Cooking with Janica er skemmtilegt blogg þar sem kærusturparið Jessica Pinney and Janette Staub deila girnilegum og kreatífum hugmyndum og uppskriftum úr eldhúsi sínu í L.A. Þær segja bloggið vera sprottið út frá of miklum tíma á Pintrest, þörf fyrir að fylla upp í leiðinlegan tíma og þeirra óseðjandi innra „feita barni.“
Ein vinsælasta uppskrift þeirra er þessi einfalda en afar girnilega uppskrift af „crunchwrap“ sem myndi ef til vill útleggjast sem vefjubaka á íslensku. Jessica og Janette hafa miklar mætur á þeim skyndibitarétti en vildu reyna að gera hollari útgáfu af mexíkóska gúmmelaðinu. Uppskriftin tókst stórvel og bragðast að þeirra sögn betur en upphaflegi rétturinn á skyndibitastaðnum Taco Bell.
Matarvefur mbl.is eldaði réttinn fyrir skemmstu við mikinn fögnuð viðstaddra. Við skiptum þó ostasósunni út fyrir salsasósu, bætum við fersku kóríander með tómötunum og bárum bökurnar fram með salati og fersku guacamole.
Innihald í 6 vefjubökur
500 g nautahakk
1 pakki taco kryddblanda
7 vefjur
6 stökkar taco skeljar
1 dós sýrður rjómi
2 bollar rifinn ostur
2 bollar smátt skrorið íssalat
1 bolli saxaðir tómatar
1 bolli ostasósa
Aðferð:
- Steikið hakkið á pönnu á miðlungshita þar til það verður gegnsteikt. Hellið vatninu sem hakkið gefur frá sér af.
- Kryddið kjötið með taco kryddblöndunni og bætið vatnið við ef leiðbeiningarnar á kryddpakkanum fara fram á það.
- Hrærið vel saman og steikið í 2-3 mínútur.
- Setjið kjötið til hliðar.
- Skerið kálið og tómatana niður.
- Hitið vefjurnar í örbylgjuofni í 20 sekúndur.
- Leggið eina köku í einu á flatt yfirborð og setjið um það bil ½ bolla af kjötfyllingu í miðjuna.
- Bætið við 2-3 msk. af ostastósu.
- Takið því næst tacoskelina – brjótið hana í tvennt og leggið yfir kjötið.
- Ofan á skelina kemur þunnt lag af sýrðum rjóma, káli, tómötum og loks ostur.
- Rifið af lítinn bita af vefju og setjið ofan á fyllinguna til að koma í veg fyrir að fyllingin velli út.
- Til að brjóta herlegheitin saman í böggul skaltu byrja á botninum og brjóta neðsta hluta vefjunnar upp á miðju fyllingarinnar. Snúðu svo vefjunni og haltu áfram að brjóta enda vefjunnar upp á fyllinguna og gerðu það allan hringinn uns hún er fullkomlega lokuð.
- Steikið svo böggulinn á pönnu upp úr smá olíu í 2-3 mínútur á miðlungshita á hvorri hlið eða þar til vefjan tekur að gyllast. Best er að byrja á að steikja fyllingarhliðina.
Best er að borða vefjubökurnar strax á meðan þær eru heitar og osturinn mjúkur.
Vefjubakan er örlítið föndur en vel þess virði.
cookingwithjanica.com/