Ostakökubrownie afmælisbarnsins

Þriggja laga terta með browniebotni, ostakökufyllingu og jarðarberjakremi!
Þriggja laga terta með browniebotni, ostakökufyllingu og jarðarberjakremi! http://lifdutilfulls.is

Júlía Magnúsdóttir heilsumarkþjálfi og eftirréttaunnandi á afmæli á sunnudaginn. Hún tók forskot á sæluna og bjó til þessa fallegu ostakökubrownie sem fer vel í kropp og kætir.

„Að sjálfsögðu er hún laus við unninn sykur, dásamlega holl og ljúffeng! Það vantar aldeilis ekki upp á sætindin í desember og kjörið er að breyta gömlum siðum til hins betra.

Mér finnst brownie tertan falleg þegar hún er borin fram eins og lagterta, þá nota ég ílangt silikonform en einnig má nota hringlaga smelluform. Ég elska kakó og fær mér dökkt súkkulaði daglega og liggur því beint við að það sé kakó í afmæliskökunni minni. Ostakökur og jarðarber eru einnig í miklu uppáhaldi og þykir mér því þessi samsetning himnesk.

Falleg terta sem gefur góða næringu og gleði í hjarta.
Falleg terta sem gefur góða næringu og gleði í hjarta. lifdutilfulls.is

Súkkulaðibrownie:

2 bollar möndlur

1 1⁄2 bolli döðlur

1 bolli kókosmjöl

2 msk. kakó

Salt

Ostakökukrem:

3 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti í um það bil 1-2 klukkustundir) 3/4 bolli kreistur sítrónusafi

1/2 bolli hrár kókospálmanektar/hlynsíróp

1 tsk. vanilludropar eða meira

3/4 bolli kókosolía (brædd í vatnsbaði)

Jarðaberjakrem:

1 bolli af ostakökukreminu
2 bollar jarðaber fersk (ef þið notið frosin er gott að þíða)
1-2 msk. kókosolía fljótandi
1 tsk. vanilludropar

Setjið öll hráefnin fyrir brownie-botninn í matvinnsluvél og hrærið. Þjappið niður í 23 cm hringlaga smelluform eða ílangt sílikonform, ég notaði 22×8 cm form.

Gerið næst ostakökukrem með því að blanda öllu nema kókosolíu í matvinnsluvél eða blandara og vinna þar til silkimjúk áferð fæst. Bætið kókosolíu í fljótandi formi yfir að lokum. Takið 1 bolla af kreminu frá eða skiljið eftir í vélinni og hellið rest yfir kökuna. Geymið kökuna síðan í frysti í 2-4 klst eða þar til kremið hefur stífnað.

Á meðan má útbúa jarðarberjakrem með því að hræra öll hráefni saman út í það sem eftir var af ostakökukreminu og hella að lokum yfir. Kakan er svo geymd í frysti yfir nótt. Takið út klukkustund áður en hún er borin fram og skreytið.

Ég nota hráan kókospálmanektar, sem er síróp unnið úr blómum kókostrésins. Sírópið fæst í Nettó sem og Gló og afar lágt í frúktósamagni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert