Hjördís Halldóra Benónýsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september 1934. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu, Hraunvangi í Hafnarfirði, 29. nóvember 2023. Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Foreldar hennar voru hjónin Benóný Benónýsson, kaupmaður á Ísafirði og síðar í Reykjavík, f. 29. maí 1870, d. 23. ágúst 1943, og Halldóra Jakobsdóttir kaupkona, f. 30. ágúst 1902, d. 13. janúar 1985. Benóný var tvíkvæntur. Alsystir Hjördísar var Ólöf Helga, f. 13. apríl 1928, d. 21. maí 2013. Samfeðra systkini Hjördísar af fyrra hjónabandi Benónýs voru Guðný, f. 1893, d. 1896, Sigríður, f. 1894, d. 1952, Fanný, f. 1895, d. 1896, Guðný Fanný, f. 1896, d. 1975, Hjördís, f. 1899, d. 1899, Halldór, f. 1900, d. 1902, og Haraldur, f. 1904, d. 1904.

Hjördís giftist 20. maí 1961 Herði Lorange sjómanni, f. 8. febrúar 1936. Foreldrar Harðar voru Sigríður Steingrímsdóttir og Kai Emil Lorange. Fyrir átti Hjördís soninn Halldór Benóný skipherra, f. 14.2. 1956, með William F. Nellett, d. 2002. Maki Halldórs Benónýs er Hafdís Hrönn Garðarsdóttir, f. 6.8. 1961. Börn þeirra eru Halldóra, f. 5.2. 1986, Sandra, f. 12.12. 1987, Dagný, f. 17.11. 1989, og Garðar, f. 13.8. 1992. Börn þeirra Hjördísar og Harðar eru: 1) Sigríður sjúkraliði, f. 15.7. 1961, sambýlismaður Hlöðver Gunnarsson, 25.8. 1956. Börn Sigríðar eru Hjördís Halldóra, f. 28.8. 1981, og Guðmundur Þórir, f. 14.4. 1988. 2) Haraldur bæjarstarfsmaður, f. 9.8. 1962, hann giftist Guðnýju Úllu Ingólfsdóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Guðný Helga, f. 13.7. 1988, Kolbrún Edda, f. 25.4. 1990, og Haraldur Jóhann, f. 14.5. 1993. 3) Jón Baldur sérfræðingur, f. 26.4. 1964, maki Steinunn Georgsdóttir, f. 18.1. 1956. Dóttir hennar er Ásta, f. 12.5. 1980. Börn Jóns Baldurs og Steinunnar eru Hjördís Lilja, f. 7.8. 1989, og Jón, f. 6.5. 1991.

Hjördís Halldóra vann mestalla starfsævi hjá Pósti og síma í Landssímahúsinu við Austurvöll. Hún var virk í kvenfélagi kaþólsku kirkjunnar.

Að ósk Hjördísar Halldóru hefur útför hennar farið fram í kyrrþey.

Hinn 29. nóvember sl. andaðist elskuleg móðir okkar eftir erfið veikindi, sem hún tókst á við með ótrúlegri þrautseigju og seiglu. Þessi kveðjustund er okkur ákaflega erfið en við yljum okkur við fallegar minningar. Það er einkennileg tilfinning að geta ekki lengur heimsótt hana í Hafnarfjörðinn, en þar hafa foreldrar okkar búið í meira en þrjá áratugi. Símtölin frá henni verða ekki fleiri þar sem hún spurði yfirleitt fyrst um hvort eitthvað væri að frétta og síðan var tekið upp létt spjall um lífið og tilveruna, barnabörnin og barnabarnabörnin. Móðir okkar var einstök kona, sterkur persónuleiki og glæsileg kona, sagði kannski ekki margt í fjölmenni en var staðföst og ákveðin þegar því var að skipta. Móðir okkar tók verslunarskólapróf frá Verslunarskóla Íslands, og það nám nýttist henni vel á lífsbrautinni. Hún minntist gönguferða í Verslunarskólann frá Bjarkargötu yfir Tjarnarbrúna á ísköldum vetrardögum. Hún vann mestalla starfsævi sem fulltrúi hjá Pósti og síma í Landsímahúsinu við Austurvöll. Hún var einstaklega vel liðin af samstarfsfólki sínu, samviskusöm, lausnamiðuð og með frábæra þjónustulund.

Móðir okkar hafði ákaflega fallega rithönd og var mjög tölvufær í vinnu sinni hjá Landsímanum og eftir að hún fór á eftirlaun. Hún var mjög virk í samskiptum á Fésbókinni, fylgdist mjög vel með fjölskyldumeðlimum og bar hag þeirra fyrir brjósti.

Móðir okkar var síðasta barnabarn Benónýs Hinrikssonar á lífi, hins hálffranska langafa okkar, en hann fæddist árið 1819 á Slýjum í Meðallandi. Frá honum er kominn stór ættbogi, yfir þrjú þúsund afkomendur. Faðir hans, Louis Henri, stundaði sjósókn við Íslandsstrendur á fiskiskútunni Morgunroðanum frá Dunkirk í Frakklandi, sem strandaði í óveðri á Meðallandsfjöru. Benóný, faðir móður okkar, hélt ávallt miklum tengslum við frændfólk sitt undir Eyjafjöllum en Benóný langafi okkar bjó í þeirri sveit. Við eigum ættir að rekja þangað, sem við systkinin nutum þegar við vorum send í sveit hjá ættingjum okkar á Núpi, Skarðshlíð og Eystri-Skógum.

Þegar móðir okkar fæddist var heimskreppan nýskollin á og faðir hennar rak verslun í Reykjavík. Faðir hennar féll frá þegar hún var aðeins átta ára gömul árið 1943 á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Allt mótaði þetta líf móður okkar eins og gefur að skilja. Móðir okkar fór í sveit að Syðri-Hömrum og Áshól í Rangárvallasýslu hjá Ellu frænku, eins og hún kallaði hana, yndislegri konu sem var barnslaus. Hún talaði oft um þessa tíma það og átti góðar minningar úr sveitinni, af hestinum Stormi og tíkinni Buslu. Þegar Ella fluttist til Reykjavíkur þá minnumst við heimsókna til hennar þar sem veitingar voru góðar eftir sundferð í Laugardalslaugina en hún var búsett þar rétt hjá í Laugarneshverfinu.

Í móðurætt á móðir okkar ættir að rekja til Hraunsholts í Garðabæ og í Skagafjörð.

Foreldrar okkar voru miklir félagar og samtaka í því sem þau tóku sér fyrir hendur.

Móðir okkar var mikið fyrir hannyrðir og komum við systkinin varla í heimsókn hin síðari ár öðruvísi en hún væri að prjóna eitthvað á barnabörnin eða að sauma út. Við systkinin eigum öll á heimilum okkar fallegt handverk sem hún gaf fjölskyldumeðlimum við ýmis tækifæri og bera fagurt vitni um fallegt handbragð hennar. Móður okkar fannst gott að njóta sólar og ófáar voru ferðirnar að Krummakletti í Borgarfirði til Sigríðar, tengdamóður hennar, í sumarsæluna. Þá naut hún þess að fara á Spánarstrendur en síðasta utanlandsferð var pílagrímsferð til Lourdes í Frakklandi á vegum kaþólska safnaðarins, sem hana hafði lengi dreymt um að fara. Móðir okkar tók upp kaþólska trú ung að aldri, en hún fór í barnaskóla í Landakotsskóla, sem þá var rekinn af kaþólsku kirkjunni. Hún var trúrækin og flesta sunnudaga fór hún til messu, fyrst í Landakotskirkju en eftir að hún flutti í Hafnarfjörð í St. Jósefskirkju í Hafnarfirði. Samband hennar við Karmelsysturnar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði var náið og sótti hún styrk og stoð til þeirra. Hún gerðist stuðningsmóðir systur Agnesar þegar hún kom hingað til lands frá Póllandi og var samband hennar við hana kærleiksríkt. Við systkini hennar munum leggja okkur fram um að rækta þessa góðu vináttu í minningu móður okkar.

Móðir okkar dvaldi á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hraunvangi í Hafnarfriði síðustu tvö árin vegna erfiðra veikinda og þökkum við starfsfólki gott viðmót og þjónustu.

Nú er dagurinn dimmur,
Drottinn það skilur,
því dauðinn er grimmur
og djúpur hans hylur.

En þú gafst henni loforð
um líkn og frið.
Svo hún lagði aftur augun
og heyrði englanna klið.

Þó við gætum ei þig misst,
þá er minning þín björt
og nú sérðu þinn Krist.
(SBL)
Megi móðir okkar hvíla í friði. Minning hennar lifir í hjörtum okkar.

Halldór Benóný, Sigríður Bernadetta, Haraldur og Jón Baldur.