Ítalskar kjötbollur sem breyta lífum

Ítölsk veisla sem gleður hjartað.
Ítölsk veisla sem gleður hjartað. Tobba Marinós

Ég get með sanni sagt að ég hef náð að fullkomna uppskriftina að ítölskum kjötbollum. Eftir þó nokkuð margar tilraunir er ekkert sem ég myndi breyta og þá er nú mikið sagt því ég get illa farið eftir uppskriftum. Þessi uppskrift gengur svo langt að vera "life changing" eða lífsbreytandi. Hún fær tuðandi frænkur og fáránlega frændur til að verða mjög viðráðanleg og jafnvel viðkunnanleg! 

Innihaldsefni

500 g gott nautahakk – helst beint frá bónda
1 dl rasp – ég nota heimagert súrdeigsrasp en gott rasp fæst t.d. í Sandholtsbakaríi.
1 laukur – mjög smátt saxaður (annars loða bollurnar illa saman)
1/2 geiralaus hvítlaukur
1/2 dl saxaðar furuhnetur
1 msk. sítrónubörkur (ég læt sítrónuna örstutt í sjóðandi vatn – og passa að nota ekki hvíta hluta barkarins)
1 dl fersk basilika söxuð
1 stórt egg
1 msk. ítölsk kryddblanda
1 dl parmesanostur
Salt
Pipar
Ólívuolía

Leiðbeiningar

Saxið laukinn smátt og merjið hvítlaukinn í hvítlaukspressu. Setið í skál ásamt hakkinu, basilikunni, parmesanostinum, sítrónuberkinum, brauðraspinu, furuhnetunum og kryddinu. Saltið og piprið.
Setjið eggið út í og hnoðið vel saman með höndunum.
Mótið litlar bollur. Mér finnst smekklegra að hafa þær litlar en það má vel gera stórar ef enginn tími er í föndur.
Setjið bollurnar á bökunarpappír og sáldrið örlítilli ólívuolíu yfir ef vill.
Bakið bollurnar í miðjum ofni á 180 gráðum í 15-20 mínútur, eftir stærð.

Borðið með góðri pastasósu, spaghettí ef vill og rifnum parmesanosti. Mér finnst líka fínt að sleppa pastanu og vera með salat eða grillað eggaldin í staðinn.

Klettasalat með piccolo-tómötum, rauðlauk, ferskum mozzarella og sítrónuolíu finnst mér best með.

Ég elska þessa uppskrift því mér leiðist svo að steikja bollurnar – það er líka mun óhollara.

Bragðmiklar kjötbollur sem innihalda meðal annars ferskan basil, sítrónubörk og …
Bragðmiklar kjötbollur sem innihalda meðal annars ferskan basil, sítrónubörk og parmesan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert