Fiskibollur eru í miklu uppáhaldi á mörgum íslenskum heimilum. Hér er komin frumleg, bragðmikil og einstaklega góð uppskrift að þessum þjóðarrétti Íslendinga. Bollurnar má bæði steikja á pönnu upp úr olíu eða baka þær á bökunarpappír inni í ofni til að hafa þær fituminni.
Með bollunum er gott að hafa agúrkusalat, sætkartöflumús og engiferjógúrtsósu. Reyndar er sósan svo góð að það er erfitt að drekka hana ekki.
Uppskriftin dugar í 30 litlar bollur. Mér finnst skemmtilegast að hafa þær bara tvo munnbita en það tekur auðvitað lengri tíma. Ef þú ert að flýta þér má vel gera stóra klatta.
Innihald bollur
500 g roð og beinlaus ýsa eða þorskur
2 vænar gulrætur, rifnar
1 lítill laukur, smátt saxaður
1 egg
1 tsk. sítrónusafi
150 ml ab-mjólk
4 msk. heilhveiti
1 og ½ tsk. salt
½ tsk. pipar
½ tsk. chili-flögur (ég nota blandaðar chili-flögur í kvörn)
3 msk. saxað ferskt dill*
olía til steikingar
*Kóríander er örugglega stórgott
líka. Þá mætti vel bæta við 1 tsk. af fersku rifnu
engifer líka.
Engifersósa
200 ml ab-mjólk eða hreint
jógúrt
1 tsk. rifið ferskt engifer
1 msk. appelsínusafi
1 tsk. hunang
½ tsk. sítrónubörkur
ferskt krydd ef vill, t.d. steinselja
salt á hnífsoddi
Öllu blandað vel saman.
Meðlæti
Agúrkusalat – agúrka rifin niður í ræmuskera. Ræmurnar eru þerraðar á pappír.
Kínakálsblöð
Bökuð sæt kartafla – stöppuð
Ferskt dill til skreytingar
Aðferð við bollur
Hakkið fiskinn í hakkavél eða
matvinnsluvél.
Rífið gulrótina niður.
Hakkið laukinn í matvinnsluvél eða saxið smátt.
Hrærið öllum innihaldsefnum bollanna vel saman.
Gott er að setja farsið inn í kæli í 30 mínútur.
Þá er tilvalið að gera sósuna og salatið.
Þegar farsið hefur kólnað eru bollur eru mótaðar úr deiginu með teskeið og steiktar upp úr olíu á miðlungshita í um 4-5 mín. á hvorri hlið. Ef baka á þær inni í ofni er best að setja þær á bökunarpappír og baka á 160 gráðum í um 15 mínútur. Svo er bara að njóta gleðinnar!
Ábending! Kaldar fiskibollur eru hið besta millimál og sóma sér vel í nestisboxum. Ljúfur fisksali kom mér upp á þetta þegar ég stóð inni í troðfulli fiskbúð með gólandi barn. Hann rétti þeirri stuttu kalda fiskbollu og þá komst allt í jafnvægi!