Sigurður Sigurjónsson fæddist að Núpakoti undir Austur-Eyjafjöllum 27. október 1947. Hann lést af slysförum 12. október 2023.

Hann var sonur hjónanna Sigurjóns Þorvaldssonar, f. 11.10. 1891, d. 26.6. 1959, og Guðlaugar Guðjónsdóttur, f. 25.3. 1909, d. 1.6. 1982. Sigurður var yngstur sex systkina. Elstur var Þorvaldur, f. 1.10. 1929, d. 22.2. 2007. Kona hans var Magga Alda Árnadóttir, f. 21.4. 1936, d. 1.3. 2004. Næst var Vilborg, f. 8.11. 1930, d. 4.11. 2010. Eiginmaður hennar var Páll Magnússon, f. 27.11. 1922, d. 8.3. 1998. Þá komu tvíburarnir Björn og Guðjón, f. 9.9. 1931. Björn lést 9.7. 1976 en Guðjón 18.8. 2017. Eiginkona Guðjóns var Ásta Díana Stefánsdóttir, f. 24.3. 1930, d. 14.9. 2020. Næst yngstur er Karl, f. 11.9. 1936. Eiginkona hans er Anna María Tómasdóttir, f. 24.5. 1939.

Sigurður kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Elínborgu Þorsteinsdóttur, f. 10.8. 1949, frá Görðum í Mýrdal þann 29. desember 1968. Það sama ár hófu þau búskap að Ytri-Skógum í félagsbúi við Ingimund Guðberg Vilhjálmsson og Margréti Helgu Jónsdóttur og hefur sá búskapur gengið allar götur síðan.

Sigurður og Kristín Elínborg eiga fimm börn. a) Heiða, f. 11.11. 1969. Eiginmaður hennar er Vignir Þorsteinsson, f. 9.10. 1973. aa) Hlynur Guðmundsson, f. 7.12. 1988. Unnusta hans er Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir, f. 16.4. 1993. Eiga þau einn son, aaa) Unnsteinn Heiðar, f. 4.5. 2019. Faðir Hlyns er Guðmundur Jónsson. ab) Þorsteinn Birkir, f. 17.10. 1999. Unnusta hans er Thelma Mulamuhic Alensdóttir, f. 20.12. 2002.  ac) Hildur Ösp, f. 4.6. 2003. b) Sigurjón, f. 8.1. 1971. Eiginkona hans er Sigrún Bjarnadóttir, f. 6.1. 1985. Barn þeirra er  Sölvi, f. 8.11. 2014, en fyrir átti Sigrún Freydísi Ernu, f. 25.7. 2012. Sigurjón á þrjú börn með fyrri konu sinni, Sigríði Lóu Gissurardóttur, f. 23.12. 1971. ba) Heiðar Þór, f. 4.4. 1995. Unnusta hans er Þórdís Ingunn Björnsdóttir, f. 26.6. 1997. Sonur þeirra er Gissur Freyr, f. 23.4. 2021, bb) Kristín Lilja, f. 21.7. 1997. Unnusti hennar er Sveinn Orri Einarsson, f. 15.2. 1996. Dóttir þeirra er Dagbjört Ísafold f. 5.9. 2021, bc) Sunna Lind, f. 8.3. 2003. c) Guðlaug, f. 4.1. 1973. Eiginmaður hennar er Árni Sæmundsson, f. 14.8. 1970. ca) Elínborg, f. 9.9. 2000. Unnusti hennar er Jón Gylfi Jónsson, f. 24.2. 2000. cb) Sæmundur, f. 12.9. 2003. cc) Arnór Veigar, f. 1.2. 2006. cd) Klemenz, f. 10.9. 2008. d) Birna, f. 1.3. 1977. Eiginmaður hennar er Pétur Halldórsson, f. 21.10. 1974. da) Sigurður Anton, f. 9.6. 1999, db) Agnes Hlín, f. 31.10. 2000. Maður hennar er Kristþór Hróarsson, f. 26.7. 1995. Börn þeirra eru Heiðdís Birna, f. 13.1. 2022 og drengur, f. 15.9. 2023, dc) Védís Edda, f. 17.6. 2005, d. 20.9. 2007, dd) Úlfhildur Vaka, f. 18.9. 2010. e) Berglind Sigurðardóttir, f. 21.8. 1984. Eiginmaður hennar er Aron Örn Þórarinsson, f. 30.4. 1984. ea) Eva Antonía, f. 6.11. 2009, eb) Rakel Birta, f. 3.1. 2013, ec) Sara Mekkín, f. 11.4. 2017.

Útför Sigurðar fer fram frá Eyvindarhólakirkju í dag, 4. nóvember 2023, klukkan 14.

Þetta eru undarleg tímamót að kveðja þig pabbi minn í hinsta sinn, ég var á engan hátt undir það búin en svona er víst lífið; lífið er það sem gerist þegar þú ert upptekinn við að gera önnur plön! Að kveðja fastan punkt í tilverunni, punkt sem hefur verið mér og okkur svo mikilvægur þú hefur alltaf verið til og alltaf verið til staðar. Þú hefur verið kletturinn sem ávallt var jarðtengdur og hélst ró þinni og yfirvegun í gegnum ótrúlegustu raunir þú hefur oft verið haldreipi okkar hinna.

Það er sárt að sakna og því svo þungt að setjast niður til að koma nokkrum hugsunum á blað. Hugsunum sem þyrlast eins og stormur í kollinum á mér. Fyrst og fremst er það svo ótalmargt sem ég sakna. Ég sakna þess að sitja með þér við eldhúsborðið og ræða komandi smalanir á meðan við hendum á milli okkar góðlátlegu gríni í garð hvors annars. Ég sakna þess að sitja með þér og fara yfir það hvað vantar úr heiðinni og hvar sé helst að leita að þeim skjátum. Ég sakna þess að heyra brakið í eldhússtólnum í hvert skipti sem þú teygir þig fram til að pumpa kaffinu í plastdallinn sem þú drakkst gjarnan úr og heyra þig tauta jæja í hvert skipti og jafnframt taka það fram að þessi leti dugi ekki. Fyrst og síðast sakna ég þín úr fjárhúsinu, það er tómlegt að vera þar án þín.

Ég veit að ég á eftir að upplifa óteljandi tómlegar stundir þar sem þín mun ekki njóta við. Ég mun aldrei aftur keppast við þig um að finna þrílembur á sauðburði, ég mun ekki aftur upplifa eftirvæntinguna sem brýst fram þegar ég sé þig fara í appelsínugula stakkinn sem er klár merki um fjárleitir. Ég mun aldrei aftur rúnta með þér um túnin á vorin að gá til kinda. Og sennilega er heimasíminn minn þagnaður, en þú varst líklega sá eini sem hringdir í hann.

Ég hins vegar á líka óteljandi minningar um samverustundir sem einn daginn munu ylja mér þó þær séu mér of sárar í bili. Ég var farin að segja ömmustelpunni minni sögur úr sveitinni og sú vinsælast er af ykkur Munda draga kálfinn upp úr haughúsinu. Hún verður sögð að nýju ásamt fleiri sögum af þér í sveitinni þar sem þú undir þér alltaf best. Þú talaðir um að það væru ákveðin forréttindi að starfa við það sem jafnframt var áhugamál þitt og þú upplifðir vinnuna aldrei sem kvöð. Það voru óteljandi verkefni sem þurfti að leysa og þú gekkst alltaf í þau óhikað. Þú hafðir allt sem þú þurftir og það sem þig dreymdi um var einfaldlega á torfunni heima. Þarna voruð þið mamma ótrúlega samstíga.

Ég man þegar þú reiddir mig fyrir framan þig á honum Gamla-Blesa í gegnum og upp úr Víkinni í Sindraferð þegar ég var smá ormur og ég brosti hringinn alla leiðina þar sem ég hossaðist fyrir framan hnakknefið hjá þér. Ég man líka þegar þú beislaðir gjarnan Glampa gamla fyrir þig og hann Tvist gamla fyrir mig og síðan teymdi þú undir mér er við héldum í reiðtúr eftir gjafir á daginn.

Ég minnist smalamennsku og eftirleita sem ég fékk að fylgja þér í sem og margra notalegra stunda í fjárhúsinu þar sem þú reyndir að útskýra fyrir mér ættir og gerð. Hreint ómetanlegt enda eiginlega enginn annar sem ég þekki sem hugsar eins og kind, nema það væru þá Sifi og nafni þinn hann Siggi Toni. Þú þekktir alltaf allar skepnur með nafni og ætt og vissir meira að segja hvar þær héldu til á sumrin, og því vissir þú hvar ætti að leita að þeim þegar þær vantaði af fjalli. Eitt sinn fyrir mörgum árum sá ég þig hverfa upp á brún fyrir ofan bæinn þegar ég kom labbandi heim úr skólanum. Ég hentist inn með töskuna, skipti um föt og náði þér við Steinbogann. Við röltum okkur síðan upp með Skógaánni vestanmegin því þú vildir meðal annars kíkja í Króksveltið. Ekki fundum við kindur í þessari ferð en yfir ána óðstu rétt fyrir ofan Króksfoss með mig á bakinu, logandi smeika. Þú ætlaðir reyndar að endurtaka þann leik nú 30 árum síðar í september þegar við vorum að smala heiðina og bauðst til að bera mig yfir Laufatunguána þar sem ég væri í skóm en þú auðvitað í stígvélum eins og þú smalaðir alltaf í. Ég man að ég hló og spurði þig hvort það væri ekki í lagi með þig! Ég bætti ekki við að ég væri sennilega vel yfir þinni þyngd og óvíst að þetta færi vel, þess í stað óð ég hið snarasta yfir áður en þér gæfist færi á að rökræða þetta frekar.

Þakklát minnist ég þess hvernig þú gafst þér tíma til að hafa krakkana mína með þér í öllum verkum og hve dásamlegt það var hvernig þú studdir lítinn áhugasaman pjakk til að stíga sín fyrstu skref í fjárrækt. Siggi Toni var ekki hár í loftinu þegar hann fékk að ráða vali á hrútum og hafði eitthvað að segja um ásetning. Þetta gerðir þú allt, þó þú vissir stundum ef til vill betur, til að styðja við þetta brennandi áhugamál snáðans sem þið deilduð alla tíð. Þú hefur líka alltaf fylgst stoltur með öllum afabörnunum, þessum stóra hópi ykkar mömmu og sýndir áhugamálum þeirra og viðfangsefnum alltaf áhuga.

Ég hlakka til þess tíma þegar allar þessar minningar sem ég á um þig hætta að verða sárar og ég get farið að ylja mér við þær.

Og þar sem ég sit núna, velti mér upp úr minningum og kem þeim á blað með tárvotar kinnar, slitnar strengur í gítarnum við hlið mér svo ég hoppa upp úr sætinu. Ég get ekki annað en hlegið, þar er ég viss um að þú varst á ferðinni að hrekkja mig allavega einu sinni enn.

Þú vildir aldrei skulda neinum neitt og heiðarleika þinn væri öllum sæmd af að eiga. Mér er alltaf minnisstætt þegar þú fórst á landsmót hestamanna með okkur systkinin og varst spurður um aldur okkar , þegar þú varst að borga, og þú varst kannski ekki sérlega góður í að muna alltaf hvað við vorum orðin gömul. Mig sagðir þú yngri en ég var og þá slapp ég inn frítt. En þegar þú keyrðir í burtu sprungum við systkinin úr hlátri því þú hefðir svindlað mér inn. Þú negldir niður og bakkaðir að rukkaranum aftur til að borga fyrir mig! Þú ætlaðir ekki að hafa það á samviskunni að hafa haft rangt við rétt skal ávallt vera rétt! Og allir voru jafnir í þínum huga, fullorðnir og börn, séra Jón og Jón. Þú gast verið óendanlega þver en þú varst alltaf réttsýnn og heiðarlegur og eins og Sifi orðaði það; þú ætlaðist til þess sama af öðrum.

Elsku pabbi minn það er mál að kveðja að sinni. Ég veit að litla stelpan mín nýtur nú návistar þinnar og ég hugga mig við það. Þú ert og verður órjúfanlegur partur af okkur öllum og ert í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur ég vona að í mér og okkur öllum búi stór hluti af þér. Fyrir þig er ég endalaust þakklát.

Við sjáumst aftur.

Þín Birna

Birna Sigurðardóttir