Jólabjórinn er víða komin í sölu á krana á veitinga- og kaffihúsum en kemur þó ekki í sölu hjá Ríkinu fyrr en 15. nóvember. Bjórverð hérlendis hefur mikið verið til umræðu síðustu misseri en algengt verð á stórum bjór á krana er allt frá 900 krónur upp í 1600 krónur eftir gerð og gæðum en sérbruggaðir bjórar geta vel verið dýrari.
Stofan Café er kaffihús og ölstofa á Vesturgötu 3 þar sem antikverslunin Fríða Frænka var áður til húsa. Á neðri hæð Stofunnar er að finna vinsælan bar. Vakið hefur þó nokkra athygli að Víking jólabjór er seldur á 750 krónur glasið en ekki er um sérstakan aflslátt að ræða heldur fast verð á meðan bjórinn er í sölu.
„Ég tók þá ákvörðun að vera með ódýrasta jólabjórinn í bænum," segir Haukur Ingi Jónsson eigandi Stofunnar. Víking jólabjór er almennt á um 900 - 1300 krónur á flestum börum svo um töluverða verðlækkun er að ræða. Aðspurður um hvort hann sé þá nokkuð að græða á sölu bjórsins hlær Haukur.
„Þetta er í lagi ef glasið brotnar ekki. Þá er ég komin í mínus," segir Haukur og viðurkennir að hann sé mikið jólabarn enda fæddur 17. desember og um leið bjórunnandi og það hafi líklega einhver áhrif á ákvörðunina.