Þráinn Freyr Vigfússon, fyrrverandi yfirmatreiðslumaður í Bláa lóninu og Kolabrautinni, staðfesti í samtali við Matarvefinn að hann hefur í félagi við fleiri tryggt sér húsnæðið að Laugavegi 28 þar sem Bunk-bar var áður til húsa. Í sama húsi er verið að reisa glæsilegt ION-Hótel.
Þráinn vill lítið láta uppi sem stendur en segist stefna á að opna veitingahúsið seinnihluta marsmánaðar. Staðurinn mun taka um 80 manns í sæti auk þess sem bakgarður hússins mun bjóða upp á einhvers konar snilld sem Þráinn vill lítið fara út í. Hálfdán Pedersen hefur verið ráðinn í að hanna staðinn en hann hannaði meðal annars Nafnlausa pítsastaðinn, Burro og Pabló-diskóbar.
Þráinn er heldur enginn nýgræðingur en hann hefur þjálfað kokkalandsliðið síðust 5 ár, var krýndur kokkur ársins 2007 og er fyrrum keppandi í Bocuse d´Or. Auk þess hefur hann komið að rekstri veiðihúsa Kjarrár og Þverár síðustu 4 ár.