Eitt af kennileitum miðborgarinnar, Cafe París, verður opnað á ný í dag eftir gagngerar endurbætur. Að sögn eins eigenda staðarins, Sigurgísla Bjarnasonar, er markmiðið að færa staðinn aftur nær því sem hann var í upphafi og verður frönsk bistro-stemning allsráðandi. Ásamt Sigurgísla eru það þeir Stefán Melsted, Jakob Jakobsson og Birgir Bieltvedt sem mynda eigendahóp Café París.
„Afgreiðslutíminn verður lengdur en við munum opna klukkan 7.45 á morgnana og hafa opið til miðnættis. Við skiptum matseðlinum í þrennt; morgunverð, hádegismat og kvöldverð. Það er kannski stærsta áherslubreytingin að meira er lagt upp úr matnum, en kaffið og kökurnar verða þó enn á sínum stað,“ segir Sigurgísli, spurður út í helstu breytingar.
Búið er að gjörbreyta staðnum að innan og skapa huggulega og innilega stemningu. Staðurinn er þéttari auk þess sem búið er að færa eldhúsið upp þannig að það er nú öllum sýnilegt. Eins er búið að smíða stærðarinnar bar sem nýtur sín vel.
Það eru Ingibjörg Jónsdóttir og Davíð Pitt sem eiga heiðurinn af hönnun staðarins en lagt var upp með að hafa hann eins klassískan og kostur var. Staðurinn er mjög evrópskur í útliti og mikið verður lagt upp úr góðum mat og víni. Eins verður útisvæðið, sem notið hefur mikilla vinsælda á góðviðrisdögum, uppfært.
Verið er að handmála allar gluggamerkingar og öll skilti inni á staðnum en það er Skiltamálun Reykjavíkur sem á heiðurinn af þeim.