Í gær var ár síðan pizzustaðurinn Ugly Pizza var opnaður á Smiðjuvegi en í dag eru staðirnir orðnir þrír. Nýjasti staðurinn var opnaður um helgina við Lækjargötu 8, þar sem Gamla smiðjan var áður til húsa.
Unnar Helgi Daníelsson, eigandi Ugly Pizza, segir rekstur fyrirtækisins hafa gengið þokkalega miðað við að vera frekar lítið og ungt startup-fyrirtæki. Staðurinn við Lækjargötu var opnaður eins og fyrr segir um helgina og var svo mikið að gera að allt hráefni á staðnum kláraðist.
Fyrsti Ugly staðurinn sem var opnaður 18. desember 2015 er eins og fyrr segir á Smiðjuvegi en skömmu síðar var annar staður opnaður við Langarima í Grafarvogi.
Spurður hvort von sé á fleiri stöðum í náinni framtíð segir Unnar alltaf stefnt að því að fyrirtækið vaxi og dafni en segir engar frekari opnanir í kortunum eins og er. „Þetta er náttúrulega frekar lítið fyrirtæki sem varð mjög stórtækt á stuttum tíma. Þetta er orðið gott í bili en viljum auðvitað stækka með tímanum.“
Unnar segist vera ánægður með að hafa fengið húsnæðið við Lækjargötu þar sem Gamla smiðjan var áður. „Það er auðvitað frábært að vera í miðbænum.“
Pizzurnar á Ugly eru nokkuð óhefðbundnar en hægt er að velja um ferns konar botna; kjöt, blómkáls, spelt og hveiti. Unnar segir blómkálsbotninn hafa slegið í gegn og vera vinsælasta botninn ásamt gamla góða hveitibotninum. „Fólk hefur tekið vel í blómkálsbotninn sem er mjög gaman. Kjötbotninn er ekki alveg jafnvinsæll, ekki allir sem leggja í hann, en það eru þó alltaf einhverjir.“
Í samtali við mbl.is á síðasta ári, skömmu eftir opnun fyrsta staðarins, sagði Unnar að staðurinn hafi hlotið nafnið Ugly þar sem kjöt- og blómkálsbotnarnir eru hollir en þó séu þeir ekki mjög fallegir.
Hann segir nafnið vekja mikla athygli, sérstaklega nú þegar staðurinn er kominn í miðbæinn. „Það hefur verið gaman að sjá viðbrögð ferðamanna við nafninu, það eru margir sem hafa komið inn spyrjandi út í nafnið.“