfa Kristni og Arnari Má afskaplega notalegt. Mamma gerði allt svo skemmtilegt og hugsaði út í smáatriðin. Þegar hún gaf strákunum gjafir var oft einn aukapakki sem var pakkaður inn með slaufu og sleikjó til skrauts og inn í honum leyndist kannski Cocoa puffs pakki sem þeim þykir svo gott. Hún bauð Gylfa Kristni og Arnari Má líka stundum í göngutúr þegar það var komið myrkur og þau höfðu með sér vasaljós. Mamma hrindi oft í mig og spurði hvenær strákarnir kæmu daginn eftir. Ég þurfti ekki að biðja um pössun. Hún hringdi stundum bara til að spjalla við Arnar Má. Þú fífluðust hvort í öðru og spjölluðu um heima og geima. Gylfi Kristinn fór stundum í ferðalög með ömmu sinni og afa og voru þau búin að ákveða að fara upp á Akrafjall í sumar, ég fer með honum í staðinn. Mamma var besta amma sem hægt er að hugsa sér. Strákarnir eiga eftir að sakna hennar mikið og það er skrítið að hafa hana ekki hjá okkur.

Mamma var meiriháttar tengdamamma. Garðar maðurinn minn á það til að borða ekki hvað sem er svo oftar en ekki var mamma með tvírétta svo hann fengi nú eitthvað gott. Það hafa líka verið heitar umræður þegar mamma var tilbúin að skipta yfir í súkkulaðifrómas á jólunum svo Garðar gæti fengið möndluna. Þau áttu gott samband og voru góðir vinir. Ég var svo heppin að tengdaforeldrar mínir voru svo oft með okkar líka. Þau komu til dæmis með í dagsferðir sem farnar voru á sumrin og í kaffið þegar búið var að höggva jólatréð. Mamma tók þau bara með inn í fjölskylduna.

Presturinn spurði okkur hvernig best hefði verið að gleðja hana og ég hef hugsað mikið um þetta. Mitt svar er að hún gladdist mest þegar hún gladdi aðra. Það var gaman að gefa henni pakka og blóm en það var enn skemmtilegra að sjá þegar hún var að plana eitthvað. Við fengum aldrei að vita hvað væri í pökkunum sem hinir áttu að fá um jólin eða á afmælum. Henni fannst gaman að leynipúkast og koma fólki á óvart. Ég man líka eftir henni baka smákökur fyrir vinkonur sem höfðu eignast börn fyrir jólin. Þá kom hún færandi hendi. Sumt fannst henni líka bara eðlilegt það sem aðrir mundu segja að sé hjálpsemi. Eins og að þrífa hjá ömmu fyrir jólin og þegar amma Marta var á lífi bakaði mamma heil ósköp fyrir hana, meira en hún bakaði fyrir sitt heimili og ekki má gleyma öllum þeim skiptum sem hún hefur passað fyrir mig. Svona kona er ómetanleg.

Í okkar fjölskyldu eru margar hefðir og var mamma svo stór hluti af þeim öllum. Það er t.d. alltaf farið og höggvið jólatré og farið svo í Jörundarholtið í heitt súkkulaði, heimabakað brauð og smákökur. Við gerðum líka alltaf laufabrauð saman og við mæðgur bökuðum alltaf saman fyrir jólin. Við fórum líka alltaf saman á haustin í berjamó. Það á eftir að vera skrítið að hafa hana ekki, hún bara tilheyrir svo mörgu þó maður sé fullorðinn.

Í öllum sínum veikindum bar mamma sig ótrúlega vel. Hún gafst aldrei upp og missti aldrei vonina. Það er þvílíkt ofurmenni sem þarf í það og er ég rosalega stolt af henni. Það var augljóst hversu gott og ástríkt hjónaband mömmu og pabba var. Þau voru ólík en áttu mjög vel saman. Í veikindum mömmu stóð pabbi eins og klettur við hlið hennar og okkar allra. Þau voru samrýnd, ferðuðust mikið saman bæði innanlands og utan. Þau áttu góða sameiginlega vini sem þeim fannst gaman að hitta og fjölskyldan var í fyrsta sæti hjá þeim báðum. Ég mun passa upp á pabba og að halda fjölskyldunni saman.

Elsku besta mamma mín, það er svo sárt að þurfa að kveðja þig. Ég á eftir að sakna þín svo mikið. Betri mömmu hefði ég ekki getað átt. Guð geymi þig elsku mamma.

Þín dóttir,

Ása Björg Gylfadóttir.