„French toast“ er í margra hugum það girnilegasta sem hægt er að borða. Það er jafnauðvelt að búa það til eins og það er að klúðra því og því erum við með skotheldar aðferðir til að tryggja að það heppnist sem allra best.
1. Þurrt brauð. Upphaflega var rétturinn til þess ætlaður að nýta þurrt afgangsbrauð þannig að þurrt brauð er klárlega besti kosturinn hér. Þurrt brauð dregur betur í sig eggin og munið að þurrt brauð er ekki það sama og ónýtt brauð.
2. Ekki harða skorpu. Annað lykilatriði er að velja ekki brauð með mjög harða skorpu. Það bara passar ekki. Klassískt brioche er ákaflega vinsælt í réttinn svo að dæmi séu tekin.
3. Egg á móti mjólk. Það eru ekki allir sammála um hlutföllin milli eggja og mjólkur. Þessi uppskrift hallast meira að eggjum en þetta er eitt af þessu sem má leika sér með. Hins vegar skyldi enginn fikta í vanillunni eða kanilnum.
4. Steikingin. Illa steikt „French toast“ er skelfilegt og ber vott um mikla vankunnáttu í franskri matargerð. Þú þarft bara að muna tvennt:
5. Ekki ofelda brauðið. En passaðu þig líka á því að elda það ekki of lítið. Lykillinn hér er að fylgjast með því og þegar það er orðið passlega gullinbrúnt skal það úrskurðað fullkomið til átu.
Uppskrift
8 þykkar brauðsneiðar
6 stór egg
4 eggjarauður
1/2 bolli rjómi
1 msk. vanilludropar
1 tsk. kanilduft
1/2 tsk. salt
3 msk. ósaltað smjör
2 tsk. canola olía
Smjör og síróp
Aðferð
1. Þurrkið brauðið í ofninum. Stillið á lágan hita og setjið brauðið á smjörpappír á grind. Markmiðið er ekki að rista brauðið eða brúna það heldur eingöngu að þurrka það svo það drekki betur í sig girnilega eggjablönduna.
2. Lækkið hitann á ofninum niður í 90 gráður. Takið brauðið út úr ofninum og snúið smjörpappírnum á grindinni.
3. Undirbúið eggjablönduna. Pískið saman eggjunum, eggjarauðunum, rjómanum, vanillunni, kanilduftinu og saltinu þar til fullblandað og froðukennt.
4. Gott er að setja blönduna í eldfast mót til að geta lagt brauðið í blönduna. Leggið brauðið í blönduna og látið liggja í tvær mínútur eða svo. Snúið brauðinu með spaða. Meðan brauðið drekkur í sig skal hita pönnuna.
5. Setjið 1 1/2 msk. af smjöri og 1 msk. af olíu á pönnuna og hitið upp í miðlungs-lágan hita. Þegar smjörið hefur bráðnað skal velta pönnunni til að húða hana alveg.
6. Eldið brauðið á pönnunni. Lyftið einni sneið í einu upp úr eldfasta mótinu og leyfið umframeggjablöndu að leka af. Steikið uns brauðið er orðið gullinbrúnt og fínt. Þegar búið er að steikja helminginn að brauðinu skal hreinsa pönnuna og setja síðan ferskan skammt af smjöri og olíu og steikja afganginn. Geymið tilbúnu brauðin í ofninum.
7. Berið fram með smjöri og sírópi og njótið vel.