Harpa Hilty Henrysdóttir og kona hennar Steff Hilty, sem er frá Liechtenstein, opnuðu í lok febrúar kaffihúsið Home – Icelandic and Home Cooking, íslenskt kaffihús í Vín. Þær bjuggu áður á Ísafirði, þar sem Steff vann á kaffihúsinu Bræðraborg en Harpa kenndi við grunnskólann. „Okkur langaði út í heim og þá þurftum við að finna okkur eitthvað sniðugt að gera. Þar sem Steff er afbragðsgóður kokkur ákváðum við að opna íslenskt kaffihús einhvers staðar í þýskumælandi Evrópu. Vínarborg varð fyrir valinu þar sem hún er sérstaklega fjölskylduvæn og vinaleg borg, en tvær dætur mínar, átta og tólf ára, eru með okkur hérna,“ segir Harpa og bætir við að ef þær hefðu vitað fyrir fram hversu mikil skriffinnskan væri í kringum það að opna veitingastað í Austurríki hefðu þær kannski farið eitthvert annað.
„En við komumst í gegnum pappírsflóðið svo þetta hafðist og við erum mjög ánægðar hérna,“ segir hún, en þær fluttu út í ágúst og fundu heppilegt húsnæði í 9. hverfi borgarinnar í byrjun desember. Endurbætur hófust í janúar og staðurinn var opnaður 21. febrúar.
Það var þó ekkert skilyrði þegar við vorum að leita að starfsfólki, það bara lenti svona og við teljum okkur hafa verið afar heppnar með hópinn sem við fundum.
Það var tekinn íslenski stíllinn á þetta, þar sem allir halda að þeir geti allt, svo að barþjónar og kokkar lögðu parket, máluðu, skrúbbuðu og skröpuðu áður en við opnuðum loksins,“ segir hún.
Eins og nafnið á kaffihúsinu gefur til kynna er áhersla lögð á hið notalega og heimilislega. Til dæmis eru húsgögnin að mestu keypt á nytjamörkuðum. „Við erum með töluvert af íslenskum réttum og mat innblásinn af íslenskri menningu og stemmingu,“ segir hún og nefnir að meðal þess sem þær séu með fast á matseðlinum sé harðfiskur, hjónabandssæla og bjór frá brugghúsinu Einstök. Harðfiskurinn er að sjálfsögðu frá Ísafirði en einnig fá þær ferskan fisk frá Íslandi, salt frá Saltverki og íslenska rabarbarasultu í baksturinn.
Sem dæmi var boðið upp á vatnsdeigsbollur að íslenskum hætti í kringum bolludaginn. Frá opnun hefur einnig verið á boðstólum bleikja, fiskborgarar og saltfiskréttir.
Fyrir utan Íslandsþemað leggja þær áherslu á nærumhverfið. „Við viljum vera í góðum tengslum við nærumhverfið og reynum að kaupa sem mest af því sem ekki kemur frá Íslandi frá nágrönnum okkar. Kaffið okkar er brennt í kaffibrennslu hér í götunni hjá Coffee Pirates og bjórinn kemur frá nýlegri handverksbruggsmiðju sem heitir Brew Age, en við erum eini staðurinn í Vín þar sem er hægt að kaupa allar tegundirnar þaðan. Sömuleiðis kemur vínið líka frá lítilli fjölskyldurekinni vínekru rétt fyrir utan borgina og mjólkin kemur beint frá býli,“ segir Harpa að lokum. Hér að neðan má sjá stemmingsmyndir af kaffihúsinu.
Þeir sem vilja vita meira um kaffihúsið geta skoðað það á Facebook.com/icelandichome.