Allir sem hafa einhvern tímann drukkið kokteil – hvort heldur áfengan eða óáfengan – vita að leyndardómurinn á bak við góðan drykk liggur í sykursírópsblöndunni.
Okkur rann því blóðið til skyldunnar að kenna ykkur réttu handtökin til að gera líf ykkar betra og auka gæði drykkjarfanganna í komandi veisluhaldi.
Uppskriftin er einföld.
Innihald:
vatn
sykur
lime-börkur
Í pott setjið þið vatn og sykur – í jöfnum hlutföllum.
Látið suðuna koma upp og slökkvið þá undir og látið kólna. Til eru aðrar aðferðir þar sem sírópið er soðið niður og verður þar af leiðandi mun sætara, en það er önnur uppskrift.
Við ætlum hins vegar að kenna ykkur einfalda aðferð þar sem stuðst er við fullt af skemmtilegum kokkahugtökum sem þið getið notað og slegið aðeins um ykkur í veislunni.
Ef þið viljið bragðbæta sírópið er það yfirleitt kallað að „infjúsa“. Dregið af enska orðinu infuse en það er slangrið sem sérfræðingarnir nota.
Vinsælt er að „infjúsa“ sykursíróp með lime og þá er tekinn lime-börkur og hann „blancheraður“. Það þýðir að hann er settur í pott með vatni og suðan er látin koma upp. Þetta ferli er endurtekið tvisvar eða þrisvar og ávallt skipt um vatn á milli.
Tilgangurinn með þessu er að losna við biturleikann úr berkinum.
Síðan setjið þið börkinn út í sykursírópið þegar suðan er komin upp í því og leyfið því að kólna með berkinum í. Síðan takið þið börkinn upp úr og tappið sírópinu á fallega flösku, merkið með bragði og dagsetningu og geymið í kæli. Sírópið á að geymast vel og við lofum að þú munt slá í gegn í næstu veislu með það meðferðis. Það virkar alveg jafnvel í áfenga og óáfenga drykki.