Nýtt veitingahús mun opna í Marshallhúsinu eftir áramót. Reksturinn verður í höndum Leifs Kolbeinsson oft kenndur við La Primavera. Leifur hefur gefið út matreiðslubækur, rak um árabil eitt vinsælasta veitingahús landsins La Primavera og stýrir öllum veitingarekstri í Hörpunni ásamt og Jóhannesi Stefánssyni betur þekktur sem Jói í Múlakaffi.
Veitingahúsið nýja verður staðsett í mekka lista- og matarmenningar út á Granda en í Marshallhúsinu verður listin allsráðandi. Nýlistasafnið og Kling og Bang fá síðan sitthvora hæðina til umráða þar sem settar verða upp fjölbreytilegar sýningar. Ólafur Elíasson hefur tekið á leigu heila hæð undir sína starfsemi. Ekki fæst gefið upp að sinni hvaða áherslur verða á veitingahúsinu en veðja mætti á að fiskur verði þar í stóru hlutverki enda stutt að sækja ferskan fisk. Heimildir Matarvefsins herma að mikil vinna fari í hvert einasta smáatriði og veitingahúsið verði hið glæsilegasta en það verðust staðsett á neðstu hæð hússins.
Veitingahús Leifs verður skemmtileg viðbót í matamenningu Grandans en nú þegar er þar að finna ísbúð, kökusjoppu, kjötbúð, ostabúð, veitingahúsið Coocoo‘s Nest, veitingahúsið Bergson REY, Kaffivagninn, Bryggjan Brugghús og japanska tehúsið Kumiko.