Stóðu tvö í skógi Hjörleifur og Rán ásamt hundi sem enginn veit hvaðan kom eða úr hvaða heimi skaust.
Stóðu tvö í skógi Hjörleifur og Rán ásamt hundi sem enginn veit hvaðan kom eða úr hvaða heimi skaust. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég bjóst alls ekki við að hreppa þessi verðlaun,“ segir rithöfundurinn og teiknarinn Rán Flygenring sem hlaut á dögunum barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir myndabók sína Eldgos

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég bjóst alls ekki við að hreppa þessi verðlaun,“ segir rithöfundurinn og teiknarinn Rán Flygenring sem hlaut á dögunum barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir myndabók sína Eldgos. „Margar myndasögubækurnar sem voru tilnefndar eru rosalega meitlaðar og vel unnar. Höfundur bókarinnar sem ég hafði spáð sigri hefur mikið vald á teikningu og frásagnarstíl, en þegar ég opnaði mína bók þá kom mér í hug spurningin: Ætlar enginn að halda aftur af þessari konu? sem sagt mér,“ segir Rán og hlær. „Mér fannst allt vera úti um allt, að bókin mín væri of villt og brjáluð og ég hélt að hún ætti ekki séns í þessi verðlaun.“

Rán segir að verðlaunin gætu opnað fyrir aðgang að bókmenntahátíðum, að henni verði vonandi boðið á fleiri slíkar í útlöndum. „Sem er frábært, að fá að hitta alla hina sem eru að gera það sama og ég, alls konar furðufugla,“ segir Rán og hlær. Hún segist ekki finna fyrir pressu, að hún þurfi hér eftir að standa undir ofurmiklum væntingum. „Ég veit nógu vel hvað mig langar að gera til að verðlaunin rugli ekkert með það. Að fá þessi verðlaun gerir það að verkum að ég trúi enn frekar á það sem mig langar til að halda áfram að gera. Þó það sé villt og brjálað, þá á það erindi, og ég þarf ekki endilega að verða eins og hinir. Ég þarf ekki að efast um að það sem ég geri sé nógu gott, ég þarf ekki að hafa sjúklegt vald á einhverri ákveðinni tækni til að vera marktæk og góð í því sem ég geri. Ég má vera villt og grótesk, það er líka pláss fyrir það.“

Um sálarlíf fólks á Íslandi

Nýlega kom út bók Ránar og Hjörleifs Hjartarsonar, Álfar, en hún er sú þriðja í röð bóka þar sem þau taka fyrir afmarkað fyrirbæri með sínum hætti, fugla, hesta og nú álfa.

„Í öllum bókunum sem við Rán höfum unnið saman erum við að fjalla um fyrirbæri í náttúru og menningu Íslands. Þetta eru ólíkar bækur að mörgu leyti, en þær eiga það sameiginlegt að að baki þeim liggur gríðarlega mikill sagnasjóður sem við leitum í. Álfar eru heill kafli í þjóðsagnaarfinum og af nægu að taka,“ segir Hjörleifur og Rán bætir við að þau hafi viljað að í bókinni væri bland af þekktum og minna þekktum sögum af álfum og huldufólki.

„Við slípuðum þetta til í sameiningu en við skiptum bókinni í kafla, eftir eðli álfa, sumir eru góðir og göfuglyndir en aðrir heiftræknir háskagripir, svo eru umskiptingar, ástir og afbrýði, jól og áramót og álfar í nútíð. Við vildum lýsa þessum ólíku samskiptum.“ Hjörleifur segir að eftir því sem lengra hafi liðið á ferlið í vinnu þeirra við gerð bókarinnar, hafi opnast fyrir þeim hversu álfa- og huldufólkssögur segi mikið um okkur sjálf.

„Þær segja okkar mikið um innra líf þessarar þjóðar í öll þessi ár. Myndirnar undirstrika að við erum alltaf að spegla okkur í álfum, þeir segja okkur svo mikið um sálarlíf fólks á Íslandi.“

Rán fannst mjög merkilegt að komast að því hversu margir munir frá álfum séu til hér á landi. „Ég vissi aðeins um einn einasta álfakonudúk. Ég hafði líka haldið að álfar og sögur af þeim væru um samband okkar við náttúruna, en þeir eru fyrst og fremst um drauma okkar, þrár og ástaróra, um veröld sem við aldrei fáum, ekki ólíkt því sem Kardashian-fjölskyldan stendur fyrir í dag, búandi í villum í flottum fötum og svífandi um í elegans, en líka með klær. Álfar standa einnig fyrir svo margt sem má ekki segja, allt sem er á gráu svæði, ekki hægt að útskýra og má ekki vera, allt sem er tabú eða óþægilegt og best að hafa undir rós. Þá verður spurningin: Trúir þú á álfa eða ekki? svo fáránleg og ekki rétta leiðin til að spyrja. Þetta snýst ekkert um að trúa á.“

Hjörleifur minnir á að í álfasögum sé ekki sá kynjahalli sem víða er í þjóðsögum, þar sé engri eitraðri karlmennsku fyrir að fara.

„Í álfasögum er víða kvenlægur vinkill, eða sjónarhorn sem segir mikið um stöðu kvenna, til dæmis varðandi barneignir utan hjónabands eða að fá að giftast þeim sem þær vilja giftast. Ein saga sem heitir Kötludraumur er um konu sem eignast barn utan hjónabands, en hún útskýrir það með löngum draumi þar sem hún var numin brott af álfum, hún lendir í raun í mansali og álfur barnar hana.“ Rán bætir við að enginn viti hvað býr að baki slíkum álfasögum, eru það draumar og þrár, eða eitthvert tráma og eftir á útskýringar? Við veltum mikið fyrir okkur hvað býr að baki þessum sögum, því þær eru afar margslungnar.“

Við erum hér í umboði vætta

Rán og Hjörleifur endursegja álfasögurnar með sínum hætti, orðum, teikningum og ekki síst húmor. „Hjörleifur endursegir á svo skemmtilegan hátt og þetta er fyrst og fremst fjölskyldubók sem geymir sögur fyrir fólk á öllum aldri. Þó bókin sé vissulega um sálarlíf þjóðar þá geymir hún líka spennusögur um brottnám, glæpi og æsing. Þetta eru spennandi, fyndnar og svakalegar sögur,“ segir Rán en myndir hennar gera bókina ekki síður fýsilega fyrir fólk á öllum aldri. Ekki er allt sem sýnist þegar kemur að myndum Ránar í bókinni, margt er þar hulið sem þó kemur í ljós með ljósi.

„Það var gríðarleg áskorun að teikna álfa, en mér fannst rosalega gaman að vinna teikningar út frá því hvað lesandi sér og hvað ekki. Þetta er ólíkt öllum öðrum verkefnum sem ég hef tekist á við, heilmikið flækjustig. Eitt lagið er sagan og endursögnin, síðan er að vinna mynd sem getur sagt eitthvað þegar lesandi sér hana, en svo bætist aukalag þar ofan á, ekki aðeins mögulegir álfar á síðum bókarinnar, heldur hvert samtal þeirra er við raunveruleikann. Þetta verður þrefalt flækjustig í vinnslu en líka þreföld skemmtun fyrir þá sem lesa og skoða bókina,“ segir Rán og bætir kankvís við að hún hafi unnið myndirnar með álfableki, eða huldubleki.

Þegar þau Rán og Hjörleifur eru spurð að því hvort það skipti máli að álfar og huldufólkssögur lifi, m.a. með bókinni þeirra, er svarið já. „Mér finnst við mannfólkið vera með áherslu á vísindalegan skilning og útreikninga á því hvernig við horfum á allt í heiminum, og þá er gaman að fara inn í álfasögur þar sem alls konar má vera til og sumt sést og annað ekki. Að vera til er eitthvað meira en útreikningar, við erum annað og meira en sentimetrar og grömm,“ segir Rán og Hjörleifur bætir við að eitt af því sem honum finnist fallegt í álfasögum sé að þær minna okkur mannfólkið á að við erum ekki drottnarar alheimsins. „Afstaða álfanna er sú að við mannfólkið eigum ekki fyrsta rétt í þessu landi, við erum hér í umboði vætta sem segja af eða á. Það veitir ekki af að minna okkur mannfólkið á þau gildi gagnvart náttúrunni sem álfar hafa í hávegum, þar krefjast þeir auðmýktar og virðingar.“

Rán fannst magnað við að vinna bókina að þá opnuðust allir fálmarar og hún komst að því að allir luma á „sannri“ álfasögu úr sínu lífi eða sinna nánustu. Rán og Hjörleifur taka fram að mjög frjálslega sé farið með staðreyndir í nýju bókinni þeirra og þar sé mörgum spurningum ósvarað.

„Eitt er þó á hreinu, álfar hafa mjög háan standar og þeir sætta sig ekki við mennskan gassagang. Hjá þeim eru engar málamiðlanir. Í álfheimum má samt vera smá klikk og kyngervi eru mjög opin, þar er pláss fyrir alls konar tilfinningar.“