„Við erum að taka við Grandagarði 11 þar sem Texasborgarar eru til húsa 1. maí og hefjum þá framkvæmdir. Stefnt er á að opna í lok sumars,“ segir Sindri Snær Jensson, annar eigenda fataverslunarinnar Húrra og verðandi veitingahúsaeigandi. Grandinn eflist því enn frekar þar sem mikil og vinsæl veitingahúsamenning hefur myndast á Grandagarði. Þar er að finna nokkra af vinsælustu veitingastöðum og sérvöruverslunum landsins og má þá helst nefna The Coocoo's Nest, Marshal restaurant + bar, Valdísi ísverslun, Matarbúrið kjötverslun, Kaffivagninn, Kumiko tehús, Bryggjuna brugghús og Búrið ljúfmetisverslun.
Sindri segir að þetta verði ekki hinn hefðbundni pizzastaður. „Þetta verða súrdeigspítsur eins og þær voru upphaflega gerðar í Napolí þegar pítsan var fundin upp fyrir góðum 300 árum síðan. Þessi hefð er kennd við svæðið í kringum Napolíborg, oftast kölluð napoletana eða neapolitan. Þetta afbrigði af pizzu er heilnæmara, ferskara og fljótlegra en það sem við þekkjum hér á landi. Í botninum er til dæmis ekkert nema hveiti, salt, vatn og náttúrulegt ger og í áleggjum er áhersla lögð á mikil gæði frekar en magn. Pizzan bakast svo á innan við einni mínútu í 500 gráðu heitum ofni á meðan hefðbundnar pítsur bakast á 5-10 mínútum.“
„Við erum fjórir sem komum að verkefninu. Ég, Jón Davíð Davíðsson, meðeigandi minn að Húrra, Haukur Már Gestsson og Brynjar Guðjónsson. Þeir tveir hafa átt þann draum lengi að opna svona stað og fengu okkur Jón til liðs við sig þar sem við Jón höfum einnig verið að spá í veitingageiranum í talsverðan tíma. Við erum allir æskuvinir úr Laugarnes-/Langholtshverfinu,“ segir Sindri en þeir félagar taka aðeins við húsnæðinu sem hýsti Texasborgara en Magnús Ingi Magnússon, betur þekktur sem Texas-Maggi, heldur áfram með Sjávarbarinn sem er fiskiveitingastaður við hlið Texasborgara.